Solveig Þorleifsdóttir

Úr Wikipediu, frjálsa alfræðiritinu

Solveig Þorleifsdóttir (um 14151479) var íslensk hefðarkona á 15. öld, dóttir Þorleifs Árnasonar í Auðbrekku og konu hans, Vatnsfjarðar-Kristínar Björnsdóttur.

Solveig giftist Ormi Loftssyni hirðstjóra, syni Lofts Guttormssonar ríka, 17. október 1434. Þau bjuggu í Víðidalstungu og áttu saman synina Einar og Loft Ormsson Íslending. Ekki er víst hvenær Ormur dó, líklega þó um 1446. Þó eru til sagnir um að það ár hafi hann farið til útlanda, þvert gegn vilja Solveigar, en hún hafi þá sagt að hann mætti ábyrgjast hvað af því kæmi - og tekið svo saman við Sigmund Steinþórsson prest á Miklabæ í Blönduhlíð þegar Ormur var farinn. Hvað sem til er í því gerðist Solveig fylgikona séra Sigmundar, hugsanlega á meðan Ormur var enn á lífi.

Sigmundur átti í hörðum deilum við Ólaf Rögnvaldsson biskup og við eftirmann sinn á Miklabæ, séra Jón Broddason. Tók Solveig þátt í þeim og var talið að hún hefði hvatt séra Sigmund áfram. Fór svo að hún var bannfærð 20. desember 1474. Var henni meðal annars gefið að sök að hafa ráðist á prest nokkurn þegar hann ætlaði að lesa upp bréf í kirkjunni í Flatatungu, þar sem Solveig og Sigmundur bjuggu þá og tekið bréfin af honum. Í bréfi sem séra Jón Broddason skrifaði um þetta atvik segir hann að Solveig sé þrjósk, þrálynd og illskufull, enda lét hún sér ekki segjast við bannfæringuna.

Börn Solveigar og Sigmundar voru Jón Sigmundsson lögmaður, Ásgrímur, sem veginn var í brúðkaupi Jóns bróður síns í Víðidalstungu 1483, Bergljót húsfreyja á Reykjum í Miðfirði, Ástríður kona Péturs skyttu og Guðrún.

Heimildir[breyta | breyta frumkóða]

  • „Sigmundur Steinþórsson prestur í Miklabæ. Lesbók Morgunblaðsins, 23. mars 1947“.