Brasilíska úrvalsdeildin
Brasilíska úrvalsdeildin (portúgalska: Campeonato Brasileiro Série A) er efsta atvinnumannadeildin í knattspyrnu í Brasilíu. Þrátt fyrir að Brasilía hafi lengi verið í hópi öflugustu knattspyrnuþjóða, kom meistarakeppni á landsvísu tiltölulega seint til sögunnar, vegna mikilla vegalengda. Þess í stað hafa keppnir í einstökum héruðum alla tíð haft mikið vægi. Tilkoma álfukeppninnar, Copa Libertadores, kallaði á að stofna brasilíska landskeppni til að velja þátttökulið. Slík mót hafa verið haldin óslitið frá 1959 en undir ýmsum nöfnum og með afar ólíku keppnisfyrirkomulagi. Framan af var um að ræða bikarkeppni með útsláttarkeppni en í dag er um að ræða 20 liða deildarkeppni þar sem lið geta fallið niður í B-deild.
Til ársins 2010 var litið svo á að brasilíska úrvalsdeildin hefði hafið göngu sína árið 1971, en þá var ákveðið að viðurkenna sigurlið allt frá árinu 1959 sem fullgilda brasilíska meistara. Árið 2023 var að auki samþykkt að Atlético Mineiro teldust fyrstu Brasilíumeistararnir vegna sigurs síns í móti árið 1937.
Sagan
[breyta | breyta frumkóða]Ensk/brasilíski verkfræðingurinn Charles Miller er almennt talinn hafa kynnt landa sína fyrir knattspyrnuíþróttinni árið 1894 þegar hann sneri aftur frá námi í Bretlandi. Árið 1902 kom hann að skipulagningu fyrstu deildarkeppninnar í Brasilíu sem skipuð var liðum frá São Paulo. Önnur héruð fylgdu í kjölfarið og hafa héraðskeppnirnar haldið sínu striki til þessa dags.
Brasilíska knattspyrnusambandið var stofnað árið 1916 og hóf snemma að skipuleggja ýmis konar keppnir milli héraðsmeistara eða úrvalsliða frá einstökum landshlutum. Virtasta slíka keppnin var þó milli São Paulo- og Ríó-meistaranna sem haldin var á árunum 1933-66 og svo endurvakin í nokkur ár í kringum aldamótin. Oft var talað um sigvegara São Paulo/Ríó-keppninnar sem óformlega Brasilíumeistara, enda flest sterkustu liðin úr þeim héruðum.
Árið 1920 var þess freistað í fyrsta sinn að efna til keppni milli meistaraliða þriggja stærstu héraðssambandanna, Campeonato Brasileiro de Clubes Campeões, sem lauk með sigri São Paulo-liðsins CA Paulistano. Á þessum árum var áhugamennska enn við lýði í brasilísku knattspyrnunni.
Sautján árum síðar, árið 1937, eftir að atvinnumennska hafði verið innleidd, var næsta tilraun gerð til að endurvekja brasilíska meistarakeppni. Meistaliðin frá fimm öflugustu héraðssamböndunum auk úrvalsliðs frá sjóhernum mættust í Copa dos Campeões. Atlético Mineiro frá Belo Horizonte fór með sigur af hólmi. Ekki varð framhald á þessari tilraun að sinni, en löngu síðar var ákveðið að þessi keppni skyldi teljast fyrsta brasilíska meistarakeppnin.
Taça Brasil (1959-68)
[breyta | breyta frumkóða]Copa Libertadores keppni meistaraliða í Suður-Ameríku hóf göngu sína árið 1960, innblásin af velgengni Evrópukeppni meistaraliða. Önnur Suður-Ameríkulönd höfðu á þessum tíma landsmeistaramót og þurftu Brasilíumenn að koma sér upp slíku til að velja fulltrúa sinn. Árið 1959 var því í fyrsta sinn efnt til keppni sem fékk heitið Taça Brasil. Sextán héraðsmeistaralið tóku þátt í þessu fyrsta móti og var leikin útsláttarkeppni, með viðureignum heima og heiman. Meistaraliðin frá São Paulo og Ríó hófu svo keppni í undanúrslitum, enda talin langsigurstranglegust. Gríðarlega óvænt úrslit urðu í þessari fyrstu keppni þar sem Bahia skellti Pelé og félögum í Santos í úrslitum og varð þar með fyrsti fulltrúi Brasilíu í Copa Libertadores.
