Fara í innihald

Fyrra Téténíustríðið

Úr Wikipediu, frjálsa alfræðiritinu
Fyrra Téténíustríðið

Rússnesk herþyrla skotin niður af téténskum hermönnum nálægt höfuðborginni Grozníj árið 1994.
Dagsetning11. desember 199431. ágúst 1996 (1 ár, 8 mánuðir, 2 vikur og 6 dagar)
Staðsetning
Niðurstaða Téténskur sigur. Téténía viðheldur sjálfstæði í reynd með undirritun Moskvusáttmálans 1997.
Stríðsaðilar
Téténska lýðveldið Itkería Fáni Rússlands Rússland
Leiðtogar
Dzhokhar Dúdajev  
Zelmíkhan Jandarbíjev
Aslan Maskhadov
Fáni Rússlands Borís Jeltsín
Fjöldi hermanna
Um 6.000 (talning Téténa)
Rússnesk talning: 13.500–15.000 (1994)[1]
Fáni Rússlands 23.800 (1994)[2]
Fáni Rússlands 70.500 (1995)[3]
Mannfall og tjón
3.654–17.391 drepnir eða horfnir Fáni Rússlands 5.732 hermenn drepnir eða horfnir (samkvæmt Rússum)
Fáni Rússlands 17.892[4]–52.000[5] særðir
Aðrar talningar:
14.000 hermenn drepnir eða særðir (samkvæmt mati Nefndar mæðra rússneskra hermanna)
1.906[4]–3.000[5] horfnir
30.000–40.000 óbreyttir borgarar drepnir (samkvæmt rússneskum gögnum)[6]
80.000 óbreyttir borgarar drepnir (samkvæmt talningum mannréttindahópa)[7]
Minnst 161 óbreyttir borgarar drepnir utan Téténíu[8]
500.000+ óbreyttir borgarar hraktir á vergang[9]

Fyrra Téténíustríðið var styrjöld sem Rússar háðu gegn aðskilnaðarsinnum í Téténíu frá 1994 til 1996. Téténar höfðu lýst yfir stofnun sjálfstæðs lýðveldis eftir fall Sovétríkjanna árið 1991 en Rússar skilgreindu Téténíu sem sjálfsstjórnarlýðveldi innan rússneska sambandsríkisins. Stríðinu lauk árið 1996 með friðarsáttmálum þar sem Rússar viðurkenndu sjálfsákvörðunarrétt Téténa í flestum málum. Friðurinn varði þó ekki lengi því seinna Téténíustríðið hófst árið 1999 og lauk með rússneskum sigri árið 2000.

Rússar byrjuðu að brjótast til áhrifa í Kákasus á 18. öld, á valdatíð Péturs mikla. Téténar undir forystu Imams Shamil héldu uppi harðri baráttu gegn rússneskum yfirráðum frá 1834 til 1859 en neyddust síðan til að semja um frið. Þrátt fyrir að Kákasussvæðið hefði verið friðþægt að nafninu til héldu Téténar áfram skærum og mannránum til ársins 1918.[10]

Eftir fall rússneska keisaradæmisins í rússnesku byltingunni árið 1917 stofnuðu Téténar norðurkákasíska fjallalýðveldið. Eftir rússnesku borgarastyrjöldina var fjallalýðveldið limað inn í Sovétríkin og varð þar hluti af rússneska sovétlýðveldinu. Árið 1936 var Téténía sameinuð Ingúsetíu og varð að sjálfsstjórnarlýðveldi innan Rússlands undir nafninu Téténía-Ingúsetía.[10]

Þann 27. október 1991, stuttu fyrir upplausn Sovétríkjanna, var Dzhokhar Dúdajev, fyrrum herforingi í kjarnorkuherafla Rauða hersins, kjörinn forseti Téténíu. Lýðveldi Sovétríkjanna höfðu hvert að öðru lýst yfir sjálfstæði á grundvelli stjórnarskrár Sovétsambandsins. Þar sem sjálfstjórnarsvæði höfðu svipaðan rétt samkvæmt lögum frá árinu 1990 lýsti Dúdajev yfir sjálfstæði Téténíu þann 1. nóvember 1991. Ingúsar kusu hins vegar í þjóðaratkvæðagreiðslu að vera áfram innan Rússlands.[10]

Gangur stríðsins

[breyta | breyta frumkóða]

Ríkisstjórn Borísar Jeltsín í Rússlandi viðurkenndi aldrei sjálfstæði Téténíu. Í desember árið 1994 sendi Jeltsín herlið til téténsku höfuðborgarinnar Grozníj til að „skakka leikinn“ og færa Téténíu aftur undir rússnesk yfirráð.[10]

Rússar bjuggust við því að vinna skjótan og auðveldan sigur á móti Téténum og vonuðust til þess að stríðið myndi auka vinsældir Jeltsíns, sem var á þessum tíma orðinn óvinsæll vegna slæms efnahagsástands. Raunin reyndist hins vegar allt önnur. Téténar litu á stríðið sem varnarstríð í þágu föðurlandsins og veittu Rússum harða mótspyrnu. Rússar höfðu aftur á móti flestir lítinn áhuga á stríðinu og sáu ekki ástæðu fyrir því að senda hermenn til að deyja í útnára eins og Téténíu.[11]

