Fara í innihald

Charlotte Corday

Úr Wikipediu, frjálsa alfræðiritinu
Charlotte Corday
Málverk af Charlotte Corday eftir Jean-Jacques Hauer.
Fædd27. júlí 1768
Dáin17. júlí 1793 (24 ára)
DánarorsökHálshöggvin
Þekkt fyrirAð myrða byltingarmanninn Jean-Paul Marat
ForeldrarJacques François de Corday og Charlotte Marie Jacqueline Gaultier de Mesnival

Marie Anne Charlotte de Corday d’Armont (27. júlí 1768 – 17. júlí 1793), þekktari undir nafninu Charlotte Corday, var frönsk kona sem myrti franska byltingarmanninn Jean-Paul Marat árið 1793. Hún var dæmd fyrir morð og tekin af lífi undir fallöxi nokkrum dögum síðar.

Charlotte Corday fæddist til eignalausrar lágaðalsfjölskyldu nærri Vimoutiers í Normandí. Vegna fjárhagsörðugleika fjölskyldunnar var Charlotte send í klaustur til að gerast nunna þegar hún var þrettán ára.[1] Á árum sínum í klaustrinu fór Corday að kynna sér rit heimspekinga á borð við Voltaire, Rousseau og Montesquieu og þróaði með sér bæði sterkar stjórnmálaskoðanir og mikla fórnfýsi.[2] Corday bjó í klaustrinu til ársins 1791, en þá þjóðnýtti nýja byltingarstjórnin eignir kirkjunnar og leysti upp trúarreglur á borð við þá sem Corday tilheyrði.[3]

Corday sneri heim til föður síns. Hún var á þessum tíma mjög hlynnt stjórnarskrárbundinni konungsstjórn líkt og þeirri sem hafði verið komið á eftir byrjun byltingarinnar. Konungsstjórnin var hins vegar alfarið lögð niður þegar Loðvík 16. reyndi að flýja land árið 1792 og lýðveldi var stofnað. Í byrjun ársins 1793 var konungurinn fyrrverandi síðan tekinn af lífi og Gírondínar, sem aðhylltust svipaðar hugmyndir og Corday, voru ofsóttir og hreinsaðir úr byltingarstjórninni. Í kjölfarið hófst Ógnarstjórn hinna róttæku Fjallbúa, þar sem fjöldi meintra gagnbyltingarmanna var tekinn af lífi.

Með valdatöku Fjallbúanna snerist Corday gegn byltingunni. Hún fór að líta á blaðamanninn og byltingarmanninn Jean-Paul Marat sem helsta málgagn og táknmynd Ógnarstjórnarinnar og einsetti sér að ráða hann af dögum til þess að bjarga lýðveldinu. Í dreifibréfi sem hún skrifaði í júlí 1793 sagði hún:

„Fjallbúarnir hrósa sigri með glæpum og kúgun, nokkrar ófreskjur ataðar blóði okkar brugga viðbjóðsleg launráð og leiða okkur nær brúninni á þúsund mismunandi vegu.“[4]

Corday hugðist í fyrstu myrða Marat fyrir framan allt franska þjóðþingið til þess að senda Fjallbúunum skilaboð en þegar hún kom til Parísar komst hún að raun um að Marat mætti ekki lengur á samkomur þingsins af heilsufarsástæðum. Corday mælti sér því mót við Marat og sagði honum að hún hefði undir höndum upplýsingar um áætlaða uppreisn Gírondína í Caen. Marat tók við henni, sitjandi í baðkari sínu, og skrifaði niður nöfn Gírondínanna sem hún gaf honum. Corday dró þá fram hníf og stakk Marat til dauða. Jacques-Louis David átti síðar eftir að mála frægt málverk af dauða Marats í baðkarinu sem gerði Marat að píslarvætti í augum byltingarsinna.

Corday var í kjölfarið handtekin og ákærð fyrir morðið á Marat. Við réttarhöldin gekkst Corday við morðinu en sagðist með því hafa hefnt fjölda saklausra lífa og hafa komið í veg fyrir frekari ódæðisverk. Hún var dæmd sek og síðan tekin af lífi undir fallöxi þann 17. júlí 1793.

Tilvísanir

[breyta | breyta frumkóða]
  1. Jean Epois, L'affaire Corday-Marat, Cercle d'or, bls. 67.
  2. Jean-Denis Bredin, „Charlotte Corday, "ange de l'assassinat"“, émission Au cœur de l'histoire sur Europe 1, 6. mars 2012.
  3. Bernardine Melchior-Bonnet, Charlotte Corday, Tallandier, 1989, bls. 23.
  4. Jacques Guilhaumou, La mort de Marat, Éditions Complexe, 1989, bls. 152.