Elísabet Baldvinsdóttir
Elísabet Baldvinsdóttir (f. 1885, d. 1958) var verslunarkona og jafnaðarmaður. Hún var búsett í Bretlandi á árum fyrri heimsstyrjaldarinnar og starfaði þar meðal annars sem bílstjóri.
Ævi og störf
[breyta | breyta frumkóða]Elísabet fæddist og ólst upp á Þorgerðarstöðum í Fljótsdal, dóttir hjónanna Baldvins Benediktssonar bónda og Rósu Jónsdóttur. Árið 1913 hélt hún til Edinborgar í Skotlandi til að ráða sig í vinnu og læra ensku, vegna stríðsins dróst sú dvöl á langinn eða allt til ársins 1919.
Við heimkomuna settist Elísabet að á Seyðisfirði og bjó þar alla tíð, lengst af sem kaupmaður í versluninni Breiðabliki. Hún var virk í félagsmálum, bæði á vettvangi kvenréttindahreyfingarinnar og hreyfingar jafnaðarmanna. Hún sat m.a. í stjórn verkakvennafélagsins á Seyðisfirði og var á framboðslista Alþýðuflokksmanna við bæjarstjórnarkosningar. [1]
Árið 1922 fékk Elísabet skráð ættarnafnið Baldvins.[2] Óljóst er þó hvort eða hversu lengi hún notaði það.
Bretlandsdvöl
[breyta | breyta frumkóða]Árið 1922 birti Elísabet grein í Hlín, tímariti Sambands norðlenskra kvenna sem ritstýrt var af Halldóru Bjarnadóttur. Greinin fjallaði um dvölina í Bretlandi á árunum 1913-19. [3] Frásögnin vakti mikla athygli og hefur margoft verið rifjuð upp síðar. Árið 1937 flutti Elísabet fyrirlestra um sama efni í Alþýðuhúsinu í Reykjavík. [4] Rúmum aldarfjórðungi síðar var frásögn Elísabetar lesin í Ríkisútvarpinu og vakti þá mikla athygli. [5] Þá var greinin frá 1922 prentuð óbreytt í Lesbók Morgunblaðsins árið 1996. [6]
Í frásögn Elísabetar kemur fram að hún hafi flust til Edinborgar árið 1913 og fengið starf á skrifstofu. Samkvæmt öðrum heimildum rak hún þó ásamt samstarfskonu greiðasölu í Leith sumarið 1914, sem naut vinsælda íslenskra ferðalanga. [7][8] Þegar heimsstyrjöldin skall á reyndu ýmsir í Íslendingasamfélaginu í Edinborg að leita leiða til að komast aftur til Íslands. Elísabet kaus hins vegar að vera um kjurrt.
Vorið 1915 réðst hún til starfa við skotfæraverksmiðju í Birmingham, þar sem hún vann við að framleiða sprengikúlur og skothylki við hinar verstu aðstæður. Þrátt fyrir langan vinnudag, fann hún tíma til að stunda nám við ökuskóla í borginni og sumarið 1916 var hún ráðin bílstjóri hjá vopnaverksmiðjunni þar sem hún starfaði. Þar ók hún jöfnum höndum sem einkabílstjóri á fólksbílum, vörubílstjóri við skotfæraflutninga eða sjúkrabílsstjóri, sem sinnti þá jafnframt starfi sjúkraflutningamanns. Líklegt er að Elísabet hafi þar með orðið fyrsta íslenska konan til að taka bílpróf, sem og fyrsta íslenska konan til að starfa sem atvinnubílstjóri.