Rússneski herinn réðist inn í Grozníj á gamlársdag 1994 og varpaði fjölda sprengja á borgina. Eftir tveggja mánaða bardaga neyddust téténskar hersveitir til að hörfa frá Grozníj í lok febrúar 1995, en þá hafði borgin orðið fyrir verulegum skemmdum auk þess sem bæði þúsundir rússneskra hermanna og almennra téténskra borgara höfðu látið lífið.[11]

Þrátt fyrir hernám Grozníj héldu Téténar áfram mótspyrnu gegn rússneska hernum á næstu árum. Rússar héldu áfram sprengjuherferðum gegn téténsku landsbyggðinni og drápu fjölda óbreyttra borgara. Þann 7. apríl 1995 lögðu rússneskir hermenn þorpið Samashkí í rúst og drápu um 300 manns, meðal annars með eldvörpum.[11] Mannfallið í Téténíu og fréttir af grimmd rússneska hersins höfðu neikvæð áhrif á vinsældir Jeltsíns heima fyrir og spilltu fyrirætlunum hans um nánari sambönd við vestrænar stofnanir eins og Atlantshafsbandalagið og Evrópuráðið.[12] Stríðið varð það óvinsælt hjá rússneskri alþýðu að Jeltsín gerði það að kosningaloforði í forsetakosningum Rússlands árið 1996 að semja um frið í Téténíu.[13]

Dzhokhar Dúdajev var ráðinn af dögum í loftskeytaárás rússneska hersins þann 21. apríl 1996 en Téténar hétu því að halda baráttunni áfram.[14] Nýr leiðtogi Téténa til bráðabirgða varð Zelmíkhan Jandarbíjev.[15]

Í ágúst 1996 hófu Rússar, undir umsjá Aleksandrs Lebed öryggismálastjóra, viðræður við Téténa um vopnahlé.[16] Lebed tókst að semja um vopnahlésskilmála í ágústlok sem fólu í sér að Téténía og Rússland útilokuðu fleiri valdbeitingu, en ekkert var formlega útkljáð um sjálfstæði Téténíu. Í maí 1997 fundaði Jeltsín með Aslan Maskhadov, nýjum forseta Téténíu, í Kreml og undirritaði með honum formlega friðarsamninga.[17] Lok fyrra Téténíustríðsins eru miðuð við þessa friðarskilmála en friður varði ekki lengi í Téténíu og Rússar hófu aðra styrjöld um landsvæðið aðeins um þremur árum síðar.[10]

Tilvísanir

[breyta | breyta frumkóða]
  1. (rússneska) ВС ЧР Ичкерия. 1994—2000 гг.
  2. Кривошеев, Г. Ф., ritstjóri (2001). Россия и СССР в войнах XX века. Потери вооруженных сил (rússneska). Олма-Пресс. bls. 581. ISBN 5-224-01515-4.
  3. Кривошеев, Г. Ф., ritstjóri (2001). Россия и СССР в войнах XX века. Потери вооруженных сил (rússneska). Олма-Пресс. bls. 582. ISBN 5-224-01515-4.
  4. 4,0 4,1 „The War in Chechnya“. MN-Files. Mosnews.com. 7. febrúar 2007. Afrit af upprunalegu geymt þann 2. mars 2008.
  5. 5,0 5,1 Saradzhyan, Simon (9. mars 2005). „Army Learned Few Lessons From Chechnya“. Moscow Times.
  6. Cherkasov, Alexander. „Book of Numbers, Book of Losses, Book of the Final Judgment“. Polit.ru. Afrit af upprunalegu geymt þann 2 janúar 2016. Sótt 2. janúar 2016.
  7. „Human Rights Violations in Chechnya“. The New York Times. Afrit af upprunalegu geymt þann 28. desember 2002. Sótt 23. nóvember 2013.
  8. 120 í Budjonnovsk og 41 í gíslatöku í Pervomajskoe
  9. First Chechnya War – 1994–1996 GlobalSecurity.org
  10. 10,0 10,1 10,2 10,3 10,4 „Hvernig og hvers vegna hófst stríðið milli Tsjetsjena og Rússa?“. Vísindavefurinn.
  11. 11,0 11,1 11,2 Vera Illugadóttir (7. apríl 2017). „Í ljósi sögunnar - Téténía“. RÚV. Sótt 31. mars 2022.
  12. „Rússar egna gildrur fyrir fjallabúa“. Tíminn. 7. febrúar 1995. bls. 7.
  13. Elías Snæland Jónsson (28. ágúst 1996). „Samninga um Tsjetsjeníu“. Dagblaðið Vísir. bls. 14.
  14. Arnór Hannibalsson (24. apríl 1996). „Merkið stendur þó foringinn falli“. Alþýðublaðið. bls. 1.
  15. „Myrti rússneski herinn Dúdajev í hefndarskyni?“. Morgunblaðið. 25. apríl 1996. bls. 18.
  16. Magnús Torfi Ólafsson (17. ágúst 1996). „Lebed lætur sverfa til stáls í Kreml“. Dagblaðið Vísir. bls. 18.
  17. „Jeltsín og Maskhadov undirrita friðarsamning“. Morgunblaðið. 13. maí 1997. bls. 25.