Fara í innihald

Hagvísindi

Úr Wikipediu, frjálsa alfræðiritinu
Adam Smith (1723–1790), höfundur bókarinnar Auðlegð þjóðanna, er talinn helsti frumkvöðull nútímahagvísinda.

Hagvísindi er flokkur fræðigreina sem fæst í víðum skilningi við auðlindastjórnun, efnahag og viðskipti og dreifingu gæða.

Megingreinar hagvísindanna eru hagfræði og viðskiptafræði en stundum eru aðrar greinar taldar með sem varða efnahag og auðlindir svo sem: umhverfis- og auðlindafræði, mennta- og menningarstjórnun, heilbrigðisstjórnun og stjórnsýslufræði.

Í hagvísindum er ein meginforsendan að gæði eru takmörkuð, hvort sem um ræðir efnisleg eða huglæg gæði, nefnt skortur. Í ljósi þessa er það verkefni hagkerfisins að dreifa vörum á sem hagnýtastan eða réttlátastan hátt. Í svokölluðu sjálfstýrðu eða frjálsu hagkerfi er það hagnýtingin í krafti samkeppninnar sem leitað er eftir, í miðstýrðu hagkerfi er oftast leitað eftir ákveðnu markmiði, t.d. því að jafna dreifingu lífsgæða en hægt er að fara milliveginn með blönduðu hagkerfi.

Undirgreinar

[breyta | breyta frumkóða]

Hagfræði rannsakar efnahagsleg viðskipti og grundvallarreglur efnahagslegrar þróunar, orsök velmegunar, myndun framleiðslu, dreifingu aðfanga (varnings og framleiðsluþátta) í þjóðfélaginu, orsök hagkreppu, skatta, atvinnu og atvinnuleysi, verðlag og fátækt.

Grunntilgátan er að gæði og aðföng séu takmörkuð. Þannig neyðast neytendur til að velja milli vinnuframlags og neyslu (hagsýnt lögmál). Í þessu samhengi þýðir skortur það að sá kostur sem valinn er útilokar alla aðra möguleika. Hagfræðingar kalla það fórnarkostnað. Þjóðhagfræðin leggur áherslu á val einstaklinga og hópa. Þar sem miðað er við hvatningu, vild og nyt sem ráði útkomunni.

Rekstrarhagfræðin, sem er önnur megingreinin innan hagfræðinnar, rannsakar heildarsamhengi efnahagslegs árangurs eftir skynsömum ákvörðunum einkaaðila sem geta til dæmis verið heimili eða fyrirtæki. Innra skipulag fyrirtækja fellur hins vegar undir viðskiptafræðina.

Hins vegar skoðar þjóðhagfræði hagkerfið í heild sinni, það er að segja áhrif og tengsl milli framleiðslu, tekna, fjárfestinga, atvinnu eða atvinnuleysis, verðlags og verðlagsbreytinga (verðbólgu og verðhjöðnunar).

Viðskiptafræði

[breyta | breyta frumkóða]

Viðskiptafræði fjallar um rekstur einkaaðila, til dæmis fyrirtækis eða einstaklings. Greinin skiptist í nokkrar megingreinar: stjórnun, reikningshald og markaðsfræði.

  • Markaðsfræði fjallar um markaðsetningu vara og aðferðir til markaðssetningar.
  • Stjórnun fjallar um fyrirtækjastjórnun og starfsmannahald.
  • Reikningshald fjallar um bókhald og umsjón fjármála.

Umhverfis- og auðlindafræði

[breyta | breyta frumkóða]

Umhverfis- og auðlindafræði fjallar um umhverfi, auðlindir og tengsl þeirra við hagstjórnun og reynir að greina orsakir og afleiðingar umhverfis- og auðlindanýtingar.

Mennta- og menningarstjórnun

[breyta | breyta frumkóða]

Menntastjórnun fjallar stefnumótun í menntamálum, rekstur menntastofnana og þátt menntunar í verðmætasköpun.

Menningarstjórnun fjallar um menningarleg verðmæti, meðferð þeirra og tengsl við efnahagsleg verðmæti.

Heilbrigðisstjórnun

[breyta | breyta frumkóða]

Heilbrigðisstjórnun fjallar um stefnumótun í heilbrigðismálum, rekstur heilbrigðiskerfa, og dreifingu takmarkaðra gæða í heilbrigðisþjónustu.

Stjórnsýslufræði

[breyta | breyta frumkóða]

Stjórnsýslufræði fjallar um opinbera stjórnsýslu og tengslin milli opinberrar stefnumótunar og þróunar efnahagsmála.

Saga hagvísindanna

[breyta | breyta frumkóða]

Elstu rit um hagvísindi eru rit forngrískra höfunda. Í Hagstjórninni fjallar Xenofon meðal annars um heimilshald og landbúnað, þrælahald, menntun. Heimspekingurinn Platon fjallaði meðal annars um framleiðsluöflin, eignir, menntun og dreifingu gæða í ritum sínum Ríkinu og Lögunum og það gerði Aristóteles einnig í bók sinni Stjórnspekinni. Á miðöldum fjölluðu Tómas frá Aquino og Duns Scotus einnig um hvað væri sanngjarnt verð og fleira.

Skotinn Adam Smith er hins vegar talinn helsti brautryðjandi nútímalegra hagvísinda. Hann skrifaði hina frægu bók Auðlegð þjóðanna (e. An Inquiry into the Nature and Causes of the Wealth of Nations) sem kom út árið 1776. Í henni gagnrýndi hann kaupskaparstefnu (merkantílisma) sem var algeng pólítisk stefna í þá daga sem snerist í stórum dráttum um það að leggja áherslu á útflutning en lágmarka innflutning. Bókin hlaut góðar viðtökur víða um heim, ekki síst á Bretlandi og Bandaríkjunum.