Fara í innihald

Carl Gustav Hempel

Úr Wikipediu, frjálsa alfræðiritinu
Carl Gustav Hempel
Persónulegar upplýsingar
Fæddur8. janúar 1905Oranienburg í Þýskalandi)
SvæðiVestræn heimspeki
TímabilHeimspeki 20. aldar
Skóli/hefðRökgreiningarheimspeki
Helstu ritverkStudies in the Logic of Confirmation; The Logic of Functional Analysis; Aspects of Scientific Explanation; Scientific Explanation
Helstu kenningarStudies in the Logic of Confirmation; The Logic of Functional Analysis; Aspects of Scientific Explanation; Scientific Explanation
Helstu viðfangsefniVísindaheimspeki, rökfræði

Carl Gustav Hempel (8. janúar 19059. nóvember 1997) var þýskur vísindaheimspekingur og einn helsti málsvari rökfræðilegrar raunhyggju á 20. öld. Hann er einkum frægur fyrir kenningu sína um að eðli vísindalegra skýringa byggi á afleiðslu þar sem að minnsta kosti ein forsendan er staðhæfing um náttúrulögmál. Kenningin var talin meginviðmið á 6. og 7. áratug 20. aldar.

Carl Gustav Hempel fæddist í Oranienburg í Þýskalandi þann 8. janúar 1905. Hann nam stærðfræði, eðlisfræði og heimspeki við háskólana Göttingen, Heidelberg og Berlín. Í Göttingen kynntist hann David Hilbert og þótti mikið koma til tilraunar hans til þess að smætta alla stærðfræði í hreina rökfræði. Hempel kynntist Rudolf Carnap á ráðstefnu um vísindaheimspeki í Berlín árið 1929 og varð í kjölfarið meðlimur í Berlínarhringnum. Hann lauk doktorsgráðu sinni frá Berlínarháskóla árið 1934 en lokaverkefni hans fjallaði um líkindafræði. Sama ár flutti hann frá Þýskalandi vegna uppgangs nasismans þar í landi. Hempel flutti til Belgíu og naut til þess hjálpar Pauls Oppenheim, sem samdi með honum ritið Der Typusbegriff im Lichte der neuen Logik sem kom út árið 1936. Árið 1937 flutti Hempel til Bandaríkjanna og tók við stöðu aðstoðarmanns Carnaps við Háskólann í Chicago. Hann kenndi síðar við City College of New York (1939 – 1948), Yale-háskóla (1948 – 1955) og Princeton-háskóla þar sem hann var starfsfélagi Thomasar Kuhn. Hempel kenndi í Princeton þar til hann fór á eftirlaun árið 1964. Hann varði tveimur árum (1964 – 1966) við Hebreska háskólann í Jerúsalem. Árið 1977 tók hann við prófessorsstöðu í heimspeki við Háskólann í Pittsburgh og kenndi þar til ársins 1985.

Hempel lést í Princeton í New Jersey í Bandaríkjunum árið 1997.

Árið 2005 var nefnd eftir honum gata í Oranienburg í Þýskalandi, Carl-Gustav-Hempel-Straße.

Vísindaleg skýring

[breyta | breyta frumkóða]

Eitt aðalviðfangsefni vísindaheimspekinnar er að greina vísindi frá annars konar kenningum og finna út hvað geri eina rannsókn eða kenningu vísindalega en aðra ekki. Hvað er vísindaleg útskýring á tilteknum hlut eða atburði? Carl Hempel er hvað þekktastur fyrir atlögu sína til þess að greina hvað vísindaleg skýring feli í sér og hvaða einkenni hún þurfi að hafa til þess að hún geti talist vísindaleg. Í ritinu Studies in the Logic of Explanation frá árinu 1948 setur Carl Hempel ásamt Paul Oppenheim fram kenningu um lögmál vísindalegrar skýringar. Samkvæmt kenningunni sem gengur undir nafninu Yfirgripslögmálið, hefur vísindaleg skýring einfaldlega sömu einkenni og röksemdarfærsla eða afleiðsla. Vísindaleg skýring væri svar við svokölluðum „af hverju“-spurningum, sem leitast við að finna orsakaskýringu á því af hverju hlutirnir eru eins og þeir eru. Dæmi um þannig spurningu væri af hverju sykur blandist vatni. Vísindaleg skýring er rökrétt samband milli tveggja staðhæfinga og í raun afleiðsla staðhæfingar. Svarið við spurningunni er þá aðleiðsla þess að sykur leysist upp í vatni og er vísindaleg skýring. Hempel taldi að með því að finna hvaða einkenni vísindaleg skýring hefði, þá gætum við sagt til um hvað við gætum kallað vísindalega skýringu. Til að svara spurningunni af hverju sykur leysist upp í vatni verðum við því að byrja á setja fram rökleiðslu sem leiðir að þeirri staðreynd að sykur leysist upp í vatni sem inniheldur forsendur fyrir sannindum fullyrðingarinnar. Til þess að geta búið til kerfislægt líkan af vísindalegri skýringu taldi Hempel að hún yrði að halda óhagganleg náttúrulögmál, einhverja fasta breytu sem væri alltaf eins. Samkvæmt kenningu Hempel er skýring visindaleg ef hún uppfyllir þrjú atriði. Forsendurnar þurfa að vera leiða að niðurstöðunni, forsendurnar þurfa að vera sannar og síðan þurfa þær að innihalda að minnsta kosti eitt náttúrulögmál. Dæmi um náttúrulögmál er þyngdarlögmálið sem er eitt af grundvallarlögmálum eins og það lögmál að málmar leiða rafmagn. Hempel taldi því að ef að eitthvað væri afleiðing náttúrulögmáls hlyti það að vera satt. Vísindaleg útskýring innihéldi náttúrulögmál ásamt tilteknu atviki eða staðreynd sem væri breytileg eftir hverju dæmi fyrir sig.

Tökum dæmi: Segjum sem svo að við vildum vita af hverju blómið í glugganum mínum væri dáið. Ef ég myndi nota kenningu Hempel til að finna vísindalegu úskýringuna á því myndi ég setja fram eftirfarandi röksemdafærslu:

  1. Blóm þurfa sólarljós til að lifa (náttúrulögmál)
  2. Sólarljós hefur ekki náð til blómsins í glugganum mínum á þeim stað sem það hefur staðið (sérstök breyta)
  3. Þess vegna er blómið dáið

Samkvæmt Hempel var fleira sem einkenndi Yfirgripslögmálið, það er að maður gæti tekið þessar forsendur og notað til að spá fyrir um atburðinn. Náttúrulögmálið ásamt hinum forsendunum geti því verið notað til þess að spá fyrir um ákveðinn atburð eða staðreynd.[1]

  • 1936 Über den Gehalt von Wahrscheinlichkeitsaussagen
  • 1936 Der Typusbegriff im Licht der neuen Logik ásamt Paul Oppenheim
  • 1942 The Function of General Laws in History
  • 1943 Studies in the Logic of Confirmation
  • 1959 The Logic of Functional Analysis
  • 1965 Aspects of Scientific Explanation
  • 1966 Philosophy of Natural Science
  • 1967 Scientific Explanation
  • 2000 Selected Philosophical Essays

Tilvísanir

[breyta | breyta frumkóða]
  1. Okasha, Samir (2002). Philosophy of Science: A Very Short Introduction.