Fara í innihald

Drekktu betur

Úr Wikipediu, frjálsa alfræðiritinu

Drekktu betur er spurningakeppni (pöbbkviss) sem haldin er á Ölstofu Kormáks og Skjaldar á föstudögum. Keppnin hefur farið fram á knæpum í Reykjavík nær alla föstudaga síðan í apríl 2003.[1] Um er að ræða hefðbundna barsvarskeppni milli liða með 30 spurningum, þar sem ein spurning er "bjórspurning" en allir keppendur sem gefa rétt svar við henni fá einn bjór á barnum.[2] Liðið sem fær flest stig í keppninni hlýtur að launum bjórmiða (úttektarmiða á barnum). Spyrlar eru sjálfboðaliðar og gengur spyrlahlutverkið á milli fólks. Hlutverkið er vinsælt og algengt er að spyrlar þurfi að bíða vikum og jafnvel mánuðum saman eftir því að komast að. Stundum hafa komið fram sérstakir gestaspyrlar. Ævar Örn Jósepsson, Vera Illugadóttir, Stefán Pálsson, Þóra Arnórsdóttir, Ómar Ragnarsson, Páll Óskar Hjálmtýsson og Vilhelm Anton Jónsson eru meðal þeirra sem tekið hafa að sér spyrlahlutverkið.

Dæmi eru um að aðrir barir, bæði í Reykjavík og víðar, hafi nefnt sínar spurningakeppnir "Drekktu betur" þó svo engin tengsl séu við þessa keppni. [3]

Keppninni, sem dregur nafn sitt af spurningakeppni framhaldsskólanna, Gettu betur, var komið á laggirnar af Frey Eyjólfssyni, tónlistar- og fjölmiðlamanni og var hún fyrst haldin á Grandrokk við Smiðjustíg föstudaginn 25. apríl 2003. Freyr var spyrill og voru sigurvegarar fyrstu keppninnar Örnólfur Árnason og Haraldur Blöndal.

Fyrstu Drekktu betur keppnirnar voru undir stjórn fámenns hóps manna sem skiptust á að taka að sér hlutverk spyrils. Í þeim hópi voru m.a. Davíð Þór Jónsson og Jón Proppé, auk Freys. Eftir því sem á leið fóru fleiri að taka umsjón keppna að sér.

Eftir að Grandrokk lagði upp laupana flutti keppnin á Gallerýbar 46 á Hverfisgötu í marsbyrjun 2010, þar sem spurt var til maíloka 2013. Þá má segja að keppnin hafi lagst í svolítið flakk. Gerður var stuttur stans á Bar 11 við Hverfisgötu áður en keppnin fluttist á Tryggvagötuna á Harlem og síðar Húrra. Það var síðan föstudaginn 12. september 2014 sem keppnin fór í fyrsta sinn fram á Ölstofu Kormáks og Skjaldar við Vegamótastíg og hefur hún verið haldin þar síðan.

Drekktu betur keppnin hefur verið haldin samfellt nær alla föstudaga frá upphafi, að undanskildum fáeinum helgidögum. Eins var gert hlé á venjulegu fyrirkomulagi keppninnar á meðan á Covid-19 faraldrinum stóð en þá var hún færð yfir á netið og gekk þá undir nafninu Kófdrekktu betur. Utan helgidaga hefur aðeins einu sinni orðið messufall á keppninni en það var þegar keppni nr. 593, sem fara átti fram 19. desember 2014, féll niður og var frestað um viku.[4]

Ýmsar tímamótakeppnir hafa farið fram og má þar nefna:

  • Keppni 100 fór fram 6. maí 2005.
  • Keppni 250 fór fram 4. apríl 2008.
  • Keppni 500 fór fram 22. febrúar 2013.
  • Keppni 750 fór fram 5. janúar 2018.
  • Keppni 1.000 fór fram 13. október 2023. Spyrlar voru Freyr Eyjólfsson og Davíð Þór Jónsson, fyrstu tveir spyrlarnir í sögu keppninnar.[5][6]
  • 13. september 2024 verður haldin hátíðarkeppni í tilefni þess að þá verða 10 ár liðin frá því að keppnin fluttist á Ölstofuna.

Helsta ástæða þess að keppnir í Drekktu betur hafa ekki verið haldnar er í þeim tilvikum þegar föstudagur hefur fallið á helgidag. Þó hefur það færst í vöxt á undanförnum árum að keppt hafi verið á þeim dögum einnig.

