Jón Helgason (stórkaupmaður)

Úr Wikipediu, frjálsa alfræðiritinu
Jump to navigation Jump to search

Jón Helgason (11. september 18844. janúar 1968) var íslenskur stórkaupmaður í Kaupmannahöfn. Á yngri árum sínum var hann annálaður glímukappi.

Jón fæddist á Grund í Höfðahverfi í Suður-Þingaeyjarsýslu. Hann lærði skósmíði á Ísafirði og starfaði einnig inni í Djúpi. En úr Djúpinu lá leið hans aftur til Ísafjarðar og þaðan að tveimur árum liðnum til Akureyrar og Siglufjarðar, þar sem hann stundaði síldarvinnu og verslunarstörf fram undir tvítugsaldur. Jón tók þátt í Íslandsglímunni 1907 og var með 15 vinninga (jafn Fjalla-Bensa), en fyrir ofan þá voru aðeins Jóhannes Jósefsson og Emil Tómasson. Hann réðst í för með Jóhannesi Jósefssyni, er hann fór í víking við fjórða mann. Frá Íslandi héldu þeir fjórmenningar á brott í desembermánuði 1908, eftir að Jón hafði verið þátttakandi í grísk-rómverskri kappglímu í Bárunni í Reykjavík. Upp úr þessu fór Jón til Rússlands og kenndi m.a. lögreglunni í Odessu íslenska glímu. Þar giftist hann rússneskri aðalskonu sem hét Olga Olsofijeff, en móðir hennar var frönsk greifadóttir, de Gramond. Þegar Jón var búsettur í Pétursborg, var hann gerður að kennara í leikfimi og sundi við herforingjaskólann í borginni. Loks var hann skipaður í sex manna nefnd sem átti að hafa yfirumsjón með allri fimleikakennslu í ríki Rússakeisara. Jón var þegar hér var komið auðugur maður, en hann tapaði aleigu sinni í rússnesku byltingunni og kom snauður til Kaupmannahafnar árið 1920. Þar hóf hann sundkennslu, fór á verslunarnámskeið og sneri sér síðan að verslun og verksmiðjurekstri. Á skömmum tíma tókst honum að verða efnalega sjálfstæður að nýju, og var síðan meðal auðugustu Íslendinga í Danmörku. Í Danmörku kvæntist hann íslenskri konu, Kristínu Guðmundsdóttur, listmálara. Þau eignuðust einn son, Björn Jónsson, sem var viðskiptafræðingur.

Tenglar[breyta | breyta frumkóða]

  Þetta æviágrip er stubbur. Þú getur hjálpað til með því að bæta við greinina.