Fara í innihald

Loftslagsbreytingar

Úr Wikipediu, frjálsa alfræðiritinu
(Endurbeint frá Hlýnun jarðar)
Yfirborðshiti á jörðinni frá 1850 til 2020
Breyting á yfirborðshita frá 2011 til 2020 borin saman við meðalhiti á árunum 1951 til 1980

Loftslagsbreytingar eða hnattræn hlýnun eru mæld og áætluð aukning á meðalhita yfirborðs lands og sjávar frá iðnbyltingunni, og áhrif þess á loftslagskerfi jarðar. Yfirstandandi hækkun hita á heimsvísu er hraðari en fyrri breytingar og stafar aðallega af brennslu manna á jarðefnaeldsneyti.[1][2] Notkun jarðefnaeldsneytis, skógeyðing og ýmsar aðrar athafnir í landbúnaði og iðnaði, auka magn gróðurhúsalofttegunda, eins og koltvísýrings og metans. Þessi efni valda gróðurhúsaáhrifum með því að halda eftir hita sem jörðin geislar út frá sér eftir að sólin hefur hitað hana. Þetta veldur orkuójafnvægi í neðri lofthjúp jarðar sem leiðir til þess að hitastig hækkar.

Loftslagsbreytingar af völdum hnattrænnar hlýnunar lýsa sér í því að eyðimerkurmyndun eykst, og hitabylgjur og skógareldar verða algengari.[3] Hlýnun pólsvæða leiðir til þess að heimskautaís og hafís hopar, og sífreri bráðnar. Hærra hitastig veldur líka öflugri stormum, þurrkum og öfgaveðri. Búsvæðabreytingar af völdum loftslagsbreytinga, eins og bleiking kóralrifja og hop heimskautaíssins, hafa leitt til þess að margar tegundir lífvera flytja sig um set eða eiga á hættu að deyja út.[4] Loftslagsbreytingar skapa líka hættu fyrir fólk, með því að valda skorti á matvælum og vatni, auknum flóðum, meiri hitabylgjum og sjúkdómum, sem allt hefur víðtæk efnahagsleg áhrif. Átök og fólksflutningar geta verið afleiðing þessara breytinga.[5] Alþjóðaheilbrigðisstofnunin hefur kallað loftslagsbreytingar mestu ógn sem steðjar að heilsu fólks á 21. öld.[6]

Helstu orsakavaldar loftslagsbreytinga frá 1850-1900 til 2010-2019. Hvorki breytileiki í sólvirkni né eldvirkni höfðu nein markverð áhrif.

Loftslag jarðar gengur í gegnum ýmsar hringrásir sem sumar standa í nokkur ár (eins og El Niño-suðursveiflan), áratugi og jafnvel aldir.[7][8] Aðrar breytingar stafa af orkuójafnvægi jarðar sem stendur utan við loftslagskerfið, en ekki alltaf utan jarðar.[9] Dæmi um stýriþætti loftslagsbreytinga eru uppsöfnun gróðurhúsalofttegunda, ljósmagn sólar, eldgos og breytingar á braut jarðar um sólina.[10]

Til að áætla áhrif manna á loftslagsbreytingar þarf að útiloka eðlilegan loftslagsbreytileika og náttúrulega stýriþætti. Lykilaðferð í þeim útreikningum er að finna út einkenni eða „fingraför“ mögulegra orsakaþátta, og bera þau síðan saman við athuganir á loftslagsbreytingum.[11][12] Með því móti er til dæmis hægt að útiloka að sólvirkni sé orsakaþáttur loftslagsbreytinga, því einkenni á henni væru hlýnun alls lofthjúpsins. Yfirstandandi hlýnun á sér hins vegar aðeins stað í neðri hluta lofthjúpsins, sem kemur heim og saman við uppsöfnun gróðurhúsalofttegunda.[13] Orsakaþættir yfirstandandi loftslagsbreytinga eru greinilega aukið magn gróðurhúsalofttegunda, meðan ýmis konar úði dregur úr þessum áhrifum.[14]

Gróðurhúsaáhrif

[breyta | breyta frumkóða]
Aukning koltvíoxíðs í lofthjúpnum

Joseph Fourier uppgötvaði gróðurhúsaáhrif árið 1824 og þau voru fyrst rannsökuð af Svante Arrhenius árið 1896.

