Furia infernalis

Úr Wikipediu, frjálsa alfræðiritinu
Jump to navigation Jump to search

Furia infernalis var dýr sem menn héldu að væri til í norður-Svíþjóð og Finnlandi og einnig á Líflandi á 18. og 19. öld. Dýrið var sagt líkjast maðki eða skordýri. Furia infernalis var hluti af þjóðtrú í áðurnefndum löndum, en það fékk einnig fræðilega meðhöndlun vísindamanna, þar á meðal í ritum eftir þá Daniel Solander og Carl von Linné. Hingað til hafa ekki fundist neinar sannanir um tilvist dýrsins. Dýrið var talið orsaka sjúkdóma, en þeir sjúkdómar hafa verið útskýrðir með öðrum hætti.

Vísindamenn og Furia infernalis[breyta | breyta frumkóða]

Fyrsta fræðilýsing á dýrinu gerði hinn sænski grasafræðingur Daniel Solander í Universal-Lexikon der Gegenwart und Vergangenheit. Eftir það var dýrið nefnt af fleiri vísindamönnum. Carl von Linné nefnir t.d. að hann hafi verið bitinn af dýrinu nálægt Lundi, árið 1728. Hann lýsir síðan dýrinu í Systema naturae, og í þýsku alfræðiriti læknisfræðinnar, sem út kom árið 1830, er von Linné nefndur sem höfundur fræðiheitisins, Furia infernalis.

Lýsing á dýrinu[breyta | breyta frumkóða]

Í öllum þessum ritum er dýrinu lýst sem smásæju skordýri eða maðki og dýrið sagt „aðeins nokkrar línur“ að lengd og ekki þykkra en hár. Dýrið átti að vera alsett nöbbum eða göddum með agnhaldslíkum broddum. Dýrið var sagt lifa í trjám eða blautlendi og flutti sig um set með vindinum. Ritin nefna einnig að menn eða önnur stór dýr geta átt það á hættu að dýrið bíti eða þrengi sig inn í líkamann gegnum húðina og vöðvana. Í fyrstu var bitið sagt vera lítill rauður blettur á húðinni, en síðan tæki sig upp kolbrandur (holdfúi), hálseymsli og vöðvaviprur og meðvitundarleysi, en síðan hlyti fórnarlambið sársaukafullan dauðdaga. Carl von Línne mælir með að hinn sýkti líkamspartur sé skorinn af, en samkvæmt sænskri náttúrulækningu átti að leggja draflaost á bitsárið þannig að dýrið gæti flutt sig yfir í ostinn.

Sjúkdómsgreiningar[breyta | breyta frumkóða]

Um leið og þjóðtrúin og fræðin héldu fram tilvist þess voru til vísindamenn sem voru efins. Johann Friedrich Blumenbach og Karl Asmund Rudolphi lögðu lítinn trúnað á tilvist Furia infernalis. Þeir útskýrðu sjúkdómseinkennin, sem talin voru orsök af biti dýrsins, sem þrota af völdum skordýrabits, blóðsýkingu eða staðbundna líkamssvörun við smitsjúkdómum eins og bólusótt eða miltisbrandi

Heimildir[breyta | breyta frumkóða]

  • Sænska Wikipedia