Hólmfríður Sigurðardóttir

Úr Wikipediu, frjálsa alfræðiritinu
Málverk af Hólmfríði Sigurðardóttur eftir séra Jón Guðmundsson á Felli í Sléttuhlíð. Útskorni ramminn er eftir Illuga Jónsson í Nesi í Höfðahverfi. Málverkið er talið málað á árunum 1690 til 1692.

Hólmfríður Sigurðardóttir (9. janúar 161725. apríl 1692) var prófastfrú í Vatnsfirði á 17. öld. Foreldrar hennar voru Sigurður Oddsson í Hróarsholti í Flóa, sonur Odds biskups Einarssonar, og kona hans Þórunn ríka Jónsdóttir. Sigurður drukknaði sama ár og Hólmfríður fæddist en móðir hennar giftist aftur Magnúsi Arasyni sýslumanni á Reykhólum og ólst Hólmfríður þar upp.

Um Hólmfríði segir Jón Ólafsson frá Grunnavík: „Það var sú, sem lét færa sér utan gylltan lit til hárs síns, að sagt er. Og einhverja vinnukonu þvo sér, ef hún tók á nokkru óhreinu, og sú, er sagði: Mun ég þá verða að segja: æ? þá hún fann sig fyrst þungaða. Af þessu fólki er nefnd Vatnsfjarðardrambsemin.“

Hún giftist 1636 Jóni Arasyni prófasti í Vatnsfirði, sem var yngri bróðir Magnúsar stjúpföður hennar, og bjuggu þau í Vatnsfirði þar til Jón lést árið 1673. Þá flutti hún í Hóla til Ragnheiðar dóttur sinnar og síðar í Laufás til Helgu dóttur sinnar. Í Laufáskirkju er varðveitt málverk af Hólmfríði sem talið er að Helga hafi látið mála í minningu móður sinnar.

Börn þeirra Jóns voru Magnús digri, bóndi í Vigur og Ögri, Helga eldri prestkona í Laufási, Ragnheiður eldri húsfreyja í Flatey, Guðbrandur prófastur í Vatnsfirði, Sigurður prófastur í Holti í Önundarfirði, Ragnheiður yngri biskupsfrú á Hólum, Oddur digri klausturhaldari á Reynistað, Anna digra prestsfrú á Breiðabólstað í Vesturhópi og Ari bóndi á Sökku í Svarfaðardal.

Heimildir[breyta | breyta frumkóða]

  • Þjóð í mótun: Ísland og Íslendingar fyrri alda. Listasafnið á Akureyri 2003 (sýningarrit)
  • „„Af þessu fólki er nefnd Vatnsfjarðardrambsemin." Tíminn, 21. janúar 1962“.