Bleiksmýrardalur

Úr Wikipediu, frjálsa alfræðiritinu

Bleiksmýrardalur er einn af þremur dölum sem ganga suður og upp úr Fnjóskadal í Suður-Þingeyjarsýslu. Fnjóská fellur eftir dalnum og er hann því næstum beint framhald Fnjóskadals til suðurs. Bleiksmýrardalur er vel gróinn og hefur öldum saman verið afréttarland. Utarlega er allstórvaxinn birkiskógur, sérstaklega vestanmegin. Vestur úr dalnum liggur svokallað Gönguskarð yfir í Garðsárdal í Eyjafirði. Svartárdalur er afdalur Bleiksmýrardals, liggur hann til suðausturs framarlega úr austanverðum dalnum.

Bleiksmýrardalur er geysilangur og djúpur, yfir 50 kílómetrar frá syðstu drögum að dalsmynninu sunnan Reykja í Fnjóskadal. Er hann talinn lengsti óbyggði dalur landsins. Gamlar tóttir benda þó til að svo hafi ekki alltaf verið. Sagnir eru um allmikla byggð þar fyrr á öldum, til dæmis í Skarðsseli og á Flaustri en einnig í Smiðjuseli, Káraseli, Fardísartóttum og Sandakoti, sem er langt frammi á dalnum við mynni Svartárdals, þar sem heita Sandar. Síðustu bæir í byggð á Bleiksmýrardal stóðu yst á dalnum, Reykjasel að vestan og Tunga gegnt því að austan.

Síðasta hestaat á Íslandi var háð á Bleiksmýrardal árið 1623 (sumar heimildir segja 1624).

Þekkt þjóðsaga, tröllasagan um Jón Loppufóstra, á að hafa gerst á Bleiksmýrardal.