Grettir Algarsson
Grettir Algarsson, áður Hector Ian Munro Davidson (f. 1900 - d. ekki vitað) var vestur-íslenskur landkönnuður sem fæddist í Kanada. Hann freistaði þess árið 1925 að komast fyrstur manna á Norðurpólinn svo óyggjandi væri en metnaðarfullur leiðangur hans náði ekki því takmarki.
Bakgrunnur
[breyta | breyta frumkóða]Grettir Algarsson fæddist í Vancouver í Bresku-Kólumbíu árið 1900. Foreldrar hans munu hafa verið íslensk, en af ókunnum ástæðum var drengurinn settur í fóstur til hjóna frá Skotlandi og ólst hann upp sem Hector Ian Munro Davidson. Grettir lærði því aldrei íslensku og hafði engin sérstök tengsl við Ísland, en leit þó á sig sem Íslending og tók upp hið íslenska nafn sitt eftir að hann komst á fullorðinsár, þótt föðurnafnið virðist augljós misritun.
Árið 1927 freistaði blaðamaðurinn Árni Óla þess að varpa ljósi á líf Grettis í grein í Lesbók Morgunblaðsins en varð lítið ágengt. Enginn í Íslendingasamfélaginu vestanhafs virtist vita hverra manna Grettir væri, þótt hann hefði öðlast mikla frægð fyrir heimskautaferð sína.[1]
Stefnt á pólinn
[breyta | breyta frumkóða]Grettir hóf að stunda sjómennsku á táningsaldri og var skráður á sæfarendaskýrslur undir uppeldisnafni sínu.[2] Rétt um tvítugt var hann orðinn stýrimaður á stóru úthafsskipi, en þá greip ævintýraþráin í taumana. Hann sagði upp stöðu sinni 22 ára gamall og hófst handa við að undirbúa leiðangur til norðurslóða. Í Englandi tryggði hann sér litla skútu til fararinnar og gaf heitið Beltai. Eftir talsverða undirbúningsvinnu lagði skipið af stað sumarið 1924 en ekki vildi betur til en svo að það lenti í árekstri á Norðursjó, laskaðist mikið og var leiðangurinn varð úr sögunni.
Meðan á undirbúningi ferðarinnar stóð kynntist Grettir nýsjálenska sæfaranum Frank Worsley, sem hafði verið ferðafélagi Ernest Shackleton í frægum heimskautaleiðangri hans. Þótt Worsley væri nærri þrjátíu árum eldri en Grettir, sem var bæði kornungur og óþekktur, heillaðist hann af ákafa og metnaði hans. Ákváðu þeir að undirbúa í sameiningu nýjan leiðangur sumarið 1925.
Áform Grettis voru stórhuga, en hann hugðist festa kaup á lítilli flugvél sem borið gæti þrjá menn og nokkurra mánaða vistir. Vélinni skyldi siglt til Svalbarða og þaðan flogið á Norðurpólinn, þar sem ætlunin var að brotlenda, skilja flakið eftir og ganga því næst heim frá pólnum. Erfitt reyndist að finna hentuga vél miðað við þessi áform og ákvað Grettir í staðinn að freista þess að láta útbúa fyrir sig loftskip með það að markmiði að fljúga á pólinn og til baka. Gerð loftfarsins tók lengri tíma en til stóð, meðal annars vegna þess að leiðangurinn hafði ekki úr miklum fjármunum að spila. Því varð að hætta við loftskipasiglinguna á pólinn, en árið 1926 varð Fridtjof Nansen fyrstur til að fljúga yfir Norðurpólinn með þeirri aðferð.
Þótt frumforsenda ferðalagsins væri brostin ákváðu Worsley og Grettir að halda sínu striki og héldu í rannsóknarleiðangur til Svalbarða sumarið 1925. Farið var á gamalli seglskútu sem gefið var heitið Ísland.[3] Var leiðangurinn útbúinn af miklum vanefnum, þar sem leiðangursmenn betluðu m.a. vistir af vinum, kunningjum og áhugafólki um ferðalagið. Vísindalegur ávinningur ferðarinnar varð töluverður, þar sem náttúruvísindamenn og kortagerðarmenn voru með í för. Þannig tókst að afla upplýsinga um strauma, sjávarbotn og nákvæma hnattstöðu ýmissa eyja í Svalbarða-eyjaklasanum. Ritaði Worsley bók um leiðangurinn sem vakti allnokkra athygli.[4]
Eftirmæli
[breyta | breyta frumkóða]Í ljósi hinna miklu yfirlýsinga í aðdraganda leiðangursins um ferð á Norðurpólinn litu ýmsir svo á að ævintýrið hefði misheppnast illilega. Sögur komust á kreik um að Grettir væri hálfgerður svikahrappur eða að mistök hans hafi orðið til að eyðileggja leiðangurinn. Vildu Íslendingar þá lítið af hinum nýuppgötvaða landa sínum vita og var t.a.m. skopast með landkönnunarafrek hans í revíunni Eldvígslan sem sett var upp í Iðnó árið 1926. Vildi Árni Óla rétta hlut Grettis með Lesbókargrein sinni árið 1927, en fljótlega síðar mátti hann heita öllum gleymdur.
Ekki varð framhald á pólferðum Grettis Algarssonar eftir leiðangurinn 1925. Nafn hans hvarf úr fréttum og dánarár er óþekkt. Þó er vitað að löngu eftir Svalbarðaferðina kvæntist hann í New York konu sem var 20 árum yngri en hann, Beatrice Emma Kraft.[5] Hann stofnaði vélaverkstæði í Quebec, Algarsson Engineering Company Ltd. og gerðist uppfinningamaður. Hann fékk skráð nokkur einkaleyfi fyrir tækjabúnaði á árunum í kringum 1940.[6]
Tilvísanir
[breyta | breyta frumkóða]- ↑ „Medal Card of Davidson, Hector Ian Munro (1914-25), Registrar General of Shipping and Seamen, 1872-1992“.
- ↑ „"Grettir Algarsson" Lesbók Morgunblaðsins 15. maí 1927“.
- ↑ „Link to Maritime History Archive Web Site, Figurehead of "Lady of Avenel"“.
- ↑ „"Obituary: Dr. James William Slesser Marr" The Polar Record, 13/82, s. 94-95“ (PDF).
- ↑ „Marriage & Divorce results for Algarsson, www.ancestry.co.uk“.
- ↑ „U.S. Patent Office, nr. 2.313.795/1943“ (PDF).
Heimildir
[breyta | breyta frumkóða]- Worsley, Frank Arthur (1927). Under sail in the frozen North. (Grettir Algarsson ritar formála)