Elísabet drottningarmóðir
| ||||
Elísabet
| ||||
Ríkisár | 11. desember 1936 – 6. febrúar 1952 | |||
Skírnarnafn | Elizabeth Angela Marguerite Bowes-Lyon | |||
Fædd | 4. ágúst 1900 | |||
Hitchin eða London, Englandi | ||||
Dáin | 30. mars 2002 (101 árs) | |||
Windsor, Berkshire, Englandi | ||||
Gröf | Kapella heilags Georgs, Windsor-höll | |||
Konungsfjölskyldan | ||||
Faðir | Claude Bowes-Lyon, jarl af Strathmore og Kinghorne | |||
Móðir | Cecilia Cavendish-Bentinck | |||
Konungur | Georg 6. Bretlandskonungur (g. 1923; d. 1952) | |||
Börn | Elísabet 2. drottning (f. 1926) Margrét Rós (f. 1930), greifaynja af Snowdon |
Elizabeth Angela Marguerite Bowes-Lyon (4. ágúst 1900 – 30. mars 2002) var eiginkona Georgs 6. Bretlandskonungs og móðir Elísabetar 2. Bretadrottningar og Margrétar greifynju af Snowdon. Hún var drottning Bretlands á ríkisárum eiginmanns síns frá 1936 þar til hann lést árið 1952. Eftir dauða Georgs var Elísabet jafnan kölluð Elísabet drottningarmóðir (enska: The Queen Mother) til að forðast rugling við dóttur sína, Elísabetu drottningu.
Elísabet fæddist til breskrar aðalsfjölskyldu og varð þekkt árið 1923 þegar hún giftist Georgi hertoga af York, öðrum syni Georgs 5. konungs og Maríu drottningar. Í augum alþýðunnar urðu Georg og Elísabet fyrirmynd hefðbundinna hugmynda um fjölskyldugildi og þjónustu í þágu ríkisins. Elísabet tók þátt í fjölda opinberra athafna og varð kunn fyrir glaðlegt yfirbragð sitt.
Árið 1936 varð eiginmaður Elísabetar óvænt konungur Bretlands þegar eldri bróðir hans, Játvarður 8., afsalaði sér krúnunni til að geta kvænst fráskilinni Bandaríkjakonu að nafni Wallis Simpson. Elísabet varð þannig drottning.[1] Elísabet fylgdi eiginmanni sínum í ýmsar opinberar heimsóknir til Frakklands og Norður-Ameríku í aðdraganda seinni heimsstyrjaldarinnar. Á tíma styrjaldarinnar átti áræðni Elísabetar þátt í að stappa stálinu í bresku alþýðuna. Sagt er að Adolf Hitler hafi kallað Elísabetu „hættulegustu konu í Evrópu“ vegna þess hve vel henni tókst að uppörva bresku þjóðina á erfiðustu köflum styrjaldarinnar.[1] Eftir stríðið hrakaði heilsu Georgs ört og hann lést árið 1952. Elísabet varð þar með ekkja þegar hún var 51 árs og dóttir hennar, þá 25 ára, varð ný drottning.
Eftir að María, móðir Georgs, lést árið 1953 var gjarnan litið á Elísabetu sem ættmóður bresku konungsfjölskyldunnar. Á síðari æviárum sínum var Elísabet drottningarmóðir einn vinsælasti meðlimur konungsfjölskyldunnar og hélt áfram að njóta vinsælda jafnvel á meðan vinsældir ættingja hennar biðu hnekki vegna ýmissa hneykslismála á tíunda áratugnum.[1] Elísabet var áfram virk í breskum þjóðfélagsmálum þar til aðeins fáeinum vikum áður en hún lést árið 2002. Hún var þá 101 árs og lést aðeins sjö vikum á eftir yngri dóttur sinni, Margréti.[2]
Tilvísanir
[breyta | breyta frumkóða]- ↑ Stökkva upp til: 1,0 1,1 1,2 „Elísabet 100 ára“. Vikan. 8. ágúst 2000. Sótt 9. apríl 2019.
- ↑ „„Amma þjóðarinnar" syrgð í Bretlandi“. Morgunblaðið. 2. apríl 2002. Sótt 9. apríl 2019.