Fara í innihald

Hergagnaiðnaðurinn

Úr Wikipediu, frjálsa alfræðiritinu
(Endurbeint frá Hergagnaiðnaður)

Hergagnaiðnaðurinn (e. the military–industrial complex) er hugtak notað til að lýsa sambandinu á milli hins opinbera, hersins og hergagnaframleiðanda. Þessi íslenska þýðing hugtaksins er mun þrengri en æskilegt verður að teljast þar sem enska hugtakið er mjög umfangsmikið og nær til fleiri þátta en aðeins hergagnaiðnaðarins sem slíks. Víðtækari og hnitmiðaðri þýðingu yfir fyrirbærið er erfitt að finna og því er nauðsynlegt að styðjast við þessa einföldu nálgun. Þó hafa verið gerðar tilraunir að þýða hugtakið Military–industrial complex sem dæmi „hernaðar- og stóriðjusamsteypan“[1] og „hernaðar- og iðnaðarsamsteypan“, þótt engin þeirra hafi fest sig í sessi.

Hugtakið um hergagnaiðnaðinn, í þessum skilningi, er notað til að útskýra þríþætt tengsl sem ríkja milli hins opinbera, hersins og hergagnaframleiðanda en þetta er lýsandi dæmi um járnþríhyrninginn svokallaða.

Bandaríski hergagnaiðnaðurinn

[breyta | breyta frumkóða]
Dwight D. Eisenhower Bandaríkjaforseti vakti athygli á bandaríska hergagnaiðnaðinum í frægri kveðjuræðu sinni árið 1961.

Þekktasta dæmið um hergagnaiðnaðinn er að finna í bandarískum stjórnmálum. Þar nær hugtakið til opinbera aðila sem standa í stríðsrekstri, þ.e. hersins sjálfs er lýtur ákvarðanavaldi forseta, þingsins sem ber ábyrgð á fjárveitingum og hefur vald til að lýsa yfir stríði og að lokum einkarekinna hergagnaframleiðanda sem framleiða vopn og önnur hergögn en sinna einnig ýmiss konar þjónustustörfum fyrir herinn.

Dwight D. Eisenhower, fyrrverandi forseti Bandaríkjanna, notaði fyrstur manna hugtakið „the military–industrial complex“ í frægri kveðjuræðu sinni sem forseti árið 1961. Þar brýndi hann þörfina fyrir því að nauðsynlegt væri að fylgjast grannt með þessari ört vaxandi samsteypu. Eisenhower benti á mikilvægi þess að aldrei mætti fórna hagsmunum bandarísku þjóðarinnar fyrir hagsmuni hersins og hergagnaframleiðanda. Jafnframt lagði hann mikla áherslu á að starfsmenn hins opinbera væru ávallt á varðbergi gagnvart óréttmætri valdsækni hergagnaiðnaðarins.

Svo virðist nefnilega sem ansi náið samband geti þróast milli hergagnaframleiðanda og opinbera aðila. Rekja má þessa þróun til þess að slíkt samband færir gjarnan báðum aðilum gagnkvæman ávinning, það er að segja árangursríka hernaðarlega íhlutun fyrir stríðsskipuleggjendur og fjárhagslegan ávinningur fyrir hergagnaframleiðendur. Þetta má kalla stríð í hagnaðarskyni (e. war for profit), þar sem engum dylst að framleiðendur hergagna hagnast langmest þegar þjóð þeirra ræðst í umfangsmikinn stríðsrekstur á erlendri grundu. Jafnframt örvar slíkt bandarískan efnahag umtalsvert þar sem stór hluti hans byggist einmitt á hergagnaframleiðslu. Þannig leiðir síendurtekin stríð til efnahagslegs ávinnings, bæði fyrir hið opinbera sem og einkageirann en margir benda á að þessi þróun leiði óumflýjanlega til enn aukinnar eftirspurnar eftir frekari hernaðaraðgerðum.

Hergagnaiðnaðinum bandaríska hafði sannarlega vaxið fiskur um hrygg í valdatíð Eisenhower en arftaki hans í forsetastólnum, John F. Kennedy, brást við með því að berjast gegn auknum umsvifum hans. Þannig neitaði Kennedy að draga Bandaríkin inn í umfangsmiklar hernaðaraðgerðir og kaus frekar að nota samningaleiðir við úrlausn erfiðra deilumála líkt og Kúbudeilunnar við Sovétríkin árið 1962 þegar heimsbyggðin rambaði á barmi kjarnorkustyrjaldar.

Eftir stutta valdatíð Kennedy má hins vegar segja að hver einasti forseti Bandaríkjanna sem fylgt hefur í kjölfarið, hafi ekki stigið neitt afdrifarík skref til þess að reyna minnka umsvif hans. Fyrrverandi forseti Bandaríkjanna, Barack Obama, lýsti því staðfastlega yfir að markmið hans væri að endurheimta bandarískan efnahag til borgaralegra nota í stað stríðsreksturs. Obama hlaut Friðarverðlaun Nóbels árið 2009 en þá ákvörðun má að miklu leyti rekja til væntinga alþjóðasamfélagsins um róttæka stefnubreytingu í utanríkisstefnu Bandaríkjanna í kjölfar embættistöku hins nýskipaða forseta.

Fjórða stoðin

[breyta | breyta frumkóða]

Sumir sérfræðingar benda á að nú hafi fjórða stoðin bæst við hergagnaiðnaðinn bandaríska en þá er átt við svokallaðar hugveitur eða sérfræðingaráð (e. Think Tanks). Telja sumir að ákveðnar hugveitur séu fjármagnaðar af stjórnvöldum og hergagnaframleiðendum, gagngert til að þróa nýjar röksemdarfærslur fyrir hernaði[heimild vantar]. Hlutverk slíkra hugveita sé þá að skilgreina nýjar hernaðarlegar ógnanir og marka stefnu í varnarmálum sem unnt sé að réttlæta með tilteknum hætti. Þessi þróun er talin afar óæskileg þar sem slíkar hugveitur er ekki hægt að draga til ábyrgðar vegna neikvæðra afleiðinga sem greining þeirra og ráðgjöf getur haft í för með sér. Vert er að nefna í þessu samhengi að langflestar hugveitur eru stofnanir sem ekki eru reknar í hagnaðarskyni og starfa að göfugum markmiðum. Þannig snýst starfsemi flestra hugveita að sérhæfðum rannsóknum innan ákveðins geira og veitingu sérfærðiráðgjafar á því sviði.

Tilvísanir

[breyta | breyta frumkóða]
  1. „Erlend víðsjá“. Réttur. 1. apríl 1978. Sótt 18. nóvember 2012.