Djengis Khan

Úr Wikipediu, frjálsa alfræðiritinu
(Endurbeint frá Gengis Kan)
Stórkhan Mongólaveldisins
Borjigin-ættbálkurinn
Djengis Khan
Djengis Khan
Ríkisár 1206 – 25. ágúst 1227
SkírnarnafnTemúdjín
FæddurU. þ. b. 1162
 Khentii-fjöllum, Mongólíu
Dáinn18. ágúst 1227
 Xingqing, Vestur-Xia
GröfÓvíst
Undirskrift
Konungsfjölskyldan
Faðir Yesügei
Móðir Hoelun
EiginkonurBörte
Khulan Khatun
Yesugen Khatun
Yesulun Khatun
Ibaqa Khatun
Möge Khatun
BörnJochi, Chagatai, Ögedei, Alakhai Bekhi, Tolui o.fl.

Djengis Khan[1] (fæddur undir nafninu Temúdjín, u.þ.b. 1162 – 18. ágúst 1227) var stórkan og stofnandi Mongólaveldisins, sem varð stærsta samfellda heimsveldi í mannkynssögunni eftir dauða hans. Hann komst til valda með því að sameina hirðingjaættbálka Norðaustur-Asíu. Eftir að hafa stofnað veldið og tekið upp nafnið Djengis Khan hratt hann af stað innrásum Mongóla og lagði undir sig meirihluta Evrasíu. Innrásum og landvinningum Djengis Khans fylgdu oft miklar blóðsúrhellingar og fjöldamorð á almennum borgurum. Undir lok ævi kansins réðu Mongólar yfir miklum hluta Mið-Asíu og Kína Songveldisins.

Áður en Djengis Khan dó lýsti hann Ögedei Khan, son sinn, eftirmann sinn. Síðar áttu sonarsynir Djengis eftir að skipta veldi hans upp í mörg kanöt.[2] Djengis lést árið 1227 eftir að hafa sigrað Vestur-Xiaríkið. Hann var jarðsettur í ómerktri gröf einhvers staðar í Mongólíu.[3] Afkomendur hans þöndu Mongólaveldið enn lengra út um Evrasíu með því að hertaka ríki og stofna leppríki í Kína, Kóreu, Kákasus, Mið-Asíu og stórum hlutum Austur-Evrópu og Suðvestur-Asíu. Í mörgum þessara innrása voru fjöldamorð fyrri landvinninganna endurtekin. Djengis Khan og veldi hans gátu sér því ógurlegan orðstír í sögusögnum fórnarlamba þeirra.[4]

Auk hernaðarafreka sinna kom Djengis Khan ýmsum framförum til leiðar í Mongólaveldinu. Hann tók upp úígúrska stafrófið og gerði það að ríkisstafrófi Mongólaveldisins. Hann var auk þess hlynntur verðleikaræði, hvatti til umburðarlyndis gagnvart ólíkum trúhópum í veldinu og sameinaði marga ólíka hirðingjahópa Norðaustur-Asíu. Nútímaríkið Mongólía lítur á Djengis Khan sem stofnföður sinn.[5]

Djengis Khan var alræmdur fyrir hrottaskap sinn í hernaði[6] en honum hefur einnig verið hrósað fyrir að koma öllum silkiveginum undir eina, samstillta stjórn. Þetta jók samskipti og verslun milli Norðaustur-Asíu, hinnar íslömsku Suðvestur-Asíu og hinnar kristnu Evrópu.

Æviágrip[breyta | breyta frumkóða]

Upphaf Djengis Khan[breyta | breyta frumkóða]

Djengis Khan fæddist um árið 1162 í Mið-Mongólíu. Í fyrstu bar hann nafnið Temúdjín. Hann var af ættbálki sem rakti ættir sínar til Kabúl Kan, sem hafði eitt sinn sameinað Mongólíu á móti kínverska Jin-keisaraveldinu, og var sonur höfðingja þess ættbálks. Samkvæmt fornsögum Mongóla á Temúdjín að hafa fæðst með blóðklút í hendinni sem boðaði að hann myndi verða mikill leiðtogi. Móðir hans ól hann upp með því markmiði að hann skildi hversu mikilvægt væri að Mongólar stæðu saman. Þegar Djengis var níu ára var faðir hans myrtur. Átti þá Djengis að taka við af honum sem leiðtogi en ættflokkurinn neitaði að fylgja svo ungum dreng. Þegar Djengis var 16 ára kvæntist hann fyrstu konu sinni, Borte. Með þessu hjónabandi sameinuðust ætt hans og önnur ætt sem hét Konkriat. Djengis eignaðist son sem fékk nafnið Jochi en um daga sína eignaðist hann fjóra syni. Um árið 1200 hófst Djengis handa við að byggja upp veldi sitt og réðst fyrst á Tatara. Djengis átti í byrjun erfitt með að vinna með öðrum ættum og endaði oftast á því að drepa leiðtoga þeirra til að geta sameinað þá undir sinni stjórn. Á nokkrum árum náði hann þó að sameina alla ættbálka Mongóla undir sína stjórn. Það var þá sem hann tók upp nafnið Djengis Khan.[7]

Heimsveldið verður til[breyta | breyta frumkóða]

