Fara í innihald

Dante Alighieri

Úr Wikipediu, frjálsa alfræðiritinu
(Endurbeint frá Dante)
Helgríma Dantes í Palazzo Vecchio í Flórens.

Dante Alighieri (um 29. maí 126514. september 1321) var skáld frá borgríkinu Flórens á Ítalíuskaganum. Verk hans Hinn guðdómlegi gleðileikur (La divina commedia) er talið með merkustu bókmenntum sem skrifaðar voru á miðöldum. Verkið er einnig talið hafa myndað grundvöllinn að ítölsku ritmáli.

Dante fæddist inn í virðulega fjölskyldu í Flórens. Hann varð, líkt og fjölskylda hans, hallur undir málstað Gvelfa (sem voru hallir undir páfa) í átökum þeirra við Gíbellína (sem hölluðust að keisaranum. Hann barðist sjálfur í orrustunni við Campaldino (11. júní 1289) sem festi Gvelfa í sessi á valdastóli í Flórens. Eftir ósigur Gíbellína skiptust Gvelfar í tvær fylkingar (hvíta og svarta) þar sem Dante var í fyrrnefndu fylkingunni.

1301 var von á Karli af Valois sem Bónífasíus VIII hafði útnefnt sáttasemjara í Toskana til Flórens. Dante fór þá fyrir sendinefnd til Rómar til að komast að fyrirætlunum páfa. Páfi sendi hina sendimennina burt en skipaði Dante að vera um kyrrt. Á meðan hélt Karl inn í Flórens með her svartra Gvelfa sem tóku stjórn borgarinnar í sínar hendur og drápu flesta andstæðinga sína. Dante gat ekki snúið aftur og var dæmdur til ævilangrar útlegðar.

Dante tók þátt í nokkrum tilraunum til að koma hvítum Gvelfum aftur til valda í Flórens, en þær mistókust allar. Hann dó að lokum í útlegð í Ravenna.

Dante, staddur milli fjalls Hreinsunareldsins (Purgatorio) og fæðingarborgar sinnar, sýnir hina frægu upphafslínu Nel mezzo del cammin di nostra vita í málverki Domenico di Michelino frá því 1465.

Hinn guðdómlegi gleðileikur er nokkurs konar leiðsla sem lýsir ferð Dantes um Víti (Inferno), Skírnarfjallið (Purgatorio) og Paradís (Paradiso), fyrst undir leiðsögn rómverska skáldsins Virgils og síðan í fylgd sinnar ástkæru Beatrís. Verkið er ritað á mállýsku heimabæjar Dantes, en með þessu meistaraverki staðfesti hann að ítalskan væri nothæf sem bókmenntamiðill og gerði það einnig að verkum að toskanska varð grundvöllurinn að ítölsku ritmáli.

Önnur verk hans eru meðal annars De vulgari eloquentia um bókmenntir á talmálinu og La vita nuova, sem er saga ástar hans á Beatrice Portinari.

Dante Alighieri; Einar Thoroddsen þýddi (2018). Víti: fyrsti hluti Gleðileiksins guðdómlega. Guðrún útgáfufélag ehf, Reykjavík.

Dante Alighieri; Einar Thoroddsen þýddi (2021). Skírnarfjallið: annar hluti Gleðileiksins guðdómlega. Guðrún útgáfufélag ehf, Reykjavík.

Wikisource
Wikisource
Á Wikiheimild er að finna verk eftir eða um: