Fara í innihald

Bernhöftstorfan

Úr Wikipediu, frjálsa alfræðiritinu
Bernhöftstorfan (vinstra megin) og Menntaskólinn í Reykjavík.

Bernhöftstorfan er röð húsa sem blasa við frá Lækjargötu en snúa bakhlið að Skólastræti. Nyrsta hús Bernhöftstorfunnar frá 1834 stendur með gaflinn að Bankastræti og telst ásamt samliggjandi húsum nr. 2 við þá götu. Syðsta húsið, oft kallað Landlæknishúsið er byggt árið 1836 og telst Amtmannsstígur 1. Milli þeirra er steinhlaðna húsið Gimli að Lækjargötu 3, reist árið 1905. Bernhöftstorfan dregur nafn sitt af Bernhöftsbakaríi sem var í Bankastræti 2 á árunum 1834-1931. Til stóð að rífa húsalengjuna og reisa í stað hennar nýja stjórnarráðsbyggingu. Vegna þeirra áforma reis upp öflug mótmælahreyfing og voru Torfusamtökin stofnuð 1. desember 1972 til að berjast gegn niðurrifi húsanna. Þetta bar þann árangur að húsin voru friðuð árið 1979 og Torfusamtökin fengu í framhaldinu leiguafnot af húsunum með því skilyrði að þau yrðu gerð upp. Húsin voru síðan gerð upp eitt af öðru og ný hús reist að húsabaki sem komu í stað svokallaðrar Móhúsalengju meðfram Skólastræti en hún brann til kaldra kola árið 1977. Í stað Torfusamtakanna tók Minjavernd við húsunum árið 1985 sem leigutaki og síðan eignaraðili. Öll húsin á Bernhöftstorfu voru seld einkaaðilum árið 2013.

  Þessi Reykjavíkurgrein er stubbur. Þú getur hjálpað til með því að bæta við greinina.