Fara í innihald

Hippi

Úr Wikipediu, frjálsa alfræðiritinu
Hippi frá Rússlandi

Hippar voru upphaflega æskuhreyfing sem hóf göngu sína í Bandaríkjunum í byrjun sjöunda áratugarins og dreifðist síðan um allan heim. Orðið „hippi“ er dregið af orðinu hipster sem þýðir „sá sem fer eftir tískunni“ sem var yfir leitt notað yfir bítnikkara, listamenn sem fluttu sig í Haight-Ashbury hverfið í San Francisco. Þetta fólk tók upp gagnrýnin viðhorf bítnikkaranna til samfélagsins, myndaði sér sín eigin samfélög, hlustaði á psychedelic eða „skynörvandi“ rokk, tileinkaði sér kynlífsbyltinguna, og notaði eiturlyf eins og til dæmis kannabis efni, DMT og LSD til að kanna óþekkt mörk undirmeðvitundarinnar og vegna þess að það var tákn um frjálsan lífstíl.

The Human Be-In tónleikarnir í janúar 1967, sem fram fóru í The Golden Gate-almenningsgarðinum í San Francisco, lögðu grunninn að vinsældum hippamenningarinnar sem leiddi af sér hið goðsagnakennda Summer of Love eða „sumar ástarinnar“ á vesturströnd Bandaríkjanna og Woodstock-hátíðina á austurströndinni árið 1969.

Hippatískan og viðhorf hippanna höfðu mikil áhrif á menninguna, urðu áhrifavaldur í vinsælli tónlist, sjónvarpsefni, kvikmyndum, bókmenntum og hvers konar listum. Frá sjöunda áratugnum hafa mörg sjónarmið hippanna aðlagað sig að samfélaginu. Trúar- og menningaleg fjölbreytni, sem hipparnir aðhylltust, hafa hlotið heimslæga viðurkenningu, og austræn heimspeki og andleg hugtök hafa náð þó nokkurri hylli. Arf hippanna má sjá í nútíma samfélagi í ýmsu - s.s. í hollum mat, tónlistarhátíðum, kynlífsathöfnum og jafnvel internet byltingunni.