Gufuskipafélagið Thore

Úr Wikipediu, frjálsa alfræðiritinu

Gufuskipafélagið Thore eða Thore-félagið er skipafélag sem Þórarinn E. Tulinius stofnaði vorið 1903 utan um skiparekstur sinn og var hann aðalhluthafi og framkvæmdastjóri félagsins. Fyrir stofnun félagsins var Sameinaða gufuskipafélagið nær einrátt um ferðir til Íslands og lækkuðu farmgjöld og fargjöld við þessa samkeppni. Thore-félagið tók við rekstri skipa Þórarins en það voru skipin e/s Perwie og e/s Mjölnir. Félagið keypti til viðbótar skipin e/s Kong Inge og e/s Scotland en var einnig með 3-4 leiguskip í siglingum. Árið 1904 missti Thore-félagið tvö skip þegar Scotland strandaði og eyðilagðist við Færeyjar og Kong Inge strandaði við Bakkafjörð. Í stað Scotland keypti félagið 13 ára gamalt gufuskip Kong Tryggve en það kom til Íslands 1904. Árið 1906 og 1907 bættust við tvo skip e/s Kong Helge og e/s Sterling. Skipið Sterling var með rými fyrir 86 farþega á tveimur farrýmum, var 1030 rúmlestir og smíðað 1890. Það var raflýst og með 800 ha gufuvél og gekk 10-11 sjómílur á klukkustund. Sterling var aðallega í ferðum milli Kaupmannahafnar og Reykjavíkur en varð árið 1917 fyrsta strandferðaskip íslenska ríkisins. Kong Inge (uppgert skip eftir strandið 1904) strandaði og eyðilagðist við Flatey á Skjálfanda í febrúar 1906. Kong Tryggve fórst í hafís undan Langanesi í mars 1907 en skipið var þá á leið milli Húsavíkur og Seyðisfjarðar. Thore-félagið keypti svo e/s Ingolf árið 1907 en það skip hvarf í Norðursjó með allri áhöfn í desember 1914.

Árið 1907 voru flutningstekjur Thore-félagsins 727 þúsund kr. og skip á vegum þess fóru 55 millilandaferðir. Árið 1909 fól Alþingi Birni Jónssyni ráðherra að semja við Thore-félagið til 10 ára um siglingar og strandferðir. Félagið fékk 60 þús. árlegan ríkisstyrk gegn því að halda uppi að minnsta kosti 20 ferðum milli Kaupmannahafnar og Íslands, fjórum frá Hamborg og Leith og strandferðum kringum landið. Thore-félagið keypti skipin Austra og Vestra til strandferða en þau skip voru eins og rúmuðu hvort um sig 72 farþega á tveimur farrýmum. Auk þeirra var skipið Perwie í strandferðum. Árið 1910 keypti félagið e/s Ask og var þá með fimm skip í millilandasiglingum en þar voru Sterling, Kong Helge, Ingolf, Mjölnir og Askur.

Hallarekstur varð á strandsiglingum og var Thorefélagið leyst frá samningum frá 1909 að eigin ósk. Strandsiglingaskipin Austri og Vestri voru seld haustið 1912. Árið 1914 þegar Heimsstyrjöldin fyrri hófst lögðust ferðir Thore-félagsins til Íslands niður. Þá átti félagið fjögur skip Sterling, Heklu (sem áður hét Askur), Kong Helge og Mjölnir.

Heimild[breyta | breyta frumkóða]

  • Guðmundur Sæmundsson, Ágrip af sögu Thore-félagsins, Sjómannadagsblaðið