Árið 2015 var keppni á föstudaginn langa haldin í fyrsta sinn á Ölstofunni, eftir að hafa áður verið haldin á netinu um nokkurra ára skeið undir heitinu "Negldu betur."

Árið 2016 var keppni haldin í fyrsta sinn á nýársdag.

Árið 2020 bar jóladag upp á föstudag og árið 2021 bar bæði aðfangadag og gamlársdag upp á föstudag. Ekki voru haldnar eiginlegar keppnir þessa daga en þess í stað fengu meðlimir Facebook-síðu Drekktu betur svokallaðar "jóla- og áramótagjafir" í formi keppna sem hlaða mátti niður og spreyta sig á heima fyrir.

Árið 2024 ákvað Ölstofan að hafa lokað á föstudaginn langa, þann 29. mars, í fyrsta sinn um nokkurra ára skeið. Keppnin var þá haldin í Árbæjarsafni og var það í fyrsta skiptið sem Drekktu betur keppnin fór fram í annars konar húsnæði en á bar, að undanskildum netkeppnum.[7]

Kófdrekktu betur

[breyta | breyta frumkóða]

Í marsmánuði árið 2020 var gert hlé á Drekktu betur keppnum vegna samkomutakmarkana sem settar voru á vegna Covid-19 faraldursins. Föstudaginn 20. mars var fyrsta Kófdrekktu betur keppnin haldin og fór hún fram í formi stöðuuppfærslna á Facebook. Í vikunni á eftir, 27. mars, var keppnin haldin með streymi í fyrsta sinn. Á tæpum tveimur árum var alls fjórum sinnum hlé gert á Drekktu betur og Kófdrekktu betur keppnir tóku við.

Þó svo Kófdrekktu betur keppnirnar lúti sömu reglum og reglulegar Drekktu betur keppnir eru þær ekki hafðar með í formlegri talningu keppnanna.

Alls urðu Kófdrekktu betur keppnirnar 49 talsins. Sú síðasta var haldin 28. janúar 2022.

Fyrirkomulag og reglur

[breyta | breyta frumkóða]

Drekktu betur keppnin fer fram á Ölstofu Kormáks og Skjaldar kl. 18:00 á föstudögum og er að mestu leyti hefðbundin spurningakeppni. Keppnin er opin öllum þeim sem náð hafa áfengiskaupaaldri og þátttaka er ókeypis.

Mest mega vera tveir þátttakendur í hverju liði. Yfirleitt hafa þátttakendur fundið sér lið þegar keppni hefst en ef svo er ekki getur spyrill aðstoðað við leit að meðspilara - svokölluðum "makker."

Drekktu betur fer fram á íslensku nema annað sé tilkynnt sérstaklega. Spyrlar koma yfirleitt úr hópi sjálfboðaliða sem hafa falast eftir hlutverkinu, þó svo stundum sé leitað til þeirra að fyrra bragði. Spyrlar sjá um að semja og flytja keppnir sínar sjálfir.

Aðalkeppni

[breyta | breyta frumkóða]

Spyrill spyr 30 spurninga án hlés. 18. spurningin er svokölluð "bjórspurning" en allir keppendur í þeim liðum sem svara henni rétt fá að launum bjór á barnum, burtséð frá öðrum úrslitum keppninnar. Stundum er hægt að fá spyril til þess að endurtaka einstaka spurningar, ýmist strax eftir hverja spurningu eða þegar öllum spurningum er lokið. Spyrill getur þó ákveðið að endurtaka engar spurningar.

Þegar spurningum er lokið skiptast lið á blöðum og fara yfir hvert hjá öðru á meðan spyrill les upp svörin. Að því loknu skiptast liðin aftur á blöðum og spyrill kannar frammistöðu keppenda.

Lið þurfa að ná að lágmarki 15 stigum til að teljast hafa náð máli. Nái ekkert lið 15 stigum eru engin aðalverðlaun veitt, heldur bætast þau við sigurlaun næstu keppni.

Hafi einhver lið náð máli telst stigahæsta liðið sigurvegari og fær sín sigurlaun.

Framlenging

[breyta | breyta frumkóða]

Séu tvö eða fleiri lið stigahæst með jafn mörg stig að keppni lokinni er gripið til framlengingar, sem yfirleitt telur fimm spurningar til viðbótar.

