Pratibha Patil

Úr Wikipediu, frjálsa alfræðiritinu
Pratibha Patil
प्रतिभा पाटील
Pratibha Patil árið 2007.
Forseti Indlands
Í embætti
25. júlí 2007 – 25. júní 2012
ForsætisráðherraManmohan Singh
VaraforsetiMohammad Hamid Ansari
ForveriA. P. J. Abdul Kalam
EftirmaðurPranab Mukherjee
Persónulegar upplýsingar
Fædd19. desember 1934 (1934-12-19) (89 ára)
Nadgaon, Bombay, breska Indlandi (nú Maharashtra, Indlandi)
ÞjóðerniIndversk
StjórnmálaflokkurIndverski þjóðarráðsflokkurinn (INC)
MakiDevisingh Ransingh Shekhawat (g. 1965)
Börn2
HáskóliHáskólinn í Poona
Háskólinn í Bombay
StarfStjórnmálamaður
Vefsíðapratibhapatil.info

Pratibha Devisingh Patil (f. 19. desember 1934) er indversk stjórnmálakona sem var forseti Indlands frá 2007 til 2012.[1][2][3] Hún er fyrsta konan sem hefur gegnt forsetaembættinu.

Æska og menntun[breyta | breyta frumkóða]

Pratibha Patil hlaut grunnmentun í skólanum R. R. Vidyalaya í Jalgaon og útskrifaðist síðan með M.A.-gráðu frá Mooljee Jetha-háskólanum og með lögfræðipróf frá ríkisháskólanum í Mumbai. Á háskólaárum sínum var hún virkur borðtennisspilari og vann til verðlauna á mörgum háskólamótum. Eftir háskólanám vann Patil sem lögmaður en sneri sér síðan fljótt að stjórnmálum.

Þann 7. júlí árið 1965 giftist Patil prófessornum Devisingh Ransingh Shekhawat. Hjónin eiga tvö börn.

Stjórnmálaferill[breyta | breyta frumkóða]

Pratibha Patil hóf stjórnmálaferil sinn árið 1962 þegar hún var kjörinn á löggjafarþingið í fylkinu Maharashtra fyrir Indverska þjóðarráðsflokkinn. Þökk sé velunnara sínum innan flokksins, Yashwantrao Chavan, sem þá var forsætisráðherra fylkisstjórnar Maharashtra, varð Patil sex árum síðar menntamálaráðherra í fylkisstjórn Vasantrao Naik.

Á næsta kjörtímabili (1972-1978) varð Patil aftur ráðherra í fylkisstjórn Þjóðarráðsflokksins í Maharashtra. Hún fór fyrir ferðamanna- og samfélagsráðuneytum á stjórnartíðum Vasantdada Patil, Babasaheb Bhosle, S. B. Chavan og Sharad Pawar í fylkinu. Hún var endurkjörin á fylkisþingið í öllum kosningum til ársins 1985, en þá var hún kjörin á efri deild indverska þingsins, Rajya Sabha, fyrir Þjóðarráðsflokkinn. Hún sat síðan á neðri deild þingsins, Lok Sabha, fyrir kjördæmið Amravati frá 1991 til 1996.

Fylkisstjóri Rajasthan[breyta | breyta frumkóða]

Þann 8. nóvember árið 2004 var Patil útnefnd fylkisstjóri í Rajasthan. Hún var fyrsta konan sem gegndi því embætti.

Forsetatíð[breyta | breyta frumkóða]

Þann 14. júní árið 2007 útnefndi Sameinaða framfarabandalagið, kosningabandalag miðvinstriflokka undir stjórn Þjóðarráðsflokksins, Patil sem forsetaefni sitt í aðdraganda forsetakosninga sem fóru fram á þinginu það ár. Útnefning Patil var málamiðlun sem Sonia Gandhi, forseti Þjóðarráðsflokksins, stakk upp á þar sem vinstriflokkarnir höfðu ekki komið sér saman um frambjóðanda. Almennt var talið að tryggð Patil við Nehru-Gandhi-fjölskylduna, sem hefur stýrt Þjóðarráðsflokknum frá því fyrir sjálfstæði Indlands, hafi haft sitt að segja um að hún varð fyrir valinu. Sonia Gandhi lagði áherslu á að sá sögulegi áfangi að fyrsta konan tæki við forsetaembætti í Indlandi skyldi marka 60 ára afmæli sjálfstæðis landsins. Áður en Patil fór frá Jaipur til Nýju Delí þakkaði hún Soniu Gandhi fyrir að hafa valið sig og lýsti yfir að hennar fyrsta verk í forsetaembætti yrði að staðfesta lög sem tryggðu Indverjum atvinnu á landsbyggðinni.