Á árunum eftir að hann sameinaði Mongólíu hóf hann allsherjarstríð gegn Jin-ættinni og hertók höfuðborg þeirra, Zhongdu árið 1215. Eftir þann sigur hélt hann áfram að stækka veldi sitt. Um árið 1219 bættust við þau landsvæði sem í dag heita Túrkmenistan og Afganistan. Djengis Khan er sagður hafa haft yfirburðahæfileika sem herstjóri. Herir Djengis Khans voru fámennari en flestir þeir herir sem hann mætti en skort á mannafla bætti hann upp með skipulagi og hörku.[8]

Skipulag Heimveldisins[breyta | breyta frumkóða]

Djengis Khan var skynsamur að því leyti að hann kunni að meta hæfileika handverksmanna og smiða og var þeim hlíft ef þeir vildu ganga í lið með honum. Með þessu gat hann haldið við herflokkum sínum og þeir stækkuðu. Á hinn bóginn skipaði hann stjórnmálamönnum og aðlinum sem og öðrum sem teknir voru til fanga að berjast í fremstu víglínu. Talið er að í her Djengis Khans hafi verið um 200.000 menn þegar mest var.

Djengis Khan byggði líka upp nýtt stjórnkerfi sem gerði Mongólíu kleift að stjórna heimsveldi, en áður hafði samfélaginu verið stjórnað af foringjum hvers ættbálks fyrir sig. Í þessu nýja kerfi var mikil áhersla lögð á lagasetningu og skipulagt dómskerfi.[8]

Dauði Djengis Khans[breyta | breyta frumkóða]

Djengis Khan náði háum aldri á þess tíma mælikvarða og er talið að hann hafi dáið um sextugt. Árið 1227 barði hann niður uppreisn í kínverska konungsveldinu Xi Xia og lést hann þar. Talið er að hann hafi látist vegna áverka sem hann hlaut við að detta af hestbaki. Síðasta skipun Djengis Khans var að útrýma Xi Xia-ættinni og jafna borg þeira við jörðu. Veldi Mongóla hélt áfram að stækka eftir lát Djengis Khans.[9]

Sögulegt ágrip[breyta | breyta frumkóða]

  • u.þ.b. 1155-1167 - Temúdjín fæddur í Hentiy í Mongólíu.
  • u.þ.b. 1171 - Tatarar eitra fyrir föður Temúdjíns, fjölskylda hans býr við örbirgð
  • u.þ.b. 1184 - Borte, konu Temúdjíns, rænt. Bræður hans hjálpa honum við að endurheimta hana.
  • u.þ.b. 1185 - Fyrsti sonurinn, Jochi, fæddur.
  • 1190 - Temúdjín gengur til liðs við mongólska þjóðflokka og verður leiðtogi þeirra, kemur á Yassa-löggjöf.
  • 1201 - Ber sigurorð af Jamuqa Jadaran.
  • 1202 - Gerður að ríkisarfa Ong Khan eftir árangursríka baráttu við Tatara.
  • 1203 - Sigrar Keraits.
  • 1204 - Sigrar Naimans (sameinar þjóðflokkana sem Mongóla).
  • 1206 - Temúdjín nefndur Djengis Khan af fylgismönnum hans í Kurultai.
  • 1207-1210 - Djengis herjar á vesturhluta Xia-veldisins, í Norðvestur-Kína og Tíbet. Því til viðbótar gangast Úígúrar honum á hönd.
  • 1211 - Djengis leggur til atlögu við Jinveldið sem stýrði Norður-Kína.
  • 1219-1222 - Sigrar Khwarezmid-veldið í Persíu.
  • 1226 - Herjar öðru sinni á vesturhluta Xia-veldisins.
  • 1227 - Djengis Khan deyr í vesturhluta Xia.

Tenglar[breyta | breyta frumkóða]

  • „Hverjir voru Ghenghis Khan og Kúblai Khan?“. Vísindavefurinn.

Tilvísanir[breyta | breyta frumkóða]

  1. „Nafn þessa sögufræga manns er ritað svo á íslensku: Djengis Khan“. Málfarsbankinn. Sótt 12. apríl 2023.
  2. Saunders, John Joseph (2001) [1972]. History of the Mongol Conquests. Philadelphia: University of Pennsylvania Press.
  3. John Man (2004). Genghis Khan: Life, Death, and Resurrection (endurprentun, myndskr. útgáfa). Bantam. bls. 254–55. Sótt 17. maí 2014.
  4. Ian Jeffries (2007). Mongolia: a guide to economic and political developments. Taylor & Francis. bls. 5–7.
  5. „Genghis Khan“. North Georgia College and State University. Afrit af upprunalegu geymt þann 6. mars 2010. Sótt 26. janúar 2010.
  6. Peter Taylor (27. maí 2015). „The World's Richest Terror Army“. BBC. Sótt 13. apríl 2023.
  7. Owen Jarus (23. janúar 2023). „Genghis Khan, Founder of Mongol Empire: Facts & Biography“. Live Science. Sótt 14. apríl 2023.
  8. 8,0 8,1 „Genghis Khan“. history.com. HISTORY. 9. nóvember 2009. Sótt 13. apríl 2023.
  9. „Genghis Khan dies“. history.com. HISTORY. 4. mars 2010. Sótt 13. apríl 2023.