Fara í innihald

Núllbaugur

Úr Wikipediu, frjálsa alfræðiritinu
(Endurbeint frá Greenwich-baugurinn)
Núllbaugurinn liggur í gegnum Royal Greenwich Observatory í Greenwich á Englandi

Núllbaugur[1] (einnig Greenwich-núllbaugur, Greenwich-baugur[1] eða grunnbaugur lengdar[1]) er sá lengdarbaugur sem allir aðrir lengdarbaugar jarðarinnar eru miðaðir við, hann hefur lengdargráðuna 0 og liggur í gegnum Royal Greenwich Observatory í Greenwich á Englandi. Daglínan (sem er ekki bein eins og núllbaugurinn) er svo staðsett í námunda við 180. lengdargráðu.

Fyrir lengdargráður er engin náttúruleg miðlína til, líkt og miðbaugur fyrir breiddargráðurnar, þannig að velja þurfti þann viðmiðunarpunkt. Breskir landfræðingar og vísindamenn völdu að nota Greenwich, en aðrir völdu ýmsa punkta víðs vegar um jörðina, þar á meðal Ferro, Róm, Kaupmannahöfn, Jerúsalem, St. Pétursborg, Písa, París og Philadelphiu. Árið 1884 var, að frumkvæði Chester A. Arthurs forseta Bandaríkjanna, haldin alþjóðleg núllbaugsráðstefna þar sem meðal annars var ákveðið að öll lönd heims skyldu nota Greenwich sem núllbaug. San Domingo (nú Dóminíska lýðveldið) greiddi atkvæði gegn ályktuninni og Frakkland og Brasílía sátu hjá. Frakkland tók ekki upp Greenwich-núllbaug fyrr en 1911.