Jakobína Sigurðardóttir

Úr Wikipediu, frjálsa alfræðiritinu

Jakobína Sigurðardóttir (8. júlí 191829. janúar 1994) var íslenskur rithöfundur og skáld. Jakobína fæddist í Hælavík í Sléttuhreppi í Norður-Ísafjarðarsýslu og ólst upp þar fram á unglingsár. Foreldrar hennar voru Sigurður Sigurðsson, er bjó í Hælavík en varð síðar símstöðvarstjóri á Hesteyri, og kona hans, Stefanía Halldóra Guðnadóttir húsfreyja.

Jakobína stundaði nám við Ingimarsskólann í Reykjavík og nam utanskóla við Kennaraskóla Íslands í hálfan vetur. Árið 1949 fluttist hún að Garði í Mývatnssveit, þar sem hún síðan var húsfreyja. Eiginmaður hennar var Þorgrímur Starri Björgvinsson, bóndi í Garði. Jakobína var með þekktustu rithöfundum landsins á sinni tíð og var í heiðurslaunaflokki listamanna á efri árum. Hún skrifaði bæði skáldsögur og ljóð. Sönglög hafa verið samin við mörg ljóða hennar. Hún var sósíalisti og tók virkan þátt í baráttunni gegn bandaríska setuliðinu í Keflavík og Nató-aðild Íslands. Ævisaga hennar Saga skálds og konu eftir Sigríði Kristínu Þorgrímsdóttur kom út hjá Máli og menningu 2019.

Börn Jakobínu og Þorgríms Starra:

  • Stefanía 1950-2013
  • Sigrún Huld 1952
  • Sigríður Kristín 1956
  • Kári 1959

Fríða Á. Sigurðardóttir rithöfundur var meðal systkina hennar.

Ritverk[breyta | breyta frumkóða]

Skáldsögurnar Dægurvísa, Snaran og Lifandi vatnið voru allar valdar sem framlag Íslands til Bókmenntaverðlauna Norðurlanda. Jakobína hlaut bókmenntaverðlaun Ríkisútvarpsins 1979.

Tengt efni[breyta | breyta frumkóða]

Tenglar[breyta | breyta frumkóða]

  Þessi æviágripsgrein er stubbur. Þú getur hjálpað til með því að bæta við greinina.