Sérskóli

Úr Wikipediu, frjálsa alfræðiritinu

Sérskóli er sérhæfður skóli á grunnskólastigi og tekur á móti nemendum sem eru talin þurfa sérúrræði. Sérskólar eru í boði þegar þarfir og hagir einstaklinga eru ekki uppfylltar innan veggja almennra grunnskóla. Nemendur sérskóla þurfa oft sérstakan stuðning í námi þar sem þeir eiga yfirleitt í erfiðleikum með lærdóm vegna fötlunar, félagslegra eða tilfinningalegra erfiðleika. Dæmi um sérþarfir sem nemendur lifa með eru langtímabundin veikindi, þroskahömlun, leshömlun og geðröskun. Í sérskólum starfa fagaðilar eins og sérkennarar, þroskaþjálfar, náms- og starfsráðgjafar. Markmið sérskóla er að veita nemendum jöfn tækifæri til náms og virkrar þáttöku. Þeir eiga rétt á að fá fjölbreytt nám innan um hvetjandi námsumhverfi í samræmi við þarfir og styrkleika til að tryggja áframhaldandi þroska á líkamlegri og andlegri getu[1].

Á Íslandi byrjaði menntun fatlaðra barna inni á stofnunum og var sú fyrsta sett á laggirnar árið 1930 undir nafninu Sólheimar í Grímsnesi. Stofnandi Sólheima hét Sesselja Sigmundsdóttir og var fyrsti Íslendingurinn sem sérhæfði sig í aðhlynningu þroskaskertra. Fleiri stofnanir áttu eftir að verða reistar á næstu áratugum vegna mikils úrræðaleysis í samfélaginu. Kennarar í almennum grunnskólum gáfust fljótlega upp á að leiðbeina börnum með fatlanir og þá voru þessar stofnanir eina úrlausnin. Á þessum tíma voru foreldrar oft sterklega hvattir til að setja börnin sín inn á þessar stofnanir og hafa sem minnst afskipti af þeim. Það var ekki fyrr enn upp úr miðri 20. öld að viðhorf fóru að taka umskiptum. Fyrsti sérskóli landsins hét Höfðaskóli og var komið á fót árið 1961. Starfsemi Höfðaskóla var seinna meir lögð niður og Öskjuhlíðaskóli var stofnaður til að fylla í skarðið. Hann starfaði til ársins 2011 þegar Klettaskóli tók við ummönnun barna með fatlanir.[2]

Árið 2020 störfuðu þrír sérskólar á höfuðborgarsvæðinu og eru þeir Arnarskóli,[3] Klettaskóli[4] og Brúarskóli[5]. Þá er Arnarskóli sjálfstætt starfandi og sjálfseignarstofnun[3] á meðan Klettaskóli og Brúarskóli eru í eigu Reykjavíkurborgar[6]. Af þessum þremur er Arnarskóli sá nýjasti þar sem hann var stofnaður árið 2017[3].

Tilvísanir[breyta | breyta frumkóða]

  1. Esther Gunnveig Gestsdóttir (2019). „Skóli fyrir alla: Nám fjölfatlaðra barna í almennum skólum, sérdeildum og sérskólum“ (PDF). Sótt 2020.
  2. Kolbrún Ósk Eyþórsdóttir (Júní 2014). „Þróun í skólamálum fatlaðra barna á Íslandi“ (PDF). Menntavísindiasvið Háskóla Íslands. Sótt 2020.
  3. 3,0 3,1 3,2 „Fyrir hverja er Arnarskóli? – Skóli fyrir börn með þroskafrávik“. Afrit af upprunalegu geymt þann 4. ágúst 2020. Sótt 23. maí 2020.
  4. „Forsíða“. Klettaskóli. Sótt 23. maí 2020.
  5. „Forsíða“. Brúarskóli. Afrit af upprunalegu geymt þann 7. ágúst 2020. Sótt 23. maí 2020.
  6. sigrunb (8. maí 2013). „Sérskólar“. Reykjavíkurborg. Afrit af upprunalegu geymt þann 3. febrúar 2018. Sótt 23. maí 2020.