Dag Strömbäck
Dag Strömbäck – fullu nafni Dag Alvar Strömbäck – (13. ágúst 1900 – 1. desember 1978), var sænskur þjóðfræðingur og textafræðingur. Hann var prófessor við Uppsalaháskóla 1948–1967.
Æviágrip
[breyta | breyta frumkóða]Dag Strömbäck fæddist í Järbo í Gästriklandi í Mið-Svíþjóð. Hann ólst upp í Alfta í Hälsinglandi, litlu norðar, þar sem faðir hans var prestur, og kynntist náið alþýðumenningu svæðisins. Átti það þátt í því hvert áhugamál hans beindust og var góður grunnur í námi og starfi.
Hann varð stúdent í Stokkhólmi 1919, fór síðan í Uppsalaháskóla og lauk fil. lic. prófi í norrænum málum 1926, og í trúarbragðasögu 1929. Veturinn 1926–1927 var hann við nám í Háskóla Íslands og flutti þar einnig fyrirlestra um sænskar bókmenntir. Hann náði fljótt góðum tökum á íslensku og sótti m.a. fyrirlestra hjá Sigurði Nordal prófessor; tókust þar með þeim góð kynni og vinátta sem entist meðan báðir lifðu. Hann kynntist hér fleiri fræðimönnum, svo sem Jóni Helgasyni og Einari Ól. Sveinssyni. Almennt má segja að dvölin hér hafi haft drjúg og varanleg áhrif á ævistarf hans og rannsóknir. Doktorsritgerð varði Dag við Uppsalaháskóla 1935, um seið í fornum heimildum.
Hann varð dósent í íslenskum fræðum í Lundi 1935, prófessor við Chicago-háskóla 1937–1939, aðstoðarprófessor í norrænum málum við Uppsalaháskóla 1941–1948, og prófessor við sama skóla í norrænni og samanburðar-þjóðfræði 1948–1967. Hann var og forstöðumaður við Landsmåls- och folkminnesarkivet í Uppsölum 1940–1967.
Árið 1929 fór hann að vinna við orðabók Sænsku Akademíunnar í Lundi, og var einn af ritstjórum hennar 1931–1940.
Dag Strömäck átti sæti í mörgum vísindafélögum og var heiðursdoktor við háskólana í Aberdeen, Dyflinni, og Háskóla Íslands 1961. Hann var forseti Kungliga Gustav Adolfs Akademien för svensk folkkultur í Uppsölum 1957–1965 (ritari 1966–1974), og Kungliga Vitterhets Historie och Antikvitets Akademien 1965–1974. Hann tók þátt í að stofna Isländska sällskapet í Uppsölum, 1949, og var í stjórn þess til 1976. Hann var ritstjóri tímaritanna Svenska landsmål 1943–1967, Saga och Sed 1966–1974 og Arv 1952–1978, og birti þar fjölda greina.
Dag Strömbäck var einn af forvígismönnum þjóðfræði á Norðurlöndum. Hann er einna þekktastur fyrir að tvinna saman textafræði og þjóðfræði við rannsóknir á íslenskum fornbókmenntum og trúarbragðasögu. Meðal nemenda hans var Jón Hnefill Aðalsteinsson þjóðfræðingur.
Kona Dags Strömbäcks (1927) var Rosalie Ester Ebba Ulrika Olivecrona.
Nokkur rit
[breyta | breyta frumkóða]Bækur
[breyta | breyta frumkóða]- Sejd. Textstudier i nordisk religionshistoria. Stockholm 1935, 24+206 s. — Doktorsritgerð.
- Tidrande och diserna. Ett filologiskt-folkloristiskt utkast. Lund 1949, 59 s. —
- The conversion of Iceland. A survey. London 1975, 12+109 s. — Viking Society for Northern Research, Text series 6. Peter Foote þýddi.
Greinar
[breyta | breyta frumkóða]- Författarskap och tradition i den isländska ättesagan. Kungl. humanistiska vetenskapssamfundet i Uppsala, Årsbok, 1943:37–55. —
- Att binda helskor : anteckningar till Gisle Surssons saga. Kungl. humanistiska vetenskapssamfundet i Uppsala, Årsbok, 1952:37–55.
Afmælisrit
[breyta | breyta frumkóða]- Folkloristica : festskrift till Dag Strömbäck 13.8. 1960, Uppsala 1960, 8+356 s. — 60 ára afmælisrit, með ritaskrá. Greinar annarra fræðimanna.
- Folklore och filologi. Valda uppsatser utgivna av Kungl. Gustavs Adolfs Akademien 13.8. 1970. Uppsala 1970, 306 s. — 70 ára afmælisrit, með 20 ritgerðum eftir Dag Strömbäck, 1928–1963.
Heimildir
[breyta | breyta frumkóða]- Valter Jansson: Dag Strömbäck. Minnesord. Scripta Islandica 30, 1979:7–12.
- Jón Hnefill Aðalsteinsson: Þjóðfræði og þakkarskuld. Andvari, Rvík 1982:45–56.
- Fyrirmynd greinarinnar var „Dag Strömbäck“ á sænsku útgáfu Wikipedia. Sótt 24. janúar 2010.