Fara í innihald

Sjúkraflutningamaður

Úr Wikipediu, frjálsa alfræðiritinu
Sjúkraflutningamenn frá Australian Capital Territory Ambulance Service.

Sjúkraflutningamaður er heilbrigðisstarfsmaður sem, á Íslandi, starfar á eigin faglegri ábyrgð við sjúkraflutninga hjá viðurkenndum rekstraraðila.

Menntun sjúkraflutningamanna skiptist í nokkur stig. Hér verður aðeins rætt um þau stig sem eru í notkun hér á landi, en þau eru byggð á bandarískum stöðlum. Á Íslandi sér Sjúkraflutningaskólinn um menntun sjúkraflutningamanna.

  • Grunnnám sjúkraflutningamanna. Grunnnám sjúkraflutninga (Emergency Medical Technician - Basic, EMT-B) er um 260 klst. námskeið. Í þessu grunnnámi er verðandi sjúkraflutningamönnum kennd líffæra- og lífeðlisfræði, grunnlyfjafræði, fæðingarhjálp, öndunaraðstoð, grunnvirkni hjartans og notkun hálfsjálfvirkra hjartastuðtækja og fleira, auk réttra handbragða við flutning sjúklinga, björgun úr bílflökum og slíkt. Nemendur verða auk þessa að ljúka ákveðið mörgum tímum í starfskynningu á neyðarbíl, en sá þáttur kennslunnar fer fram hjá Slökkviliði Höfuðborgarsvæðisins og/eða Slökkviliðinu á Akureyri.
  • Neyðarbílsmaður (Emergency Medical Technician - Intermediate, EMT-I). Að loknum 36 mánuðum í starfi sem almennur sjúkraflutningamaður fara flestir á námskeið í neyðarflutningum, en það telur um 320 klst. Hér er ætlast til þess að nemendur kynni sér helstu lyf sem notuð eru við bráðalækningar, sérstaklega í hjartavandamálum. Auk lyfjafræðinnar er farið dýpra í öll atriðin úr grunnnáminu, sérhæfð öndunaraðstoð kennd, uppsetning á æðaleggjum, taka og túlkun hjartalínurita o.m.fl. Eftir þetta nám hefst strangt verknám á bráðamóttöku og á neyðarbíl, þar sem nemandinn vinnur undir ákveðnum leiðbeinanda, sem tryggir að nemandinn uppfylli nákvæmar kröfur um æfingu og þjálfun á alls konar atriðum í bráðaþjónustu.
  • Bráðatæknir (Emergency Medical Technician - Paramedic, EMT-P). Þegar þessar línur eru skrifaðar hefur ekki enn verið boðið upp á þetta nám hér á landi. Hins vegar hafa Íslendingar gjarnan sótt það til útlanda, aðallega til Bandaríkjanna. Hér er um að ræða um ársnám, en eftir það er sjúkraflutningamaðurinn fær um að framkvæma mjög flóknar aðgerðir á borð við barkaþræðingar um nef, flóknar rafvendingar á hjarta og lyfjagjöf með mun fleiri lyfjum en almennir sjúkraflutningamenn.

Auk þessara stiga sækja sjúkraflutningamenn mörg sérhæfð námskeið á borð við sjúkraflutninga í óbyggðum (Wilderness EMT), sérnám í bráðaþjónustu við börn (Pediatric Education for Pre-hospital Professionals, PEPP) o.m.fl.

Stéttarfélag sjúkraflutningamanna er Landssamband Slökkviliðs- og sjúkraflutningamanna.

Hjá "stóru" sjúkraflutningaaðilunum, Slökkviliði höfuðborgarsvæðisins og Slökkviliði Akureyrar, eru flestir sjúkrabílar mannaðir einum neyðarbílsmanni/bráðatækni og einum með a.m.k. grunnmenntun sjúkraflutningamanna. Annars staðar er þetta mismunandi, en mikil áhersla hefur verið lögð á menntun sjúkraflutningamanna á síðustu árum, og mun sú vinna væntanlega halda áfram. Víða eru læknar með í neyðarflutningum.