Landsuppfræðingarfélagið
Landsuppfræðingarfélagið var félag sem var stofnað árið 1794 til að fræða almenning á Íslandi og veita nýjum straumum út í þjóðlífið. Til þessa tók félagið prentsmiðjurna í Hrappsey (Hrappseyjarprentsmiðju) á leigu haustið 1794. Var hún flutt að Leirárgörðum við Leirá sumarið 1795. Félagið keypti síðan prentsmiðjuna áður en langt um leið, og einnig prentsmiðjuna að Hólum.
Upphafsmaðurinn
[breyta | breyta frumkóða]Stofnandi Landsuppfræðingarfélagsins var Magnús Stephensen háyfirdómari (konferensráð) (1762-1833), og vildi hann með stofnun félagsins glæða nýjan smekk með Íslendingum og fræða þá með nytsömum fróðleik og koma löndum sínum í kynni við erlenda siðmenningu. Félagið gaf til dæmis út Minnisverð tíðindi, Vinagleði og Gaman og alvöru. Magnús hafði sínar ákveðnu og fastmótuðu skoðanir á því hvers konar efni þar hentaði best. Upplýsing og fræðsla voru kjörorðin sem þjóðin skyldi kjósa sér. Og hvað trúarbrögðin snertir þá var skynsemistrúin sú stefna sem Magnús fylgdi einarðlega fram, enda var hún um þær mundir ríkjandi trúarstefna á Norðurlöndum og víðast í norðanverðri Evrópu. Þess vegna var honum mjög í nöp við sumar guðsorðabækur sem höfðu á liðnum árum og öldum verið þjóðinni okkar handgengnar og harla kærar.
Þessari nýbreytni Magnúsar var illa tekið af mörgum, því að menn voru fastheldnir við gamlar venjur og kölluðu hann óþjóðlegan, þar eð hann vildi láta Íslendinga semja sig sem mest að háttum annara þjóða. Magnús kunni þessu illa, því hann var ákafamaður í lund, og gaf löndum sínum heldur svæsnar ádrepur í ritum sínum, en ónafngreindir höfundar svöruðu aftur með níðritum og níðkvæðum um Magnús, og var sumt af því óþvegið. Það jókst þó til muna þegar nýja sálmabókin kom út í Leirárgerðum (Leirgerður) undir umsjón Magnúsar árið 1801. En þessum deilum slotaði að mestu, og sum af ritum Magnúsar náðu almenningshylli, svo sem: Eftirmæli 18. aldar.
Viðeyjarárin
[breyta | breyta frumkóða]Þegar Magnús flutti síðar til Viðeyjar, árið 1813, flutti hann prentsmiðju sína af Leirá með sér og tók nú að gefa út bækur á ný, og einnig tímaritið Klausturpóstinn, sem kom út í 9 ár. Þegar hér var komið sögu voru flestir farnir að átta sig á Magnúsi gekk gott eitt til þegar hann vandaði um við þjóðina, og vildi hag hennar og heill í öllum greinum. Á efstu árum komst Magnús þó í málaþras mikið út af prentsmiðjunni og Landsuppfræðingafélaginu og hafði af því bæði skaða og skapraun.
En Magnús hafði aldrei látið óvinsældir almennings aftra sér frá að gefa út þau rit er hann sjálfur áleit þörf og góð, og á þeim árum sem Landsuppfræðingarfélagið var sem sterkast horfði hann lítt í kostnaðinn og aldrei lét hann í gróðaskyni leiðast til að fylgja smekk almennings.
Fjölnismenn og Landsuppfræðingarfélagið
[breyta | breyta frumkóða]Í fyrsta hefti Fjölnis, sem kom út árið 1835, skrifar Tómas Sæmundsson ávarp til lesanda og þjóðarinnar. Þar minnist hann á starf Magnúsar og viðhefur frekar jákvæð orð um starf Landsuppfræðingarfélagsins. Hann segir m.a.:
- Kvöldvökurnar, Vinagleði, Gaman og alvara, voru ekki veruleg tímarit, þó tilgangurinn væri sá sami. Kvöldvökurnar eru góð og skemmtileg bók og einkanlega hentug fyrir börn, ef þau gætu varað sig á dönskunni. Það er mæða hún skuli finnast í svo liprum og þægilegum stíl. Þó Vinagleðin kæmi sér illa, var hún engu að síður fróðleg og skemmtileg, og jafnast þó ekki við Gaman og alvöru, allrasíst hvað málið snertir, því þar er það gullfallegt á sumum greinum, t.d. Viskufjallinu og Selico. Af öllum okkar tímaritum er Klausturpósturinn einna fjölhæfastur, og landinu til mikillar nytsemi, ekki síst í því, að hann vakti löngun manna á þessháttar bókum, og margir söknuðu hans þegar hann hætti. Vera kann, að málið sé ekki sem hollast, og sumt í ritinu ekki sem áreiðanlegast, en eitthvað má að öllu finna. Minnisverð tíðindi komu út í Leirárgörðum um aldamótin, og áframhald þeirra Sagnablöðin og Skírnir á kostnað hins íslenska bókmenntafélags. En þessi rit gefa sig ekki við öðru en merkilegustu fréttum, og helst útlendum. Hvað Tíðindunum sérílagi viðvíkur, er bæði niðurröðun þeirra óskilmerkileg, og víða rangt frásagt, sem varð að fljóta af því, að þau eru samin á Íslandi. Sagnablöðin hafa í því tilliti mikla yfirburði framyfir Tíðindin, og enda yfir Skírnir; þó lýsa þau oft miður en skyldi sambandi og orsökum viðburðanna, sem þó er svo ómissandi, til að geta fengið af þeim nokkurnvegin sannar hugmyndir, og fellt um þá réttan dóm. [1]