Droupadi Murmu

Úr Wikipediu, frjálsa alfræðiritinu
Droupadi Murmu
Droupadi Murmu árið 2022.
Forseti Indlands
Núverandi
Tók við embætti
25. júlí 2022
ForsætisráðherraNarendra Modi
VaraforsetiVenkaiah Naidu
Jagdeep Dhankhar
ForveriRam Nath Kovind
Persónulegar upplýsingar
Fædd20. júní 1958 (1958-06-20) (65 ára)
Uparbeda Mayurbhanj, Orissa, Indlandi
StjórnmálaflokkurBharatiya Janata-flokkurinn
MakiShyam Chandra Murmu (g. 1976; d. 2014)
Börn3 (2 látin)
HáskóliRama Devi-kvennaháskólinn

Droupadi Murmu (f. 20. júní 1958) er indversk stjórnmálakona sem er núverandi forseti Indlands. Hún er meðlimur í Bharatiya Janata-flokknum.[1] Hún er fyrsta manneskjan úr ættbálkasamfélagi Indlands sem nær kjöri til embættis forseta landins. Murmu var áður fylkisstjóri Jharkhand frá 2015 til 2021 og gegndi ýmsum embættum í ríkisstjórn Odisha frá 2000 til 2004.[2]

Áður en Murmu hóf feril í stjórnmálum var hún aðstoðarmaður í áveitu- og orkudeild ríkisins frá 1979 til 1983 og vann síðan sem kennari við Sri Aurobindo-menntunarmiðstöðina í Rairangpur til ársins 1997. Murmu var kjörin forseti Indlands í júlí árið 2022. Hún er fyrsti forseti landsins sem fæddist eftir sjálfstæði Indlands, fyrsti forsetinn úr ættbálkasamfélaginu og annar kvenforseti landsins.[2]

Einkahagir[breyta | breyta frumkóða]

Droupadi Murmu er komin af fjölskyldu úr Santal-þjóðflokknum og fæddist þann 20. júní 1958 í Rairangpur í Mayurbhanj-sýslunni í Odisha.[3] Faðir hennar og afi voru hefðbundnir leiðtogar í þorpsráðinu. Murmu er útskrifuð úr listnámi við Rama Devi-kvennaháskólann.[4]

Murmu giftist bankamanninum Shyam Charan Murmu, sem lést árið 2014. Hjónin eignuðust tvo syni sem létust báðir á undan Murmu, og dótturina Itishri Murmu. Á sjö ára tímabili, frá 2009 til 2015, missti Murmu eiginmann sinn, tvo syni, móður sína og bróður.[5][6] Hún er meðlimur í andlegu hreyfingunni Brahma Kumaris.[7]

Starfsferill[breyta | breyta frumkóða]

Droupadi Murmu vann sem varaaðstoðarmaður í áveitustofnun fylkisstjórnar Odisha frá 1979 til 1983. Hún vann síðan sem kennari við Sri Aurobindo-grunnmenntunarmiðstöðina í Rairangpur og kenndi þar hindí, oríja, stærðfræði og landafræði.[8][4]

Stjórnmálaferill[breyta | breyta frumkóða]

Droupadi Murmu gekk í Bharatiya Janata-flokkinn (BJP) í Rairangpur. Árið 1997 var hún kjörin sem fulltrúi í sveitarstjórn (Nagar Panchayat) Rairangpur.[8][4]

Þegar BJP myndaði samsteypustjórn ásamt floknum Biju Janata Dal (BJD) í Odisha var Murmu gerð fylkisráðherra. Hún fór með stjórn verslunar- og samgöngumála frá 6. mars 2000 til 6. ágúst 2002 og útgerðar- og dýramála frá 6. ágúst 2002 til 16. maí 2004.[4]

Árið 2009 tapaði Murmu kjöri á neðri deild indverska þingsins (Lok Sabha) í Mayurbhanj-kjördæminu þar sem flosnað hafði upp úr bandalagi BJD og BJP.[4]

Fylkisstjóri Jharkhand[breyta | breyta frumkóða]

Murmu ásamt M. Venkaiah Naidu, varaforseta Indlands, í Nýju Delí árið 2017.

Murmu sór embættiseið sem fylkisstjóri Jharkhand þann 18. maí árið 2015 og varð þá fyrst kvenna til að gegna því embætti.[9] Bharatiya Janata-flokkurinn fór með stjórn í Jharkhand mestallan þann tíma sem Murmu sat í fylkisstjóraembætti.[10]

Ratan Tirkey, aðgerðasinni og fyrrum stjórnmálamaður í BJP, sagði um Murmu að hún hefði ekki gert nóg til að tryggja að réttur ættbálkasamfélaganna í Jharkand til sjálfsstjórnar væri virtur. Þessi réttindi eru lögfest samkvæmt fimmta áætlanadálki stjórnarskrár Indlands og löggjöf frá árinu 1996 sem útvíkkaði sjálfsstjórnarsvæði ættbálkanna. Tirkey sagði um Murmu: „Þrátt fyrir margar beiðnir beitti þáverandi fylkisstjóri aldrei valdi sínu til að framfylgja skilmálum fimmta áætlanadálksins og löggjafarinnar frá 1996, hvorki í orði kveðnu né samkvæmt efni þeirra.“[10]

