Fara í innihald

Jón Jónsson (landritari)

Úr Wikipediu, frjálsa alfræðiritinu
Sjá aðgreiningarsíðuna fyrir aðra sem hafa borið þetta nafn.

Jón Jónsson, (f. 23. apríl 1841 í Reykjavík, d. 4. janúar 1883) þekktur sem Jón Jónsson landritari var íslenskur embættismaður og stjórnmálamaður.

Uppvöxtur og fjölskylda

[breyta | breyta frumkóða]

Foreldrar Jóns voru Jón Johnsen alþingismaður og dómari við Landsyfirréttinn og kona hans Anna Cathrine Martine Johnsen, f. Blichert, húsmóðir. Árið 1846 fluttist Jón barn að aldri til Danmerkur þar sem faðir hans hafði embætti. Jón lauk stúdentsprófi frá Frúarskólanum í Kaupmannahöfn 1861 og lögfræðiprófi frá Hafnarháskóla 1867. Meðan hann var við Hafnarháskóla lærði Jón íslensku af íslenskum samstúdentum sínum en á heimili hans var töluð danska. Að námi loknu starfaði hann um skeið skeið sem aðstoðarmaður föður síns sem var bæjarfógeti í Álaborg.

Embættisstörf

[breyta | breyta frumkóða]

Eftir heimkomu vann hann við lögfræðistörf í Reykjavík veturinn 1867 – 1868, jafnframt því að starfa á skrifstofu stiftamtmanns. Jón var 1868 settur sýslumaður í Árnessýslu. Árið 1872 skipaði konungur Jón í nýstofnað embætti landritara, en því starfi gegndi Jón frá 1873 til dauðadags. Næstu árin gegndi Jón ýmsum öðrum embættum. Hann var skipaður árið 1875 lögreglustjóri og erindreki í fjárkláðamálinu og átti að hafa eftirlit með því að fjárkláði yrði upprættur á öllu landinu. Því starfi gegndi hann til 1878 þegar fjárkláða var útrýmt. Hlaut Jón viðurkenningu Alþingis fyrir vasklega framgöngu í því máli.

Árið 1878 var Jón settur bæjarfógeti í Reykjavík. Sama ár var hann kosinn á þing sem þingmaður Skagfirðinga og endurkjörinn 1880. Jón sat á þingi til 1883. Samhliða þingstörfum átti Jón sæti í bæjarstjórn Reykjavíkur en starfi bæjarfulltrúa gegndi hann 1879 – 1883. Auk þessa var hann skipaður málaflutningsmaður við landsyfirréttinn 1878 – 1880. Þó Jón væri veikburða hafði hann gríðarmikla starfsorku og þótti með eindæmum afkastamikill eins og þessi langi listi ber með sér.

Störf að félagsmálum og stjórnmálaskoðanir

[breyta | breyta frumkóða]

Samtímamönnum þótti Jón um margt sérkennilegur og framganga hans í embætti, sérstaklega í fjárkláðamálinu, þótti oft nokkuð harkaleg. Jón var mikill áhugamaður um umbætur á stjórnarfari og réttarfari á Íslandi en honum þótti sem opinberri stjórnsýslu hér á landi væri oft mjög ábótavant. Veturinn 1878-79 ferðaðist Jón til Englands til að kynna sér réttarfar og stjórnarhætti. Áður en hann lést hafði hann lagt á ráðin um ferð til Bandaríkjanna til að kynna sér samfélag, stjórnarfar og réttarfar þar í landi. Jón þótti frjálslyndur maður og var bæði stórhuga og víðsýnn.

Jón var stofnandi og aðalritstjóri tímaritsins Víkverja 1873 – 1874.

Þó að Jón ætti dönsku að móðurmáli og hefði alist upp í Danmörku lærði hann íslensku, leit á sig sem Íslending og var mikill þjóðernissinni og áhugamaður um framfarir. Í Þjóðólfi voru þessi eftirmæli höfð um Jón:

Jón unni ættjörðu sinni heitt og var mjög frjálslyndr maðr í skoðunum, og það svo, að hann var að mörgu leyti langt á undan tímanum. Hann hafði inn mesta áhuga á að endurbæta alt, sem honum þótti miðr fara, og hvað deildar sem skoðanir kunna um það að vera, hvort hann hafi stundum verið heppinn í að koma því fram, sem hann hafði hug á, þá mun enginn neita því, að hann vildi ið bezta, og gjörði það eitt, sem hann var sjálfr sannfærðr um að rétt væri.[1]

Tilvísanir

[breyta | breyta frumkóða]
  1. Minningargrein um Jón Jónsson, Þjóðólfur. 35. árg. 3. tbl. (20. janúar 1883).