Ýmsar lofttegundir í lofthjúpi jarðar, s.n. gróðurhúsalofttegundir, valda gróðurhúsaáhrifum, en án þeirra myndi meðalhiti jarðar vera um 30 °C lægri en hann er, sem þýddi að jörðin væri óbyggileg.[15] . Helstu gróðurhúsalofttegundir í lofthjúpi jarðar eru: 0-4 % vatnsgufa, 9-26% koltvíoxíð (CO2), 4-9% metan (CH4) og 3-7% ósón (O3).[16]

Geislun frá sólu

[breyta | breyta frumkóða]

Kenningar hafa verið settar fram um að geislun sólar kunni að hafa valdið hækkun á meðalhita jarðar.[17] Engin samsvörun er hins vegar milli breytinga í sólargeislun og hnattrænnar hlýnunar á síðustu áratugum og því er sú hugmynd að inngeislun sólar sé ábyrg fyrir yfirstandandi hækkun í meðalhita jarðar almennt ekki lengur talin trúverðug.[18][19]

Tilvísanir

[breyta | breyta frumkóða]
  1. Allen og fleiri (2018). „Chapter 1: Framing and Context“ (PDF). IPCC SR15 2018.: 54.
  2. Lynas, Mark; Houlton, Benjamin Z.; Perry, Simon (19. október 2021). „Greater than 99% consensus on human caused climate change in the peer-reviewed scientific literature“. Environmental Research Letters. 16 (11): 114005. Bibcode:2021ERL....16k4005L. doi:10.1088/1748-9326/ac2966. S2CID 239032360.
  3. Shukla; og fleiri, ritstjórar (2019). „IPCC Special Report on Climate Change, Desertification, Land Degradation, Sustainable Land Management, Food Security, and Greenhouse gas fluxes in Terrestrial Ecosystems“ (PDF). IPCC.
  4. EPA (19. janúar 2017). „Climate Impacts on Ecosystems“. Afrit af uppruna á 27. janúar 2018. Sótt 5. febrúar 2019.
  5. Cattaneo og fleiri (2019). „Human Migration in the Era of Climate Change“. Review of Environmental Economics and Policy. 13 (2): 189–206. doi:10.1093/reep/rez008. hdl:10.1093/reep/rez008. ISSN 1750-6816. S2CID 198660593.
  6. Pachauri, R. K.; Meyer, L. A., ritstjóri (2014). Climate Change 2014: Synthesis Report. Contribution of Working Groups I, II and III to the Fifth Assessment Report of the Intergovernmental Panel on Climate Change. Geneva, Switzerland (Report). IPCC.
  7. Delworth & Zeng 2012, bls. 5
  8. Franzke et al. 2020
  9. National Research Council 2012, bls. 9
  10. IPCC AR5 WG1 Ch10 2013, bls. 916.
  11. Knutson 2017, bls. 443
  12. IPCC AR5 WG1 Ch10 2013, bls. 875–876
  13. USGCRP 2009, bls. 20.
  14. IPCC AR5 WG1 Summary for Policymakers 2013, bls. 13–14
  15. www.greenhouse.gov.au/impacts/overview/pubs/overview4.pdf Geymt 19 júlí 2008 í Wayback Machine (PDF), Australian Greenhouse Office, sótt 16. maí 2007
  16. www.grida.no/climate/ipcc_tar/wg1/006.htm Geymt 3 janúar 2004 í Wayback Machine, skoðað 16. maí 2007
  17. www.dsri.dk/~hsv/SSR_Paper.pdf Geymt 27 maí 2008 í Wayback Machine (PDF), skoðað 16. maí 2007
  18. „„Er hnatthlýnunin gabb?". Veðurstofa Íslands. 28. júní 2007. Sótt 6. júní 2021.
  19. „Hvernig vitum við að hlýnun jarðar er af manna völdum?“. Vísindavefurinn.