Sex ára kjörtímabil Murmu sem fylkisstjóra Jharkhand hófst í maí 2015 og lauk í júlí 2021.[4]

Forsetaframboð 2022[breyta | breyta frumkóða]

Í júní árið 2022 útnefndi BJP Murmu sem frambjóðanda kosningabandalags þeirra, Þjóðarlýðræðisbandalagsins, til embættis forseta Indlands í forsetakosningum sem fóru fram næsta mánuð. Yashwant Sinha var útnefndur forsetaframbjóðandi stjórnarandstöðuflokkanna.[11] Murmu heimsótti ýmis fylki Indlands í kosningaherferð sinni til að vinna sér stuðning. Nokkrir stjórnarandstöðuflokkar, þar á meðal BJD, JMM, BSP, SS og fleiri lýstu yfir stuðning við framboð hennar áður en kosningarnar fóru fram.[12][13] Þann 21. júlí 2022 tryggði Murmu sér skýran meirihluta í kosningunum og vann sigur gegn Yashwant Sinha með 676.803 kjörmannaatkvæðum (64,03% heildaratkvæðanna) í 21 af 28 fylkjum Indlands (þar á meðal alríkishéraðinu Puducherry). Hún var þannig kjörin fimmtándi forseti Indlands.[14]

Murmu tók við forsetaembættinu þann 25. júlí 2022. Hún verður svarin í embætti í þinghúsinu í Nýju Delí af forseta hæstaréttar Indlands, NV Ramana.[15] Murmu er fyrsta manneskjan frá Odisha og önnur konan á eftir Pratibhu Patil til að gegna forsetaembætti Indlands. Hún verður jafnframt fyrsta manneskjan úr indverska ættbálkasamfélaginu til að gegna embættinu.[16][17] Hún er yngsta manneskjan í embættinu og fyrsti forseti landsins sem er fæddur eftir sjálfstæði landsins.[4]

Tilvísanir[breyta | breyta frumkóða]

  1. „Droupadi Murmu, Former Jharkhand Governor, Is BJP's Choice For President“. NDTV.com. Sótt 21. júní 2022.
  2. 2,0 2,1 „Droupadi Murmu: India's Youngest President and First to be Born After Independence“. MSN (Indian English). Sótt 21. júlí 2022.
  3. „Droupadi Murmu may soon be the President of India: Know all about her“. India Today. New Delhi. 15. júní 2017. Sótt 20. júlí 2022.
  4. 4,0 4,1 4,2 4,3 4,4 4,5 4,6 „The Sunday Profile | Droupadi Murmu: Raisina Calling“. The Indian Express (enska). 22. júlí 2022. Sótt 22. júlí 2022.
  5. „Who is Droupadi Murmu?“. The Indian Express (enska). 13. júní 2017. Sótt 22. júní 2022.
  6. „Droupadi Murmu is India's Youngest, First Tribal President“.
  7. „How Droupadi Murmu dealt with personal tragedies“. TheWeek.
  8. 8,0 8,1 „Profile:The importance of being Droupadi Murmu“. The Hindu.
  9. „Droupadi Murmu sworn in as first woman Governor of Jharkhand-I News – IBNLive Mobile“. IBN Live. 18. maí 2015. Sótt 18. maí 2015.
  10. 10,0 10,1 „Tribal activists expect Droupadi Murmu to be assertive as President“. www.telegraphindia.com. 23. júní 2022. Sótt 21. júlí 2022.
  11. „India: BJP backs tribal politician Draupadi Murmu for president against former ally | DW | 18.07.2022“. Deutsche Welle. Sótt 22. júlí 2022.
  12. „Droupadi Murmu to visit Karnataka today, seek support for presidential polls“. Hindustan Times (enska). 10. júlí 2022. Sótt 19. júlí 2022.
  13. „Murmu to visit Kolkata today to seek support“. The Indian Express (enska). 9. júlí 2022. Sótt 19. júlí 2022.
  14. „Presidential Election 2022 Result Live Updates: Droupadi Murmu makes history, becomes India's first tribal woman President“. The Indian Express (enska). 21. júlí 2022. Sótt 21. júlí 2022.
  15. „All About The New President Of India: Draupadi Murmu » Market Place“. Market Place (bandarísk enska). 19. júlí 2022. Afrit af upprunalegu geymt þann 22. júlí 2022. Sótt 22. júlí 2022.
  16. „Will Droupadi Murmu Remain a BJP Electoral Ploy or Help Unseen Adivasis Be Seen at Last?“. The Wire. 22. júlí 2022. Sótt 22. júlí 2022.
  17. „Explained: 5 things to know about Droupadi Murmu, President of India“. The Indian Express (enska). 22. júlí 2022. Sótt 22. júlí 2022.


Fyrirrennari:
Ram Nath Kovind
Forseti Indlands
(25. júlí 2022 –)
Eftirmaður:
Enn í embætti