Ævar Örn Jósepsson
Ævar Örn Jósepsson (fæddur 25. ágúst 1963 í Hafnarfirði) er íslenskur útvarpsmaður og rithöfundur.
Menntun
[breyta | breyta frumkóða]Ævar gekk í Lækjarskóla og lauk grunnskólanámi (9. bekk, sem samsvarar 10. bekk nútímans) í Flensborg eins og aðrir Hafnfirðingar í þá tíð. Flutti í Skilmannahreppinn ásamt foreldrum og hundi sumarið 1979 og stundaði nám við Fjölbrautaskólann á Akranesi (nú Fjölbrautaskóla Vesturlands á Akranesi). Skrapp sem skiptinemi til Belgíu með ICYE (nú AUS) sumarið 1981 og dvaldi meðal Belga fram á sumarið 1982.
Hann lauk stúdentsprófi af náttúrufræðabraut í desember 1983, eftir 7 anna nám. Þá flutti hann til Reykjavíkur strax í janúar 1984 og hóf störf við Landsbanka Íslands, í gjaldeyrisdeildinni í aðalbankanum.
Hann lauk Magisterprófi frá Albert-Ludwigs Universität í Freiburg í Þýskalandi, 1994, í heimspeki og enskum bókmenntum. Áður stundaði hann nám í fjölmiðlafræði, stjórnmálafræði og heimspeki við háskólann í Stirling, Skotlandi veturinn 1986 til 1987.
Starfsferill
[breyta | breyta frumkóða]Ævar starfaði við dagskrárgerð í útvarpi, ýmist í lausamennsku eða föstu starfi, frá 1995, aðallega í Dægurmálaútvarpi Rásar 2 og Speglinum. Jafnframt var hann umsjónarmaður Sunnudagskaffis Rásar 2 veturinn 2004 – 2005 og spurningakeppni fjölmiðlanna páskana 2004, 2005, 2006, 2007 og 2008. Þá stýrði hann umræðuþáttum undir nafninu Korter í kosningar vorið 2007 og sunnudagsþættinum Endurvinnslunni á Rás 2 veturinn 2007 - 2008.
Einnig hefur hann unnið við blaðamennsku með hléum, ýmist í lausamennsku eða föstu starfi, frá 1994, m.a. á Morgunpóstinum, Vísi.is, tímaritinu Skýjum o.fl.
Þýðingar í lausamennsku, ýmsar greinar, skýrslur, sjálfshjálparbækur o.fl. Bankastarfsmaður frá 1984 – 1986, dagskrárgerð í sjónvarpi 1986 (Poppkorn með Gísla Snæ Erlingssyni), og í útvarpi 1987 og 1988. Poppskríbent Þjóðviljans einhvern tímann á þessu tímabili.
Skáldverk
[breyta | breyta frumkóða]- Önnur líf (Uppheimar: 2010)
- Land tækifæranna (Uppheimar: 2008)
- Sá yðar sem syndlaus er (Uppheimar: 2006) - Samnefnt útvarpsleikrit var skrifað eftir sögunni af Bjarna Jónssyni og flutt sumarið 2007. Kom út í Danmörku 2008 (Uden synd, þýðandi Áslaug Th. Rögnvaldsdóttir), væntanleg í Þýskalandi 2011 (Wer ohne Sünde ist, þýðandi Coletta Bürling).
- Blóðberg (Mál og menning: 2005) - Kom út í Danmörku 2007 (Blodbjerget, þýðandi Áslaug Th. Rögnvaldsdóttir) og Þýskalandi 2009 (Blutberg, þýðandi Coletta Bürling).
- Línudans (2004) - Smásaga sem birtist í Tímariti Máls og menningar og þýsku smásagnasafni.
- Svartir englar (Almenna bókafélagið: 2003) - Útvarpsleikrit var unnið upp úr sögunni af Ingunni Ásdísardóttur (fékk nafnið Konan sem hvarf) og flutt sumarið 2005. Sjónvarpsþáttaröðin Svartir englar var gerð eftir þessari bók og Skítadjobb og sýnd haustið 2008. Gefin út í Þýskalandi (2007, Dunkle Seelen), Svíþjóð (2007, Svarta änglar) og Hollandi (2006, Zwarte engelen).
- Skítadjobb (Mál og menning: 2002).
Viðtalsbækur og ævisögur
[breyta | breyta frumkóða]- Taxi (Almenna bókafélagið: 2002) - 101 saga úr heimi íslenskra leigubílstjóra.
- Tabú (Tindur: 2008) - Ævisaga Harðar Torfa
Sjónvarp
[breyta | breyta frumkóða]Svartir englar, sjónvarpsþáttaröð í sex hlutum, byggð á sögunum Skítadjobb og Svartir englar, var sýnd í Ríkissjónvarpinu á haustmánuðum 2008. Leikstjóri var Óskar Jónasson, handrit skrifuðu Sigurjón Kjartansson og Margrét Örnólfsdóttir. Jóhann Jóhannsson gerði tónlistina en Arnar Þórisson stýrði kvikmyndatöku. Framleiðandi: Sagafilm. Með helstu hlutverk fóru Sigurður Skúlason (Stefán), Sólveig Arnarsdóttir (Katrín), Steinn Ármann Magnússon (Guðni) og Davíð Guðbrandsson (Árni).
Viðurkenningar
[breyta | breyta frumkóða]- 2004: Svartir englar tilnefndir til Glerlykilsins 2005 sem besta íslenska glæpasagan.
- 2006: Blóðberg tilnefnd til Glerlykilsins 2007 sem besta íslenska glæpasagan.
- 2009: Land tækifæranna fékk Blóðdropann, verðlaun Hins íslenska glæpafélags fyrir bestu glæpasögu liðins árs, sem jafnframt þýðir að sagan er tilnefnd til Glerlykilsins 2010.
Annað
[breyta | breyta frumkóða]Ævar var kjörinn formaður SKS, Skandinaviska Kriminalsällskapet, 2004, og hefur gegnt því embætti síðan.