Friðarpáskar

Úr Wikipediu, frjálsa alfræðiritinu

Friðarpáskar voru fjölþætt menningardagskrá dagana 14. - 23. apríl árið 1984 í Norræna húsinu. Fjölmörg félagasamtök og friðarhópar stóðu að dagskránni, sem lauk á því að Steingrími Hermannssyni forsætisráðherra var afhent sameiginleg yfirlýsing sem undirrituð var af gestum samkomunnar.

Aðstandendur[breyta | breyta frumkóða]

Þorláksmessugangan 1983 var haldin í nafni fjölda friðarsamtaka og -hópa, en áður höfðu Samtök herstöðvaandstæðinga staðið ein að þeirri aðgerð. Um þessar mundir var mikil gróska í friðarbaráttunni, sem tengdist kjarnorkukapphlaupi risaveldanna sem þá var í algleymingi. Stofnaðir voru friðarhópar einstakra starfstétta eða innan hagsmunasamtaka að erlendri fyrirmynd.

Samstarfið um Þorláksmessugönguna varð kveikjan að því að ákveðið var að efna til margra daga dagskrár með málefnafundum og menningarviðburðum. Sextán hópar og hreyfingar stóðu að henni.[1] Þau voru:

 1. Friðarhreyfing íslenskra listamanna
 2. Læknar gegn kjarnorkuvá
 3. Samtök íslenskra eðlisfræðinga gegn kjarnorkuvá
 4. Friðarhreyfing íslenskra kvenna
 5. Friðarhópur fóstra
 6. Friðarhópur félags einstæðra foreldra
 7. Samtök um friðaruppeldi
 8. Hin óháða friðarhreyfing framhaldsskólanema
 9. Friðarhreyfing framhaldsskólanema
 10. Samtök herstöðvaandstæðinga
 11. Varðberg
 12. MFÍK
 13. Íslenska friðarnefndin
 14. Friðarhópur fólks í uppeldisstéttum
 15. Æskulýðsfylking Alþýðubandalagsins
 16. Friðarnefnd kirkjunnar

Deilur um þátttöku Varðbergs[breyta | breyta frumkóða]

Það vakti athygli að Samtök herstöðvaandstæðinga og Varðberg væru bæði meðal aðstandenda Friðarpáska, enda litið á félögin sem erkifjendur í deilunum um Atlantshafsbandalagið og herstöðina á Keflavíkurflugvelli. Umsókn Varðbergs um að fá að taka þátt olli talsverðum titringi. Málamiðlunin varð sú að öllum félögunum sem að dagskránni stóðu var gert að samþykkja og undirrita yfirlýsingu þar sem stjórnvöld voru hvött til andstöðu gegn kjarnorkuvígbúnaði og vopnakapphlaupi.

Már Guðmundsson ritaði grein í Neista, málgagn Æskulýðsfylkingarinnar, þar sem hann gagnrýndi þá ákvörðun Samtaka herstöðvaandstæðinga að taka þátt í samfylkingu með Varðbergi og taldi til marks um að málstaður herstöðvaandstæðinga hefði útvatnast með of almennri áherslu á almenna friðarstefnu. Tók hann þó fram að niðurstaðan hefði eflaust ekki verið léttbær og að fulltrúi Samtaka herstöðvaandstæðinga hefði reynt að haga orðalagi sameiginlegu yfirlýsingarinnar með þeim hætti að Varðbergi yrði ómögulegt að vera með, en að fulltrúar Þjóðkirkjunnar hafi í raun barið þátttöku Varðbergs í gegn.[2]

Dagskrá[breyta | breyta frumkóða]

Friðarpáskar voru settir á laugardegi með göngu frá Lækjartorgi í Norræna húsið. Þar stóð uppi myndlistarsýning og var efnt til ýmis konar menningarviðburða næstu dagana. Má þar nefna uppsetningu á leikverkinu Ég læt sem ég sofi, sem byggði á vinsælli breskri myndasögu When the Wind Blows eftir Raymond Briggs, sem fjallaði um örlög eldra fólks í kjarnorkustyrjöld.[3]

Mikil áhersla var lögð á barnamenningu í dagskránni og voru skipulagðar fjölmargar listasmiðjur barna, auk þess sem haldnir voru fyrirlestrar um friðaruppeldi. Haldinn var fundur um kjarnorkuvopnamál þar sem fulltrúar Samtaka herstöðvaandstæðinga og Varðbergs deildu hart. Þá stóðu læknar og eðlisfræðingar fyrir kynningu á afleiðingum kjarnorkusprenginga fyrir fólk og umhverfi.[4]

Gestir Friðarpáska rituðu nafn sitt undir hina sameiginlegu kröfugerð samtakanna sextán og var forsætisráðherra afhent hún á lokadegi dagskrárinnar. Söfnuðust um 3.000 undirskriftir.

Friðarpáskar á Húsavík[breyta | breyta frumkóða]

Friðarhópur Húsvíkinga efndi til Friðarpáska í félagsheimili bæjarins. Þar var fjallað um baráttu breskra baráttukvenna í Greenham Common, auk annarra listviðburða og ræðuhalda.[5]

Tilvísanir[breyta | breyta frumkóða]

 1. „Morgunblaðið 25. apríl 1984“.
 2. „Neisti 3. tbl. 1984“.
 3. „Þjóðviljinn 14. apríl 1984“.
 4. „Þjóðviljinn 19. apríl 1984“.
 5. „Morgunblaðið 19. apríl 1984“.