Næstu níu árin áttu São Paulo-liðin eftir að bera höfuð og herðar yfir önnur félög í Taça Brasil, sem alltaf var leikin með sama keppnisfyrirkomulaginu. Palmeiras urðu meistarar árin 1960 og 1967, en Santos fór með sigur af hólmi fjögur ár í röð 1961-65. Cruzeiro og Botafogo hirtu þá tvo titla sem út af stóðu.
Eftir að brasilísku liðunum í Copa Libertadores var fjölgað úr einu í tvö fengu bæði úrslitaliðin árin 1965 og 1966 þátttökurétt þar. Árin 1967 og 1968 fékk einungis sigurliðið sæti í Suður-Ameríkukeppninni en hitt sætið kom í hlut sigurvegaranna í Taça de Prata, keppni sem fram fór á árunum 1967-70. Skjótar vinsældir þeirrar keppni gerðu það að verkum að Taça Brasil lét undan síga og var hún haldin í síðasta sinn árið 1968.
Taça de Prata (1967-70)
[breyta | breyta frumkóða]Taça de Prata, fullu nafni Torneio Roberto Gomes Pedrosa hóf göngu sína árið 1967 þegar gamalgróin keppni meistaraliðanna frá São Paulo og Ríó var stækkuð og fulltrúum þriggja stórra héraðssambanda bætt við. Öfugt við Taça Brasil sem var einföld útsláttarkeppni var Taça de Prata með tveimur 7-8 liða riðlum þar sem leikið var heima og heiman, auk fjögurra liða úrslitariðils. Þótt keppnin næði ekki til alls landsins, gerði leikjafjöldinn það að verkum að hún var þegar hátt skrifuð meðal knattspyrnuunnenda.
Palmeiras og Santos skiptu á milli sín þremur fyrstu titlunum í Taça de Prata en Fluminense frá Ríó varð meistari árið 1970, í síðasta skiptið sem keppnin var haldin. Árið 2010 tók Brasilíska knattspyrnusambandið þá ákvörðun að sigurliðin í Taça de Prata væru fullgildir Brasilíumeistarar. Þar sem Palmeiras unnu báða titlana árið 1967, telst það aðeins sem einn meistaratitill en Santos og Botafogo teljast hins vegar bæði hafa orðið Brasilíumeistarar árið 1968.
Campeonato Nacional de Clubes (1971-74)
[breyta | breyta frumkóða]Sigur Brasilíu á HM 1970 varð til þess að þrýsta á um betri skipulagningu brasilíska fótboltans. Herforingjastjórnin sem rænt hafði völdum 1964 sýndi fótbolta vaxandi áhuga og vildi nýta hann til að sýna fram á þjóðareiningu. Í október 1970 var samþykkt að stofna til landskeppni sem halda skyldi þegar á næsta ári.
Um var að ræða deildarkeppni með A-deild og B-deild að evrópskri fyrirmynd, með 20 liðum í efri deildinni. Engu að síður færðust lið ekki á milli A- og B-deildar, heldur var sætum þar úthlutað á grunni frammistöðu liðanna í héraðsdeildum eða þau handvalin af yfirvöldum. Atlético Mineiro urðu fyrstu meistararnir í hinnu nýju deild.
