Fara í innihald

Frauenfeld

Úr Wikipediu, frjálsa alfræðiritinu
Frauenfeld
Skjaldarmerki Frauenfeld
Staðsetning Frauenfeld
KantónaThurgau
Flatarmál
 • Samtals27,4 km2
Hæð yfir sjávarmáli
417 m
Mannfjöldi
 • Samtals22.931
Vefsíðawww.frauenfeld.ch

Frauenfeld er höfuðborg svissnesku kantónunnar Thurgau. Hún er jafnframt stærsta borg kantónunnar með tæpa 23 þúsund íbúa.

Frauenfeld liggur við ána Murg vestarlega í kantónunni, rétt austan við landamærin að kantónunni Zürich. Næstu borgir eru Zürich til suðvesturs (25 km), Konstanz í Þýskalandi til norðausturs (20 km) og St. Gallen til austurs (25 km).

Skjaldarmerki

[breyta | breyta frumkóða]

Skjaldarmerki Frauenfeld sýnir rautt ljón sem rauðklædd kona teymir. Grunnurinn er hvítur. Ljónið er tákn Kyburg-ættarinnar en konan er María mey. Það að hún teymir ljónir merkir að örlög borgarinnar eru í hennar höndum.

Frauenfeld er nefnd eftir Maríu mey. Sléttan þar sem bærinn var reistur var kölluð Unserer lieben Frauen Feld (láglendi okkar góðu ungfrúar). Úr síðustu tveimur orðunum myndaðist heiti borgarinnar.

Söguágrip

[breyta | breyta frumkóða]
Schloss Frauenfeld í miðborginni

Erfitt er að áætla hvenær Frauenfeld myndaðist en bærinn kom fyrst við skjöl 1246. Þá var þar samnefnt kastalavirki. Í skjali frá 1286 kemur fram að Frauenfeld sé komin með borgarréttindi í landi Habsborgara. Það var sú ætt sem réði í borginni næstu aldir. Árið 1531 urðu siðaskiptin í Frauenfeld. Urðu þá kaþólikkar og mótmælendur að deila kirkjunum með sér, þar til ný kirkja mótmælenda var vígð 1645, þremur árum fyrir lok 30 ára stríðsins. Tvisvar sinnum eyddi stórbruni stórum hluta borgarinnar, 1771 og 1788, og eyðilögðust í þeim flest eldri húsin. Núverandi ásýnd miðborgarinnar skapaðist því við lok 18. aldar. 1798 hertóku Frakkar borgina, sem við það var innlimuð í helvetíska lýðveldið. Frauenfeld varð höfuðborg kantónunnar Thurgau við endurskipulagningu lýðveldisins 1803 en þingið hittist til skiptis í Frauenfeld og í Weinfelden (sem er fimmta stærsta borgin í Thurgau). Frekar lítill iðnaður myndaðist í Frauenfeld en borgin fékk þó járnbrautartengingu 1855. Það var ekki fyrr en um miðja 20. öld að iðnaður hélt af alvöru innreið sína í borginni en hann er aðalatvinnuvegurinn í dag. Þrír stærstu atvinnurekendur í Frauenfeld eru iðnfyrirtæki en þar starfa samanlagt rúmlega 5.000 manns. Nákvæmlega fjórðungur íbúanna í dag eru af erlendu bergi brotnir.

Viðburðir

[breyta | breyta frumkóða]

Openair Frauenfeld er viðamesta hátíð borgarinnar. Hér er um útitónleika að ræða, þeir stærstu í þýskumælandi Sviss og jafnframt stærsta Hip-Hop útihátið Evrópu. Hún var fyrst haldin 1985 og hefur verið haldin árlega síðan. Á síðustu árum sækja um 150 þúsund manns hátíðina heim. Af þekktum tónlistarmönnum og hljómsveitum sem þar hafa troðið upp má nefna Rolling Stones, Elton John, The Kelly Family, David Bowie, Deep Purple, Joe Cocker, Rammstein, Eminem, ásamt tugum annarra.

Frægustu börn borgarinnar

[breyta | breyta frumkóða]

Byggingar og kennileiti

[breyta | breyta frumkóða]
Frauenfeld kastalavirkið

Schloss Frauenfeld er gamalt kastalavirki í borginni. Elsti hluti hans er frá síðari hluta 13. aldar og stóð þá innan við borgarmúrana, en aðskilinn frá borginni með síkjum. Þarna sátu fulltrúar Habsborgara sem stjórnuðu borginni út miðaldirnar. Eftir að kantónan Thurgau var mynduð varð kastalinn að aðalskrifstofubyggingu kantónunnar. Sökum niðurníslu átti að rífa kastalann, en Johann Wegelin bjargaði honum með því að kaupa bygginguna. Barnabarn hans gaf kantónunni kastalann aftur og síðan 1960 er í honum sögusafn.