Fara í innihald

Lengdargráða

Úr Wikipediu, frjálsa alfræðiritinu
(Endurbeint frá Lengdarbaugur)
Jörðin með lengdargráðum

Lengdargráða (oft táknað með λ), lýsir staðsetningu á jörðinni austan eða vestan við núllbaug sem gengur í gegnum Royal Greenwich Observatory í Greenwich á Englandi. Daglínan liggur að hluta til eftir þeim lengdarbaug sem er gagnstæður núllbaugnum við 180°. Hún er þó ekki lengdarbaugur heldur pólitískt ákvörðuð lína milli tveggja tímabelta. Hádegisbaugur er stórbaugur sem tengir saman punkta með sömu lengdargráðu.

Lýsing[breyta | breyta frumkóða]

Hverri lengdargráðu er skipt upp í 60 mínútur sem hver um sig skiptist í 60 sekúndur. Lengdargráða er því rituð á forminu 18° 55′ 04" V (lengdargráða vegamóta Hafnargötu og Suðurgötu á Siglufirði). Annar ritháttur er að nota gráður og mínútur og brot úr mínútu, t.d. 18° 55,145′ V (sami lengdarbaugur). Stundum er austur-/vestur-viðskeytinu skipt út þannig að mínusmerki tákni vestur, en þó er ekki óþekkt að einhverjir noti mínus fyrir austur. Ástæðan fyrir því að nota frekar vestur fyrir mínus er að láta núllbaug tákna y-ás á kartísku hnitakerfi, þ.e. að allt austan við núllbaug sé í plús á x-ásnum.

Tiltekna lengdargráðu má sameina við tiltekna breiddargráðu til þess að gefa nákvæma staðsetningu á yfirborði jarðar.

Ólíkt breiddargráðu, sem er alltaf um það bil 111 km löng á yfirborði jarðar, þá er lengd lengdargráðunnar breytileg, allt frá 0 til 111 km, þ.e. km (111 km margfaldað með kósínus breiddargráðunnar). Á pólunum hefur lengdargráða enga lengd, en á miðbaug er hún jafnlöng breiddargráðunum.

Lengdargráðu í tilteknum punkti má finna með því að reikna tímamismuninn milli þess punkts og alheimstímans (UTC) í Greenwich. Þar sem 24 klukkustundir eru í einum degi, og 360 gráður í hring, þá er tilfærsla sólar á himni 15 gráður á klukkustund (360°/24 klst = 15°/klst). Þannig er ljóst að ef tímabelti þar sem einhver er staddur er þremur tímum á undan UTC, þá er viðkomandi nálægt 45° lengdargráðu (3 klst × 15°/klst = 45°). Það er „nálægt“ en ekki „á“ vegna þess að punkturinn getur verið hvar sem er í tímabeltinu, og þar að auki eru tímabelti ákveðin pólitískt, þannig að miðjur þeirra og jaðrar liggja oft ekki á lengdarbaugum með 15° mismun. Til þess að reikna þetta nákvæmlega á þennan hátt þarf því tímamælitæki (t.d. klukku) sem er stillt á UTC, og svo þarf að finna réttan staðartíma með því að athuga gang sólar eða með stjörnufræðilegri athugun.

Lengdarbaugar[breyta | breyta frumkóða]

Lína allra punkta á sömu lengdargráðu er kölluð lengdarbaugur, og er hálfur hringur frá norðurpól til suðurpóls (180° af hring).

Hægt er að draga óteljandi marga hringi umhverfis jörðina með þeim hætti sem lýst er að ofan, á milli pólanna. Þessir hringir eru kallaðir lengdarbaugar, og eru þeir allir jafnir að stærð. Þeir koma allir saman á tveimur punktum, á norðurpólnum og suðurpólnum.

Tengt efni[breyta | breyta frumkóða]

Wikiorðabókin er með skilgreiningu á orðinu