Gestur Pálsson

Úr Wikipediu, frjálsa alfræðiritinu
Jump to navigation Jump to search
Gestur Pálsson

Gestur Pálsson (25. september 185219. ágúst 1891) var íslenskur rithöfundur sem dó í Vesturheimi. Hann var einn af fjórmenningunum sem gáfu út tímaritið Verðandi og voru kenndir við það og nefndir Verðandimenn.

Gestur fæddist á Miðhúsum í Reykhólasveit í Barðastrandarsýslu. Hann varð stúdent úr Lærða skólanum árið 1875 og hélt síðan til Kaupmannahafnar, þar sem hann nam guðfræði við Hafnarháskóla um tveggja ára skeið en hvarf frá námi án þess að ljúka prófi. Hann kom svo heim, dvaldi í eitt ár á heimaslóðum í Reykhólasveit og trúlofaðist þar stúlku en hélt síðan aftur til Kaupmannahafnar að ljúka námi. En nokkru eftir að þangað kom fékk hann bréf frá unnustu sinni, sem sleit trúlofuninni. Varð honum mikið um það og smátt og smátt flosnaði hann aftur upp úr námi.

Árið (1882), um það bil sem Kaupmannahafnardvölinni lauk, gaf hann ásamt þeim Einari H. Kvaran, Hannesi Hafstein og Bertel Þorleifsyni út tímaritið Verðandi, þar sem þeir birtu eftir sig verk í anda raunsæisstefnunnar en hún var þá sem óðast að ryðja sér til rúms á Norðurlöndunum. Framlag Gests var smásagan Kærleiksheimilið, ein þekktasta saga hans.

Eftir námsdvölina í Kaupmannahöfn bjó Gestur í nokkur ár í Reykjavík, oft við þröngan kost, og fékkst þá meðal annars við kennslu og skrifstofustörf. Einnig ritstýrði hann blöðum, fyrst Þjóðólfi og síðan Suðra, en útgáfu þess blaðs var hætt 1886. Gestur fluttist til Winnipeg árið 1890 þar sem hann tók við ritstjórn Heimskringlu, sem var blað Íslendinga í Vesturheimi. Ekki varð ritstjóraferill hans þó langur þar því hann dó úr lungnabólgu í Winnipeg árið eftir. Þá var hann raunar í þann veginn að hætta störfum vegna deilna við útgefendur blaðsins.

Gestur var einlægur fylgjandi raunsæisstefnunnar og skrifaði sögur í anda hennar. Hann er þekktastur fyrir smásögur sínar en ýmsar blaðagreinar hans þykja þó með því besta sem eftir hann liggur. Þær voru beittar og lýstu eindregnum skoðunum höfundar síns, sem átti tíðum í hörðum ritdeilum við aðra ritstjóra á þeim tíma, einkum Jón Ólafsson ritstjóra Þjóðólfs og Valdimar Ásmundsson ritstjóra Fjallkonunnar.

Heimildir[breyta | breyta frumkóða]

  • Kristján Eiríksson (ritstj.). Sýnisbók íslenskra bókmennta frá 1550 til 1900. Reykjavík, 2003.

Tenglar[breyta | breyta frumkóða]