Það lið sem hefur flest stig að lokinni framlengingu telst sigurvegari og fær sín sigurlaun.

Bráðabani

[breyta | breyta frumkóða]

Séu tvö eða fleiri lið enn jöfn að framlengingu lokinni er gripið til bráðabana, en hann felst í því að ein spurning er borin upp í einu uns úrslit fást.

Oft eru þessar spurningar í formi "ómögulegra spurninga," en þá er borin upp spurning sem er þess eðlis að ekki er hægt að ætlast til að keppendur viti svarið, heldur stendur það lið uppi sem sigurvegari sem giskar næst réttu svari. Eins getur það gerst að keppendur séu látnir draga spil eða kasta teningi til að fá fram úrslit.

Sigurvegarar keppninnar hljóta að launum 20 bjórmiða sem skiptast á milli liðsmanna. Hafi vinningur ekki gengið út í vikunni áður leggst hann ofan á sigurlaunin. Sigurvegararnir fá allan vinningspottinn - almennt eru ekki veitt verðlaun fyrir önnur sæti.

Keppendur sem svara bjórspurningunni rétt fá að launum bjór á barnum en sækja þarf uppáskrift spyrils áður en bjórinn er sóttur.

Verðlaun á tímamótakeppnum eru jafnan stærri og veglegri en á venjulegum keppnum og þá hafa ýmsir aukavinningar bæst í pottinn. Þegar svo ber undir hefur bæði vinningur sigurvegara stækkað en einnig hafa þá verið veitt verðlaun fyrir annað og jafnvel þriðja sæti keppninnar.

Aðrar reglur

[breyta | breyta frumkóða]
  • Spyrlar eru jafnframt dómarar og búa yfir bæði alvaldi og einræði. Spyrlar hafa alltaf síðasta orðið þegar upp koma vafaatriði og keppendur þurfa að sætta sig við alla þeirra úrskurði.
  • Öllum er frjálst að bjóða sig fram til að semja og flytja keppni. Spyrlar sem eru að spreyta sig í fyrsta skiptið þurfa þó að bera keppnina sína undir vanan keppanda og fá viðbrögð við henni áður en stigið er á stokk. Umsjónarfólk Drekktu betur getur útvegað yfirlesara ef þurfa þykir.
  • Keppendur mega ekki sigra í meira en tveimur keppnum í röð. Þátttakandi sem sigrar tvisvar í röð fer í "leikbann" og má ekki sigra í a.m.k. eina viku.
  • Gjamm er afar illa séð. Verði einhverjum á að gjamma svar við spurningu svo aðrir heyri uppsker viðkomandi ávítur spyrils og kurr úr röðum keppenda. Getur gjammarinn átt von á hæðnislegum, jafnvel hvössum, athugasemdum fyrir uppátækið. Spyrill grípur til aukaspurningar í slíkum tilfellum, telji hann ástæðu til. Heimilt er að víkja raðgjömmurum úr keppni.
  • Svindl er algjörlega bannað. Drekktu betur er íhaldsöm keppni að því leyti. Treyst er að mestu á heiðarleika keppenda en ef þurfa þykir getur hver og einn fylgst með náunga sínum.

Tilvísanir

[breyta | breyta frumkóða]
  1. „Fréttablaðið - 116. tölublað (22.05.2003) - Tímarit.is“. timarit.is. Sótt 30. nóvember 2022.
  2. „Drink Again!“. Reykjavík Grapevine. Sótt 30.11.2022.
  3. Skagaströnd. „Drekktu betur í Kántrýbæ“. Skagaströnd. Sótt 30. nóvember 2022.
  4. „Messufall verður á Drekktu betur í fyrsta sinn - Vísir“. visir.is. 19. desember 2014. Sótt 30. nóvember 2022.
  5. Erlingsdóttir, Magnús Jochum Pálsson,Margrét Helga (13. október 2023). „Keppni stofnuð til að rétt­læta „heiðar­lega dag­drykkju" haldin í þúsundasta sinn - Vísir“. visir.is. Sótt 18. október 2023.
  6. „Fastir liðir eins og venjulega í 20 ár“. www.mbl.is. Sótt 18. október 2023.
  7. „Drekktu betur komið í Árbæjarsafn - Vísir“. visir.is. Sótt 28. ágúst 2024.