Fara í innihald

Fnjóskadalur

Úr Wikipediu, frjálsa alfræðiritinu
(Endurbeint frá Hnjóskadalur)
Séð niður í Fnjóskadal.

Fnjóskadalur (stundum kallaður Hnjóskadalur áður fyrr) er mikill dalur í Suður-Þingeyjarsýslu. Hann dregur nafn af svokölluðum „fnjóskum“, sem eru „þurrir og feysknir trjábútar“.[1]

Dragáin Fnjóská rennur eftir honum. Í suðri endar hann í þrem eyðidölum, Bleiksmýrardal, Hjaltadal og Timburvalladal, en nyrst sveigir dalurinn til vesturs og heitir þar Dalsmynni. Um það rennur Fnjóská til sjávar í Eyjafirði. Norður af dalnum er Flateyjardalsheiði og norðan við hana Flateyjardalur. Vestan dalsins er Vaðlaheiði og vestan hennar er Svalbarðsströnd. Austan dalsins eru einnig fjöll, að norðan milli hans og Köldukinnar og að sunnan milli Fnjóskadals og Bárðardals. Þar á milli er Ljósavatnsskarð.

Hringvegurinn liggur um Fnjóskadal og til vesturs til Svalbarðsstrandar um Víkurskarð, nokkru sunnan við Dalsmynni, en til austurs um Ljósavatnsskarð til Bárðardals. Áður lá vegurinn til Eyjafjarðar upp úr dalnum á móts við Ljósavatnsskarð yfir Vaðlaheiði, en nú hafa verið gerð jarðgöng undir heiðina, Vaðlaheiðargöng.

Í dalnum eru margir bæir, og má þar meðal annarra nefna Steinkirkju, Þverá, Illugastaði, Kotungsstaðir, Végeirsstaði, Háls, Reyki, Hallgilsstaði og Sólvang.

Í Fnjóskadal er Vaglaskógur, einn stærsti upprunalegi skógur á Íslandi þar sem er að finna fjölda sjaldgæfra lífverutegunda, en einnig eru þar Lundsskógur og Þórðarstaðaskógur.

Eini þekkti fundarstaður sveppsins Neotapesia graddonii á Íslandi er í Fnjóskadal þar sem hann vex á fjalldrapa.[2]

Jarðfræði

[breyta | breyta frumkóða]

Dalurinn er grafinn af vatnsföllum, einkum Fnjóská og skriðjöklum á ísöld. Hann lá upphaflega beint norður og var þá Flateyjardalsheiði og Flateyjardalur hluti af honum og Fnjóská rann til sjávar í utanverðan Skjálfanda. Með tímanum grófu ár og jöklar skarð í fjöllin þar sem Dalsmynni er nú og svo fór að lokum að Fnjóska fann sér þar farveg og tók að renna til Eyjafjarðar. Í ísaldarlok, fyrir um 12.000 árum síðan, stífluðu jöklar Dalsmynni og Ljósavatnsskarð og þá myndaðist mikið jökullón í dalnum, um 40 kílómetra langt, og má enn sjá móta fyrir strandlínum þess hátt í hlíðum fjallanna. Lónið hvarf þegar jöklarnir hopuðu.

Jarðhiti er við Reyki og þaðan liggur hitaveita allt til Grenivíkur.[3]

  1. „Örnefnastofnun Íslands - fyrirspurnir“.
  2. Helgi Hallgrímsson & Guðríður Gyða Eyjólfsdóttir (2004). Íslenskt sveppatal I - smásveppir. Geymt 17 október 2020 í Wayback Machine Fjölrit Náttúrufræðistofnunar. Náttúrufræðistofnun Íslands. ISSN 1027-832X
  3. Guðni Axelsson, Árni Hjartarson, Ólafur G. Flóvenz, Bjarni Gautason (ritstj.)2006. Reykir í Fnjóskadal : jarðhitarannsóknir, jarðfræðikort, dæluprófun og mat á afkastagetu jarðhitakerfis. Íslenskar orkurannsóknir, ÍSOR-2006/033