Fara í innihald

Mikliskurður

Hnit: 30°15′41″N 120°13′26″A / 30.26139°N 120.22389°A / 30.26139; 120.22389
Úr Wikipediu, frjálsa alfræðiritinu
(Endurbeint frá Keisaraskurðurinn)

30°15′41″N 120°13′26″A / 30.26139°N 120.22389°A / 30.26139; 120.22389

Landakort af vatnaleiðum „Mikla skurðar“ í Austur-Kína.
Kort af vatnaleiðum „Mikla skurðar“ í Austur-Kína.

Mikliskurður (eða Keisaraskurðurinn) (kínverska: 大运河; rómönskun: Dà yùnhé), er samheiti á manngerðum skipa- og áveituskurðum í Austur Kína; 1.794 kílómetrar að lengd; að jafnaði 30,5 metrar á breidd og 4.6 - 6 metra á dýpt. Með skipastigum rís hann hæst í 42 metra. Skurðirnir tengja saman tvö helstu fljót Kína: Gulafljót og Jangtse, auk annarra fljóta og vatna. Skurðirnir eru elstu skipaskurðir heims. Gerð þeirra hefur staðið yfir í meira en 2.000 ár.

Kínverjar þekkja „Miklaskurð“ sem Jing – Hang skurðinn (kínverska: 京杭大运河; rómönskun: Jīng-Háng Dà Yùnhé), sem þýðir bókstaflega „Beijing – Hangzhou skurðurinn“ þar sem hann byrjar í höfuðborginni Beijing; fer um borghéraðið Tianjin, Hebei hérað, strandhéruðin Shandong, Jiangsu og Zhejiang; og endar í Hangzhou borg í Zhejiang héraði.

„Mikli skurður“ í höfuðborginni Beijing.
„Mikli skurður“ í höfuðborginni Beijing í Kína.

Gerð „Miklaskurðar“ var stærsta og umfangsmesta mannvirkjaverkefni veraldar fyrir iðnbyltinguna. Hann var burðarás samgangna á milli norður- og suðurhluta Norður-Kína sléttunnar. Hann gerði mögulegan flutning á umframkorni landbúnaðarhéraðanna við Jangtse fljót og dalanna við Huai-fljót, til að fæða íbúa höfuðborgarinnar og Norður-Kína. Þegar á 13. öld tengdu skipaskurðirnir saman fimm helstu vatnasvæði Kína.

Þetta merkilega skurðarkerfi hefur gegnt mikilvægu hlutverki í að tryggja efnahagslega velmegun og stöðugleika í Kína og er enn í notkun í dag.

„Mikliskurður“ var árið 2014 er settur á Heimsminjaskrá UNESCO.

Mynd af bátum á syðsta hluta „Miklaskurðar“ sem liggur frá Hangzhou borg í Zhejiang héraði til borgarinnar Zhenjiang í Jiangsu héraði, þar sem skurðurinn mætir Jangtse fljóti.
Syðsti hluti „Mikla skurðar“ liggur frá Hangzhou borg í Zhejiang héraði til borgarinnar Zhenjiang í Jiangsu, þar sem skurðurinn mætir Jangtse fljóti.

Elstu hlutar „Miklaskurðar“ eru frá 5. öld f.Kr. og nær byggingarsaga þessa mikla mannvirkis fram til dagsins í dag.

Elstu skurðirnir liggja á milli Jangtse fljóts og borgarinnar Huaiyin í Jiangsu héraði, sem var við Gulafljót, þegar fljótið féll mun sunnar en það gerir í dag. Þessi hluti er jafnan þekktur sem Shanyang- skurðurinn. Þessi forni farvegur var fyrst lagður á 4. öld f.Kr., en á tímum Yang Ti keisara Sui-veldisins (581—618) var hann endurgerður, síkin dýpkuð og tengd saman. Meðfram skurðunum voru byggðir vegir, póststöðvar og keisaraskálar. Skurðirnir urðu síðan betur skipgengir á 10. öld, á tímum Songveldisins (960–1279), þegar verkfræðingurinn Qiao Weiyue fann upp skipastigann. Skipaskurðurinn rís hæst í 42 metrum nálægt fjöllunum Shandong héraðs.

Á milli 10. og snemma á 13. öld. féllu skurðirnir í niðurníðslu. Kúblaí Kan stórkan Mongólaveldisins (1260—1294) lét endurbyggja skurðina á 13. öld. og framlengdi þá til höfuðborgarinnar Dadu, sem nú heitir Beijing. Endurgerðin byggði á þörf fyrir flutning korns frá landbúnaðarhéruðum við Jangtse fljót og Huai-fljóts, til höfuðborgarinnar og herja í Norður-Kína.

Úrbætur voru einnig gerðar á tímum Mingveldisins (1368—1644). Við upphaf þess var höfuðborgin í Nanjing, en eftir að Beijing varð aftur höfuðaðsetur ríkisins árið 1403, var ráðist í dýpkun og endurgerð skurðanna. Héldust þeir í þeirri mynd allt til 19. aldar þegar röð gríðarlegra flóða hófst í Gulafljóti sem færði farveg þess langt til norðurs. Eftir Taiping-uppreisnina (1850–64) og Nian-uppreisnina (1853–68) var notkun skurðanna sem meginsamgönguleið til Beijing hætt og norðurhluti skurðakerfisins fór í niðurníðslu. Árið 1934 réðust kínversk stjórnvöld í mikið viðhald og endurgerð skurðanna; skipastigar voru byggðir til að meðalstór gufuskip gætu siglt um skurðina.

Enn var hafist handa árið 1958 að endurbyggja skurðakerfið, svo þar gætu allt að 600 tonna skip farið um. Á árunum 1958—1964 voru skurðirnir lagaðir, breikkaðir og dýpkaðir; ásamt því að nýjum skipastigum var komið fyrir.

Umfang skurðarins

[breyta | breyta frumkóða]
Mynd af „Mikla skurði“ við borgina Jining.
„Mikliskurður“ við borgina Jining í Shandong héraði.

„Mikliskurður“ er gríðarlegt mannvirki. Hann nær yfir 1.794 kílómetra og tengir saman tvö helstu fljót Kína: Gulafljót og Jangtse, auk annarra fljóta og vatna.

Byggt á stjórnunareiningum Kína nútímans, frá norðri til suðurs, liggur skurðurinn um eftirfarandi borgir og héruð:

Sjá einnig

[breyta | breyta frumkóða]
  • Skipastigi, uppfinning verkfræðingsins Qiao Weiyue á 10. öld.
  • Dujiangyan áveitukerfið í Sesúan héraði í vesturhluta Kína. Upphaflega byggt upp á tímum Qin-veldisins á þriðju öld f.Kr. sem áveitu- og flóðvarnaverkefni og er enn í notkun í dag.