Glarus

Úr Wikipediu, frjálsa alfræðiritinu
(Endurbeint frá Glarus (fylki))
Glarus
Höfuðstaður Glarus
Flatarmál 685,4 km²
Mannfjöldi
 – Þéttleiki
39.593 (2013)
57/km²
Sameinaðist Sviss 1352
Stytting GL
Tungumál Þýska
Vefsíða [http://www.gl.ch

Glarus er fámenn kantóna í Sviss við norðurjaðar Alpafjalla. Íbúar eru aðeins 39 þúsund (2013). Höfuðstaðurinn heitir sömuleiðis Glarus.

Lega og lýsing[breyta | breyta frumkóða]

Glarus liggur í norðaustri Sviss og er nær öll innan um Alpafjöll. Hæsti tindurinn er Tödi (3.614 m). Þannig liggur meginhluti Glarus í tveimur Alpadölum sem ganga til suðurs frá stöðuvatninu Walensee. Aðrar kantónur sem að Glarus liggja eru St. Gallen fyrir norðan og austan, Graubünden fyrir sunnan, Uri fyrir suðvestan og Schwyz fyrir vestan. Íbúar eru aðeins 38 þúsund og skiptast samanlagt í þrjú sveitarfélög. Höfuðstaðurinn Glarus liggur við ána Linth og tilheyrir sveitarfélaginu Glarus.

Skjaldarmerki[breyta | breyta frumkóða]

Skjaldarmerki Glarus er það eina í Sviss (af kantónunum) sem sýnir manneskju. Hér er um heilagan Frídolín að ræða og heldur hann á Biblíunni og göngustaf. Um höfuðið er geislabaugur. Bakgrunnurinn er rauður. Heilagur Frídolín var írskur kristniboði í upphafi 6. aldar sem flutti til Glarus og boðaði kristni. Merki þetta kom fyrst fram í orrustunni við Näfels árið 1388 af íbúum Glarus. Það hefur tekið nokkrum smávægilegum breytingum í gegnum tíðina, síðast 1959.

Söguágrip[breyta | breyta frumkóða]

Eftir tíma Rómverja fluttu alemannar inn í fjalladalina eftir árið 700 og námu landið. Allt frá byrjun var héraðið eign klaustursins Säckingen (Þýskalandsmegin við Rínarfljót). Síðla á 13. öld eignuðust Habsborgarar héraðið. En það varaði stutt, því 1351 hertóku herir frá Bern og öðrum svissneskum kantónum fjalladalina í Glarus. Strax ári síðar reyndu Habsborgarar að endurheimta Glarus, en voru hraktir til baka. Glarus var þá gerð að eigin kantónu og fékk inngöngu í svissneska sambandið 1352. Síðasta tilraun Habsborgara til að endurheimta Glarus var 1388 en í orrustunni við Näfels sigruðu Svisslendingar miklu stærri her Habsborgara. Það var þó ekki fyrr en 1395 sem Glarus keypti sig lausan frá klaustrinu í Säckingen, en greiddu nunnuklaustrinu þar enn árlegt gjald þar til Frakkar hertóku Sviss í lok 18. aldar.

Á 16. öld bjó siðaskiptamaðurinn Ulrich Zwingli í Glarus og starfaði sem prestur. Siðaskiptin gengu í garð í Glarus 1530 en þó héldust nokkrir bæir kaþólskir. Þetta orsakaði mikla spennu í kantónunni. Stjórn kantónunnar klofnaði, sem og dómsmálin, hermálin og saltverslunin. Allt var gert í lúterskum sið annars vegar og í kaþólskum sið hins vegar. Meira að segja póstþjónustan klofnaði á þennan hátt. Kaþólikkar tóku upp gregoríska tímatalið (sem er í notkun í heiminum í dag) en siðaskiptamenn héldu fast í júlíanska tímatalið. Vandi íbúanna til að virða trú hvers annars leiddi til þess að nornaveiðar héldu áfram þar en síðasta galdraaftaka Evrópu fór fram í Glarus 1782 er Anna Göldi var hálshöggvin. Þessi stórkostlegi tvískiptingur í kantónunni var ekki leystur fyrr en 1836 er Glarus meðtók nýja stjórnarskrá, löngu eftir að Frakkar yfirgáfu landið (1814). Í dag er iðnaður aðalatvinnan í Glarus, enda hefur landbúnaður lengi á erfitt uppdráttar í fjalladölunum. Ferðaþjónusta er enn sem komið er frekar lítil þar.

Sveitarfélög[breyta | breyta frumkóða]

1. janúar 2011 voru allir bæir í Glarus sameinaðir í þrjú sveitarfélög, þar á meðal höfuðstaðurinn þar sem tæp 6.000 manns búa.

Sveitarfélag Íbúar Ath.
Glarus Nord 17 þúsund
Glarus 12 þúsund Þar á meðal höfuðstaðurinn Glarus
Glarus Süd 9.800

Heimildir[breyta | breyta frumkóða]