Hallgrímur Scheving

Úr Wikipediu, frjálsa alfræðiritinu

Hallgrímur Scheving (13. júlí 178131. desember 1861) var fræðimaður og kennari í Bessastaðaskóla. Hann var talinn einn mesti menntamaður Íslendinga á sinni tíð og hafði mikil áhrif á Jónas Hallgrímsson, Konráð Gíslason og aðra Fjölnismenn og fylgjendur þeirra.

Hallgrímur var fæddur á Grenjaðarstað í Aðaldal, sonur séra Hannesar Scheving Lárussonar og konu hans Snælaugar (Snjálaugar) Hallgrímsdóttur. Hann gekk í Hólaskóla og var í síðasta stúdentahópnum sem útskrifaðist þaðan vorið 1802, en síðan var skólinn lagður niður. Hann fór svo til háskólanáms í Kaupmannahöfn, lærði málfræði og lauk doktorsprófi í fornmálum. Árið 1810 fór hann að kenna við Bessastaðaskóla og kenndi þar latínu í 36 ár og svo í fjögur ár eftir að skólinn var fluttur til Reykjavíkur 1846.

Hallgrímur og Bjarni Thorarensen voru skólabræður í Kaupmannahöfn og miklir áhugamenn um íslenska tungu, málfræði og fornnorræn fræði. Á Bessastöðum vann Hallgrímur að orðasöfnun og hafði oft nemendur skólans sem skrifara, þar á meðal Konráð Gíslason og Skafta Tímóteus Stefánsson. Hann safnaði bæði orðum úr fornmáli og samtímamáli, svo og málsháttum og fleiru. Hann mun hafa haft í hyggju að semja stóra orðabók. Hún kom þó aldrei út, en hins vegar nýttust orðasöfn hans seinni tíma fræðimönnum. Hann var líka áhugasamur um náttúruvísindi. Þeir Sveinbjörn Egilsson kenndu samtímis við skólann áratugum saman og höfðu mótandi áhrif á unga menntamenn á fyrri hluta 19. aldar.

Venjulega er tekið fram, að endurreisn íslenzkunnar í seinni tíð sé Fjölni að þakka, og einkum Konráði og Jónasi, en menn gæta þess ekki, eða vilja ekki gæta þess, að Scheving og faðir minn lögðu grundvöllinn. Scheving hafði áhrif á Konráð, en faðir minn á Jónas, og ritháttur þeirra beggja og skáldskapur Jónasar er beinlínis kominn fram af áhrifum þessara tveggja kennara, hinna ágœtustu manna, sem þá voru uppi og enginn hefur yfirstigið. Hér á landi voru þá einungis þessir tveir, sem héldu uppi heiðri málsins.
 
— Benedikt Gröndal, Dægradvöl

Hallgrímur varð yfirkennari í Lærða skólanum þegar skólinn flutti til Reykjavíkur 1846. Hann hætti kennslu 1850 og dó í Reykjavík á gamlársdag 1861.

Heimildir[breyta | breyta frumkóða]

  • „Frá Hallgrími Scheving. Finnbogi Guðmundsson, Árbók Landsbókasafns Íslands,1969“.
  • „Hallgrímur Scheving. Sunnanfari, september 1895“.