Fara í innihald

Samtök um friðaruppeldi

Úr Wikipediu, frjálsa alfræðiritinu

Samtök um friðaruppeldi voru félagasamtök sem stofnuð voru í Norræna húsinu þann 28. janúar árið 1984. Markmið þeirra var að vinna að heimsfriði og afvopnun.

Stofnun og starfsemi

[breyta | breyta frumkóða]

Hugmyndafræði samtakanna var sótt til Noregs og voru norskir fyrirlesarar og listamenn í aðalhlutverki á stofnfundinum. Um 200 manns sóttu fundinn og var þriggja manna ársnefnd kjörin. Hana skipuðu Sólveig Georgsdóttir, Nína Baldvinsdóttir og Gunnar Karlsson.[1]

Samtökin voru meðal aðstandenda Friðarpáska í apríl 1984 og Þorláksmessugöngu þetta sama ár. Í janúar 1986 héldu samtökin ársfund sinn í Árnagarði.[2] Virðast þau þó hafa lognast útaf fljótlega í kjölfarið.

Gagnrýni í Staksteinum

[breyta | breyta frumkóða]

Morgunblaðið flutti ekki fréttir af stofnun samtakanna, en gerði þau að umtalsefni í dálknum Staksteinum skömmu síðar. Sagði þar að Samtök herstöðvaandstæðinga, Alþýðubandalagið og fleiri öfl ynnu að því að Ísland væri óvarið. Málflutningur þessi hefði náð eyrum margra innan prestastéttarinnar. Nú væru hins vegar komin fram samtök „sem eiga að koma kenningum af þessu tagi á framfæri í uppeldisstofnunum, það er að segja á dagvistarheimilum og í skólum þar sem börn standa berskjölduð frammi fyrir kennununum. Þessi innræting sem nú á að fara að beita í skólum með skipulegum hætti er kennd við friðaruppeldi“.[3]

Gerði pistlahöfundur Morgunblaðsins mikið úr stöðu Gunnars Karlssonar innan samtakanna en um þessar mundir stóð hið svokallaða söguskammdegi sem hæst. Í því var hart deilt um sögukennslu í grunnskólum og kennslubækur Gunnars fyrir það skólastig.

Tilvísanir

[breyta | breyta frumkóða]
  1. „Þjóðviljinn 2. febrúar 1984“.
  2. „Þjóðviljinn 25. janúar 1986“.
  3. „Morgunblðið 4. febrúar 1984“.