Jón Arason í Vatnsfirði
Jón Arason (19. október 1606 – 10. ágúst 1673) var skáld og prófastur í Vatnsfirði við Ísafjarðardjúp á 17. öld og áður skólameistari í Skálholtsskóla.
Jón var af Svalbarðsætt, sonur Ara Magnússonar í Ögri og Kristínar dóttur Guðbrands Þorlákssonar biskups. Hann sigldi 1624, stundaði háskólanám í Kaupmannahöfn í fimm ár, varð skólameistari í Skálholti 1632 og gegndi því embætti til 1636 en þá varð hann prestur í Vatnsfirði og bjó þar til dauðadags. Sagt var að skólapiltar í Skálholti hefðu lítið séð eftir honum vegna þótta hans og dramblætis. Hann var prófastur í Norður-Ísafjarðarprófastsdæmi og einnig í Strandasýslu.
Jón var skáld og er varðveittur ýmis kveðskapur eftir hann, þar á meðal vísur sem hann orti um nafna sinn, Jón biskup Arason. Hann skrifaði líka Vatnsfjarðarannál elsta, sem þykir einn hinna traustari annála. Sagt var að hann hefði í elli orðið guðhræddur og auðmjúkur af mótlæti.
Kona Jóns var Hólmfríður Sigurðardóttir (9. janúar 1617 – 25. apríl 1692). Börn þeirra voru Magnús digri, bóndi í Vigur og Ögri, faðir Þorbjargar konu Páls Vídalín, Helga eldri prestkona í Laufási, Ragheiður eldri húsfreyja í Flatey, Guðbrandur prófastur í Vatnsfirði, Sigurður prófastur í Holti í Önundarfirði, Ragnheiður yngri biskupsfrú á Hólum, Oddur digri klausturhaldari á Reynistað, Anna digra prestsfrú á Breiðabólstað í Vesturhópi og Ari bóndi á Sökku í Svarfaðardal. Sum af börnum Jóns og Hólmfríðar voru afar feitlagin og sagt að fáir eða engir hestar gætu borið þau.