Jean-Paul Marat

Úr Wikipediu, frjálsa alfræðiritinu
Jean-Paul Marat
Málverk af Jean-Paul Marat eftir Joseph Boze (1793).
Fæddur24. maí 1743
Dáinn13. júlí 1793 (50 ára)
DánarorsökMyrtur
StörfLæknir, blaðamaður, stjórnmálamaður
MakiSimone Evrard
ForeldrarJean Mara og Louise Cabrol
Undirskrift

Jean-Paul Marat (24. maí 1743 – 13. júlí 1793) var franskur læknir, blaðamaður og stjórnmálamaður. Hann var fulltrúi Fjallbúa á franska stjórnlagaþinginu á árum frönsku byltingarinnar. Marat var einn helsti talsmaður valdbeitingar Ógnarstjórnarinnar þar til hann var myrtur árið 1793 af Charlotte Corday. Morðið leiddi til þess að Marat varð píslarvottur meðal stuðningsmanna byltingarstjórnarinnar, sérstaklega eftir að Jacques-Louis David málaði frægt málverk af dauða hans.

Æviágrip[breyta | breyta frumkóða]

Jean-Paul Marat fæddist til efnalítillar fjölskyldu af sardinískum ættum í bænum Boudry í Neuchâtel.[1] Hann hafði getið sér góðan orðstír sem læknir þegar franska byltingin braust út árið 1789. Marat rak um hríð eigin læknastofu í London og gaf þar út nokkrar heimspeki- og stjórnmálaritgerðir, þar á meðal ritgerðina Hlekkir ánauðar árið 1774. Í þeirri ritgerð setti Marat fram kenningar sínar um launráð aðalsins og frönsku hirðarinnar gagnvart almenningi. Marat sneri heim til Frakklands árið 1777 og vann um hríð í þjónustu greifans af Artois, bróður Loðvíks 16. Frakklandskonungs.[2][3] Hann sagði upp þessu starfi þremur árum síðar og reyndi að fá útnefningu í frönsku Vísindaakademíuna en hafði ekki erindi sem erfiði.

Hann hafði sætt ofsóknum fyrir stjórnmálaskoðanir sínar og varð að felast í saggafullum kjöllurum og öðrum óheilsuvænum vistaverum. Þetta leiddi til þess að hann veiktist af húðsjúkdómi sem átti eftir að hrjá hann alla ævi. Til þess að draga úr áhrifum sjúkdómsins tamdi Marat sér að sitja oft löngum stundum í baði á meðan hann skrifaði og las.[2]

Marat hóf fulla þátttöku í stjórnmálum eftir að franska byltingin braust út. Hann gaf út blaðið Lýðvininn (franska: L'Ami du peuple) og breiddi með því út málstað öreiganna í borgum Frakklands. Róttæk skrif Marats áttu drjúgan þátt í að vekja stéttarmeðvitund hjá frönskum verkamönnum.[2] Viðhorf Marats voru of róttæk til að þóknast Gírondínum, sem stýrðu Frakklandi, og Marat var jafnvel rekinn í stutta útlegð til Englands vegna gagnrýni sinnar gegn Jacques Necker, fyrrum fjármálaráðherra Loðvíks 16. konungs. Marat sneri aftur eftir aðeins þrjá mánuði og gekk á franska stjórnlagaþingið, þar sem hann talaði fyrir hækkun á tekjuskatti, starfsþjálfun verkamanna og styttingu þjónustutíma manna á herskyldualdri.[3]

Þegar Loðvík 16. og Marie Antoinette reyndu að flýja Frakkland í júní árið 1791 var Marat meðal þeirra róttæklinga sem kölluðu á eftir því að konungurinn yrði settur af og lýðveldi stofnað í Frakklandi. Marat og aðrir róttæklingar úr röðum Jakobína fengu sínu framgengt þann 20. september 1792 en þá varð Frakkland lýðveldi, Loðvík var sviptur krúnunni og síðan tekinn af lífi fyrir föðurlandssvik. Jakobínar ruddu hinum hófsamari Gírondínum úr byltingarstjórninni og hófu ofbeldisfulla Ógnarstjórn.

Um hálfum mánuði eftir fall Gírondínanna bankaði ung kona að nafni Charlotte Corday upp á hjá Marat. Hún hlaut áheyrn hjá honum á meðan hann sat í baði sínu og tjáði honum að hún hefði undir höndum lista af Gírondínum sem hyggðu á gagnbyltingu gegn Jakobínastjórninni. Á meðan Marat virti fyrir sér listann dró Corday upp hníf og stakk hann til bana. Corday taldi Marat bera ábyrgð á ofstækisfullum aðferðum Jakobína og hélt að með því að drepa hann myndi hún koma í veg fyrir frekara ofbeldi.

Jacques-Louis David fangaði síðustu augnablik Marats á frægu málverki sem hann málaði stuttu síðar. Á málverkinu situr Marat dauðvona í baðkarinu með stungusár á bringunni og pappírsörk og fjaðurpenna við höndina. Málverkið stuðlaði að því að Marat varð píslarvottur fyrir málstað Jakobínanna og ekkert lát varð á ofríki þeirra eftir dauða hans.

Tilvísanir[breyta | breyta frumkóða]

  1. „Le origini sarde di Jean-Paul Marat - Biblioteca Multimediale di San Gavino M.le“ (franska). BiblioSanGavino. Sótt 13. nóvember 2018.
  2. 2,0 2,1 2,2 „Ég er reiði fólksins: Marat og hlutverk hans í frönsku byltingunni“. Vikan. 23. febrúar 1967. Sótt 13. nóvember 2018.
  3. 3,0 3,1 „Persónulegt hatur réð valinu“. Morgunblaðið. 15. mars 1992. Sótt 13. nóvember 2018.