Le voyageur du Mésozoïque

Úr Wikipediu, frjálsa alfræðiritinu
Jump to navigation Jump to search

Le voyageur du Mésozoïque (íslenska: Eggið úr fortíðinni) er þrettánda Svals og Vals-bókin. Höfundur hennar var Franquin. Bókin kom út á frönsku árið 1960 en hefur enn ekki verið gefin út á íslensku.

Söguþráður[breyta | breyta frumkóða]

Sagan hefst á Suðurskautslandinu þar sem Sveppagreifinn finnur risaeðluegg sem varðveist hefur ferskt í ísnum í milljónir ára. Hann fær Sval og Val til að aðstoða sig við að flytja eggið og kallar til hóp vísindamanna til að hjálpa til við að klekja því út.

Risaeðluungi kemur úr egginu, en Gormdýrið hellir óvart hraðvaxtarblöndu út í matarskammt hans. Risaeðlan verður fullvaxta á einni nóttu og gengur berserksgang í Sveppaborg. Herinn er kallaður til leiks og hyggst uppræta skepnuna, en áður en til þess kemur tekst Gormdýrinu að rota hana. Risaeðlunni er komið fyrir á klettahöfða á lóð Sveppagreifans. Borgarstjóri Sveppaborgar tekur gleði sína á ný, enda reynist risaeðlan hafa mikið aðdráttarafl fyrir ferðamenn.

Með frönsku útgáfunni fylgdi aukasaga: La Peur au bout du fil. Þar drekkur Sveppagreifinn efnablöndu sem breytir honum í illmenni. Hann fer um Sveppaborg og lemur mann og annan með lurk, uns Svalur og Valur grípa í taumana. Greg félagi Franquins er skráður fyrir handritinu.

Fróðleiksmolar[breyta | breyta frumkóða]

  • Við leitina að risaeðluegginu notast Sveppagreifinn við bóluefni sem gerir menn ónæma fyrir kulda og getur því unnið léttklæddur í frostinu. Sama efni kemur við sögu í bókinni Veiran.
  • Risaeðlan kemur ekki aftur við sögu í Svals og Vals-bókunum fyrr en í bók 51, Alerte aux Zorkons.
  • Viggó viðutan bregður fyrir á einni teikningu í bókinni og er það í fyrsta sinn í bókaflokknum.
  • Þorpsfyllibyttan í Sveppaborg er einnig kynnt til sögunnar í fyrsta sinn.
  • Óvenjulegt dæmi um kaldhæðni Franquins kemur fyrir í bókinni þegar risaeðlan étur með húð og hári einn vísindamannanna, prófessor Sprtschk. Sveppagreifinn upplýsir þá að viðkomandi vísindamaður hafi einmitt verið að þróa nýja kjarnorkusprengju og allir taka gleði sína á ný.
  • Prófessor Sprtschk kemur við sögu í bókinni Panique en Atlantique í ritröðinni Sérstakt ævintýri um Sval....