Patil staðfesti framboð sitt þann 23. júní í fylgd með Manmohan Singh forsætisráðherra og Soniu Gandhi. Hún vann kosningarnar sem haldnar voru þann 19. júlí 2007 með tæpum tveimur þriðjungum greiddra atkvæða.[4]

Forsetatíð Patils einkenndist af deilumálum og hefur ekki hlotið góð eftirmæli.[5] Hún mildaði dauðadóma yfir 35 föngum í lífstíðarfangelsi, fleiri en nokkur annar forseti Indlands. Skrifstofa forsetans rökstuddi þetta með vísan til þess að farið hefði verið yfir umsóknir þeirra og eftir ráðum innanríkisráðuneytisins.[6][7]

Patil eyddi meiri fjármunum í utanlandsferðir og fór oftar út fyrir Indland en nokkur fyrri forseti.[8] Stundum voru allt að 11 fjölskyldumeðlimir hennar með í för. Í maí árið 2012 hafði Patil farið í 12 utanlandsferðir til 22 landa og samanlagt höfðu þær kostað 2,05 milljarða indverskra rúpía. Utanríkisráðuneytið lýsti yfir að það væri „ekki óeðlilegt“ að ættingjar hennar væru með í för.[9]

Kjörtímabil forseta Indlands er fimm ára langt[10] og Patil settist í helgan stein að loknu kjörtímabilinu í júlí árið 2012.[11]

Talið er að Patil hafi notað almenningsfé til að byggja sér setur á 24,000 m² landsvæði í eigu hersins í Pune. Venjan er sú að fyrrum forsetar hafi annaðhvort aðsetur í ríkisbústöðum í Delí eða flytji aftur í fyrri híbýli í heimafylki sínu. Notkun almannafés til að byggja nýtt heimili fyrir fyrrum forseta var fordæmalaus.[12] Einnig hefur verið umdeilt að Patil hafi sótt bæði um notkun ríkisbifreiðar eftir starfslok sín og um eldsneytisstyrk fyrir einkabíl þrátt fyrir að reglur mæli skýrt fyrir um að ekki megi hafa hvort tveggja. Hún eignaði sér auk þess margar gjafir sem hún hafði fengið í krafti embættis síns sem forseti og neyddist síðar til að skila mörgum þeirra.[13]

Tilvísanir[breyta | breyta frumkóða]

 1. Bibhudatta Pradhan (19. júlí 2007). „Patil Poised to Become India's First Female President“ (enska). Bloomberg.com. Sótt 18. júní 2020.
 2. Anita Joshua (20. júlí 2007). „High turnout in Presidential poll“ (enska). The Hindu. Afrit af upprunalegu geymt þann 10. nóvember 2012. Sótt 18. júní 2020.
 3. „Voting for Presidential poll ends“ (enska). NDTV. 19. júlí 2007. Afrit af upprunalegu geymt þann 29. september 2007. Sótt 18. júní 2020.
 4. „First female president for India“. BBC. 21. júlí 2007. Sótt 3. júlí 2012.
 5. „President Pratibha Patil's brush with controversy“. IBN Live. 12. apríl 2012. Afrit af upprunalegu geymt þann 21. september 2013. Sótt 14. apríl 2013.
 6. „President defends mercy spree to death row convicts“. The Times of India. 26. júní 2012. Afrit af upprunalegu geymt þann 22. september 2013. Sótt 19. júní 2020.
 7. „President Pratibha Patil goes on mercy overdrive“. The Times of India. 22. júní 2012. Afrit af upprunalegu geymt þann 22. september 2013. Sótt 19. júní 2020.
 8. „President Patil's foreign trips cost Rs 205 crore“. The Indian Express. 26. mars 2012. Sótt 21. september 2013.
 9. Dhawan, Himanshi (3. maí 2012). „Pratibha Patil took up to 11 relatives on 18 trips in a year“. The Times of India. Afrit af upprunalegu geymt þann 24 júlí 2013. Sótt 10. janúar 2016.
 10. Biswas, Soutik (13. júlí 2007). „India's muckraking presidential poll“. BBC. Sótt 3. júlí 2012.
 11. Kshirsagar, Alka (25. júní 2012). „Pratibha Patil gets retirement home in Pune“. Business Line. Sótt 26. júní 2012.
 12. Joseph, Josy (15. apríl 2012). „Pratibha's Pune home a break from tradition“. The Times of India. Sótt 10. janúar 2016.
 13. Satish, D. P. (29. júlí 2015). „Former President Pratibha Patil wants both car & fuel from government“. IBN Live. Sótt 11. janúar 2016.


Fyrirrennari:
A. P. J. Abdul Kalam
Forseti Indlands
(25. júlí 200725. júní 2012)
Eftirmaður:
Pranab Mukherjee