Giorgio Napolitano
Giorgio Napolitano | |
---|---|
Forseti Ítalíu | |
Í embætti 15. maí 2006 – 14. janúar 2015 | |
Forsætisráðherra | Romano Prodi Silvio Berlusconi Mario Monti Enrico Letta Matteo Renzi |
Forveri | Carlo Azeglio Ciampi |
Eftirmaður | Sergio Mattarella |
Persónulegar upplýsingar | |
Fæddur | 29. júní 1925 Napólí, Ítalíu |
Látinn | 22. september 2023 (98 ára) Róm, Ítalíu |
Þjóðerni | Ítalskur |
Stjórnmálaflokkur | Ítalski kommúnistaflokkurinn (1945–1991) Ítalski vinstri-lýðræðisflokkurinn (1991–1998) Vinstri-demókratar (1998–2006) Óflokksbundinn (2006-) |
Maki | Clio Maria Bittoni (g. 1959) |
Börn | 2 |
Háskóli | Università degli Studi di Napoli Federico II |
Starf | Stjórnmálamaður |
Undirskrift |
Giorgio Napolitano (f. 29. júní 1925; d. 22. september 2023)[1] var ítalskur stjórnmálamaður sem var 11. forseti Ítalíu frá 2006 til 2015. Vegna áhrifastöðu hans í ítölskum stjórnmálum á forsetatíð hans kölluðu gagnrýnendur hans hann oft Re Giorgio eða „Georg konung“.[2]
Þótt ítalska forsetaembættið sé ópólitískt embætti sem á að standa vörð um stjórnarskrá Ítalíu var Napolitano lengi meðlimur í ítalska kommúnistaflokknum (og ókommúniskum jafnaðarflokkum sem tóku við eftir upplausn kommúnistaflokksins). Hann var lengi meðlimur í hægrisinnaðri væng flokksins sem hvatti til nútímavæðingar. Napolitano var fyrst kjörinn á ítalska fulltrúaþingið árið 1953 og var forseti þess frá 1992 til 1994. Hann var innanríkisráðherra Ítalíu frá 1996 til 1998 í stjórnartíð Romano Prodi.
Árið 2005 var Napolitano útnefndur öldungadeildarþingmaður til lífstíðar af forsetanum Carlo Azeglio Ciampi. Næsta ár var hann kjörinn forseti Ítalíu af ítalska þinginu. Á fyrra kjörtímabili sínu staðfesti Napolitano bæði miðvinstristjórn Prodi og miðhægristjórn Silvio Berlusconi. Í nóvember árið 2011 sagði Berlusconi af sér sem forsætisráðherra vegna fjármálavandræða. Napolitano bað í kjölfarið Mario Monti að mynda nýja ríkisstjórn sem gagnrýnendur kölluðu „forsetastjórnina“.[3]
Þegar sjö ára kjörtímabili hans lauk í apríl árið 2013 féllst Napolitano (sem þá var 87 ára) með semingi á að bjóða sig fram á ný til þess að standa vörð um ríkisstofnanir Ítalíu eftir pattstöðu sem kom upp á ítalska þinginu í kjölfar þingkosninga ársins 2013. Þetta var í fyrsta sinn sem forseti Ítalíu var endurkjörinn. Sem forseti leysti Napolitano úr stjórnarkreppunni með því að bjóða Enrico Letta að stofna til þjóðstjórnar. Eftir átta og hálft ár í embætti sagði Napolitano af sér, þá 89 ára gamall, í janúar árið 2015.[4]
Gagnrýnendur Napolitanos sökuðu hann oft um að hafa breytt táknrænu forsetaembætti Ítalíu í pólitískt embætti vegna þess hve oft hann valdi í reynd ríkisstjórnir og embættismenn þegar mjótt var á munum eftir kosningar.[5][6] Þegar Napolitano lést var hann eini lifandi fyrrverandi forseti landsins og langlífasti forseti í sögu Ítalíu.
Tilvísanir
[breyta | breyta frumkóða]- ↑ Profile of Giorgio Napolitano
- ↑ Donadio, Rachel (2. desember 2011). „From Ceremonial Figure to Italy's Quiet Power Broker“. The New York Times. Sótt 6. ágúst 2018.
- ↑ Il governo del presidente
- ↑ „Italian President Napolitano announces retirement“. BBC. 14. janúar 2015. Sótt 6. ágúst 2018.
- ↑ Grillo: «Napolitano monarca medievale». Montecitorio: ecco le «controconsultazioni»
- ↑ Napolitano, il monarca indispensabile
Fyrirrennari: Carlo Azeglio Ciampi |
|
Eftirmaður: Sergio Mattarella |