Fara í innihald

Jacques Derrida

Úr Wikipediu, frjálsa alfræðiritinu
Vestræn heimspeki
Heimspeki 20. aldar,
Heimspeki 21. aldar
Jacques Derrida
Nafn: Jacques Derrida
Fæddur: 15. juli 1930
Látinn: 9. oktober 2004 (74 ara)
Skóli/hefð: meginlandsheimspeki, póstmódernismi
Helstu viðfangsefni: bókmenntarýni, verufræði
Markverðar hugmyndir: afbygging
Áhrifavaldar: Karl Marx, Sören Kierkegaard, Friedrich Nietzsche, Edmund Husserl, Sigmund Freud, Ferdinand de Saussure, Martin Heidegger, Roland Barthes, Claude Lévi-Strauss, J.L. Austin
Hafði áhrif á: Paul de Man, Bernard Stiegler, Jean-Luc Nancy, Judith Butler, Louis Althusser, Ernesto Laclau, Peter Eisenman, Edward Said, John Caputo, Mario Kopic, Simon Critchley, Avital Ronell

Jacques Derrida (15. júlí 19309. október 2004) var franskur heimspekingur sem fæddist í Alsír. Hann mótaði aðferðafræði sem kennd er við afbyggingu og verk hans eru jafnan talin til póststrúktúralisma og tengd póstmódernískum fræðum. Derrida kemur víða við í bókum sínum sem eru yfir 40 talsins ásamt ritgerðum og ræðum og hefur haft varanleg áhrif á hugvísindi, einkum heimspeki og bókmenntafræði. Sú setning sem oftast er vísað til úr verkum Derrida er: „það er ekkert utan textans“ (franska: „il n'y a pas de hors-texte“) sem birtist í ritgerð um Rousseau og merkir þar að ekkert sé án samhengis. Gagnrýnendur Derrida hafa vitnað óspart í setninguna og sett fram sem eins konar slagorð í því skyni að sýna meinta villu afbyggingar í hnotskurn og gera hana tortryggilega.

Afbygging er tilraun til að vekja athygli á mótsögnum tiltekins texta og ganga gegn tvíhyggjunni sem hann hvílir á, nota andstæðupör hans til að grafa undan textanum og rekja upp raunverulega merkingu hans. Aðferð Derrida felur í sér að draga fram sögulegar rætur heimspekihugmynda og vefengja svokallaða frumspeki nærverunnar sem hann leit svo á að hefði drottnað yfir heimspekinni frá dögum Forn-Grikkja. Enda þótt afbygging hafi reynst þekktasta hugtak Derrida meðal almennings fer því fjarri að það hafi yfirgnæfandi stöðu umfram önnur innan heildarverks Derrida sjálfs.

Verk Derrida hafa skírskotanir til ótal sviða, svo sem bókmennta, arkitektúrs, félagsfræði og menningarfræði. Á síðari hluta ferils síns fékkst hann einkum við siðferðisleg og pólitísk efni og hafði áhrif á stjórnmálahópa. Hann var umdeildur í lifanda lífi og er enn. Litið er á verk hans sem áskorun gagnvart óvefengdum frumforsendum vestrænnar heimspekihefðar og hefða vestrænnar menningar í heild sinni.

Ævi[breyta | breyta frumkóða]

Derrida fæddist í úthverfi í Alsír inn í gyðingafjölskyldu af millistétt sem varð fyrir barðinu á Vichy-stjórninni. Hann var rekinn úr skóla í október árið 1942 af rasískum ástæðum. Þetta hafði hann í minnum ævilangt og brottreksturinn hafði mótandi áhrif á persónuleika hans. Hinn ungi Derrida tók þátt í ýmsum íþróttakeppnum í uppbótarskyni og dreymdi um að verða atvinnumaður í fótbolta. En þá þegar hafði hann uppgötvað og var tekinn að lesa af ástríðu ekki aðeins klassíska skáldsagnahöfunda heldur einnig heimspekinga og rithöfunda á borð við Albert Camus, Antonin Artaud, Paul Valéry, Rousseau, Nietzsche og André Gide.

  Þessi æviágripsgrein er stubbur. Þú getur hjálpað til með því að bæta við greinina.