Már Guðmundsson
Már Guðmundsson (fæddur 21. júní 1954) er íslenskur hagfræðingur og seðlabankastjóri Seðlabanka Íslands frá 2009-2019. Hann var aðstoðarframkvæmdastjóri peningamála- og hagfræðisviðs Alþjóðagreiðslubankans í Basel í Sviss.
Nám og störf[breyta | breyta frumkóða]
Már brautskráðist með BA-gráðu í hagfræði frá Essex-háskóla í Essex á Englandi, en hafði auk þess stundað nám í hagfræði og stærðfræði við Gautarborgarháskóla í Gautaborg í Svíþjóð. Hann lauk M.Phil.-prófi í hagfræði frá Cambridge-háskóla í Cambridge á Englandi og stundaði þar einnig doktorsnám.
Már starfaði við hagfræðideild Seðlabanka Íslands á árunum 1980 til 1987, var forstöðumaður hagfræðisviðs bankans á árunum 1991 til 1994 og aðalhagfræðingur bankans frá 1994 til 2004. Hann var efnahagsráðgjafi fjármálaráðherra 1988 til 1989.
Már var einn af framámönnum í vinstrisamtökunum Fylking byltingarsinnaðra kommúnista frá miðjum áttunda áratugnum fram til 1984[1] og einnig ritstjóri Neista tímarits samtakanna á árunum 1984 og 1985, en þá var blaðið lagt niður.