Heyrnleysingjaskólinn

Úr Wikipediu, frjálsa alfræðiritinu
Jump to navigation Jump to search
Reykjavík 1910 þar sem Stakkholt er núna, húsið á myndinni er á svipuðum slóðum og Heyrnleysingjaskólinn
Kennslustund í heyrnleysingjaskóla í Boston árið 1893

Heyrnleysingjaskólinn í Reykjavík, áður Málleysingjaskólinn var sérskóli fyrir heyrnarskert og heyrnarlaus börn og unglinga. Skólinn starfaði sem sérskóli 1909 til 2002.

Upphaf skólahalds[breyta | breyta frumkóða]

Skipulagt skólahald fyrir heyrnarlausa hófst á Íslandi 1867 og skólaskylda heyrnarlausra 1872 en frá árinu 1820 höfðu heyrnarlausir á Íslandi getað sótt nám í Danmörku. Árið 1857 kom út kennslubók, ritið Fingramálsstafróf. Upphaflega fór kennsla heyrnarlausra fram á heimilum kennara, fyrst á heimili Páls Pálssonar en 1892 hóf Ólafur Helgason að kenna heyrnarlausum nemendum að Stóra-Hrauni en hann var sóknarprestur á Eyrarbakka frá 1893 til 1904 samkvæmt ábúendasögu Eyrarbakka. Sá skóli lagðist niður 1908.

Árið 1909 tók skóli til starfa í Reykjavík og var hann kallaður Málleysingjaskólinn. Áður hafði kennsla heyrnarlausra verið í höndum einstaklinga sem fengu styrk en frá þeim tíma var skólinn rekinn af ríkinu. Forstöðumaður skólans frá stofnun til 1944 var Margrét Theodóra Bjarnadóttir Rasmus en frá 1944-1982 Brandur Jónsson. Guðlaug Snorradóttir stýrði skólanum frá 1981-1986 og Gunnar Salvarsson tók við stjórn skólans 1986 og svo Berglind Stefánsdóttir árið 1996.

Kennslustefna[breyta | breyta frumkóða]

Í fyrstu var kennslustefna við skólann að nota fingra- og bendingarmál en árið 1922 var tekin upp kennsluaðferð þar sem nemendum var kennt að tala með rödd og gera merki með fingrum fyrir hljóð sem erfiðast voru í varalestri. 1944 var tekin upp talmálsstefna og farið að taka börn inn í skólann þegar þau voru fjögurra ára gömul. Nafni skólans var einnig breytt úr Málleysingjaskólanum í Heyrnleysingjaskólinn.Síðan var stefnan alhliða boðskipti og horfið frá áherslu á talmál. Nafni skólans var breytt árið 1995 í Vesturhlíðarskóli og var skólinn sameinaður Hlíðarskóla 1. september 2002.

Nemendahópur[breyta | breyta frumkóða]

Á árunum 1909 til 1921 voru að jafnaði 9 til 12 börn við skólann.Nemendum fækkaði 1981-1992 en árið 1982 voru nemendur 84 en áratug síðar 23. Fyrstu árin voru við skólann einnig nemendur með þroskahömlun.

Húsnæði skólans[breyta | breyta frumkóða]

Skólinn var í fyrstu staðsettur á Laugavegi 17 en fyrsta veturinn í Iðnskólanum í Vonarstræti. Nemendur vistuðust í fyrstu á einkaheimilum í Reykjavík. Skólinn fluttist svo á Spítalastíg 9 og var þar starfrækt heimavist við skólann, börnin sváfu í kjallaranum og kennt var á hæðinni. Árið 1917 fluttist skólinn að Stakkholti 3 og starfaði þar til ársins 1971 en var þá fluttur í húsnæði í Öskjuhlíð sem sérstaklega var byggt fyrir starfsemi skólans.

Húsnæði skólans í Stakkholti var fyrst timburhús með skáþaki sem var byggt 1905 og rifið 1953. Austan megin við húsið var fjós, hænsnahús og salerni. Nýtt skólahús var byggt við austurenda eldra hússins árið 1927 eftir teikningum Guðjóns Samúelssonar húsameistara ríkisins. Árið 1953 var reist ný viðbygging við húsið frá 1927 en sú viðbygging var þrjár hæðir með skáþaki byggt úr steinsteypu með svölum. Árin 1963 til 1964 gekk faraldur rauðra hunda og 30 heyrnarskert og heyrnarlaus börn fæddust og var því byggður nýr skóli en 1971 skólinn fluttur í nýbyggingu sunnan í Öskjuhlíð milli Bústaðavegar og Öskjuhlíðar. Heimavistarhús voru reist þar 1973. Heimavistin var lögð niður 1991.

Heimildir[breyta | breyta frumkóða]