Fara í innihald

Dritvík

Úr Wikipediu, frjálsa alfræðiritinu
Dritvík er umlukin hraunum á þrjá vegu
Lending í Dritvík er í sand- og malarfjöru

Dritvík var forn verstöð á Snæfellsnesi. Talið er að útræði þaðan hafi byrjað um miðja 16. öld og haldist í þrjár aldir. Talið er að allt að 600 til 700 manns hafi stundað sjósókn í Dritvík þegar mest var. Dritvík er umlukin hraunum á þrjá vegu. Mjög stutt var að róa á fengsæl fiskimið úr Dritvík og víkin var skjólgóð.

Nafnaskýringu á örnefninu Dritvík er að finna í Bárðar sögu Snæfellsáss:

Bárður Dumbsson lagði sínu skipi inn í lón það sunnan gengur í nesið og þeir kölluðu Djúpalón. Þar gekk Bárður á land og hans menn og er þeir komu í gjárskúta einn stóran þá blótuðu þeir til heilla sér. Það heitir nú Tröllakirkja. Síðan settur þeir upp skip sitt í vík einni. Þar á lóninu höfðu þeir gengið á borð að álfreka [1] og þann sama vallgang [2] rak upp í þessari vík og því heitir það Dritvík.

Dritvík er í landi Hólahóla. Landleiðin þangað var löngum torsótt og þurfti að fara yfir úfið hraun. Af Djúpalónssandi er hægt að komast í víkina meðfram sjó en annars þarf að fara yfir úfið og illfært hraun.

Helgafellsklaustur eignaðist Hólahóla árið 1364 þegar Halldóra Þorvaldsdóttir gaf klaustrinu upp í próventu sína þrjár jarðir. Dritvík kemur fyrst fyrir í rituðum heimildum árið 1530 í skjali þar sem segir að skreiðarafgjöld Helgafellsklausturs eigi að afhenda þar.

Bátar lentu annað hvort á Mölinni eða Pollinum sem myndaðist milli Bárðarskips og Dritvíkurkletts.

Á 17., 18. og framan af 19. öld var Dritvík ein stærsta verstöð á Íslandi. Í 18. aldar heimild segir að til forna hafi gengið þar 70 - 80 skip en á 18. öld voru bátar í víkinni oft 40 - 50. Á 19. öld fór að draga úr sjósókn úr Dritvík og útræði þaðan lauk árið 1861. Bátar sem réru úr Dritvík voru flestir áttæringar og minni skip en sexæringar munu ekki hafa gengið þaðan. Fátt er nú í Dritvík sem sýnir að þar hafi 500-600 vermenn hafist við á hverjum vetri. Engar búðarleifar eru þar því menn höfðust við í tjöldum sem voru þannig að tóttir voru hlaðnar og tjaldað yfir. Í vertíðarlok voru tjöldin tekin niður. Örfáar þurrabúðir voru í Dritvík en flestir dvöldu þar aðeins meðan þeir réru til fiskjar.

Jón Helgason orti um Dritvík:

Nú er í Dritvík daufleg vist,
drungalegt nesið kalda;
sjást ekki lengur seglin hvít
sjóndeildarhringinn tjalda,
Tröllakirkjunnar tíðasöng
tóna þau Hlér og Alda.
Fullsterk mun þungt að færa á stall,
fáir sem honum valda.

Tilvísanir[breyta | breyta frumkóða]

  1. Ath. Að ganga álfreka er að ganga örna sinna.
  2. Vallgangur er saur