Afskipti herforingjastjórnarinnar af reksti deildarinnar voru mikil og þrýsti hún í sífellu á um að ný lið yrðu tekin inn í hana, einkum á svæðum þar sem stjórnmálaflokkur herforingjanna átti í vök að verjast. Þannig voru keppnisliðin í A-deildinni orðin 26 þegar á öðru ári, þar sem Palmeiras urðu meistarar. Árið 1973 voru efstu deildirnar sameinaðar og heil fjörutíu lið kepptu saman í óskiljanlegri flækju þar sem liðunum var ítrekað skipt upp í riðla.
Auk Atlético Mineiro urðu Palmeiras (tvisvar) og Vasco da Gama meistarar þau fjögur skipti sem keppnin var haldin undir þessu nafni.
Copa Brasil (1975-79)
[breyta | breyta frumkóða]Brasilíukeppnin fékk nýtt nafn árið 1975, Copa Brasil og hélt því um fimm ára skeið. Leikjafyrirkomulagið tók stöðugum breytingum og árið 1979 voru keppnisliðin hvorki meira né minna en 92 talsins.
Internacional frá Porto Alegre var sigursælast á þessu árabili með þrjá meistaratitla, þá einu í sögu sinni. São Paulo og Guarani unnu hvort sinn titilinn að auki. Síðla árs 1979 var Brasilíska knattspyrnusambandinu stokkað upp að kröfu FIFA og það í raun endurstofnað.
Taça de Ouro & Copa Brasil (1980–86)
[breyta | breyta frumkóða]Uppstokkun knattspyrnusambandsins um áramótin 1979-80 féll saman við djúpa efnahagskreppu í Brasilíu, sem hafði magnast allt frá Olíukreppunni. Efahagsörðugleikarnir grófu jafnframt undan stöðu herforingjastjórnarinnar sem hrökklaðist loks frá völdum um miðjan níunda áratuginn. Fyrsta verk nýja knattspyrnusambandsins var að fækka keppnisliðum í úrvalsdeildinni, sem fékk nafnið Taça de Ouro eða Gullbikarinn. Um leið var B-deild komið á laggirnar, Taça de Prata eða Silfurbikarinn. Árið eftir var C-deild bætt við að auki.
Flamengo vann þrjú af fyrstu fjórum árum þessarar nýju keppni og Grêmio frá Porto Alegre einu sinni. Árið 1984 var nafni keppninnar breytt á nýjan leik í Copa Brasil og fór Fluminense með sigur af hólmi. Hringlandahátturinn með nafnið hélt áfram. Mótið kallaðist Taça de Prata á nýjan leik árið 1985, þar sem Coritiba frá samnefndri borg vann sinn fyrsta og eina titil. Enn var nafninu breytt í Taça de Prata árið 1986 þar sem São Paulo varð hlutskarpast. Það ár var horfið aftur til gamla keppnisfyrirkomulagsins frá áttunda áratugnum með áttatíu liðum í deildinni. Breytingin var gerð í óþökk stærstu liðanna og einkenndist mótshaldið af endalausum deilum milli þeirra og knattspyrnusambandsins.
Lokaskeið Copa Brasil (1987–88)
[breyta | breyta frumkóða]Keppnistímabilið 1987 varð það umdeildasta í sögu úrvalsdeildarinnar. Knattspyrnusambandið lýsti því yfir skömmu áður mótið átti að hefjast að það hefði ekki bolmagn til að halda því úti. Við tók örvæntingarfull leit að styrktaraðilum og varð lendingin sú að óformlegur klúbbur þrettán stærstu og ríkustu félaganna setti á laggirnar sína eigin keppni, með þremur félögum til viðbótar, sem fékk heitið Copa União en var einnig stundum kennd við íþróttaforkólfinn João Havelange. Sigurvegarar í þessari keppni voru Flamengo og líta stuðningsmenn þess félags svo á að þeir hafi orðið Brasilíumeistarar árið 1987.
Samhliða þessari elítukeppni var haldin keppni minni félaga og var ætlun knattspyrnusambandsins að tvö efstu liðin í henni myndu mæta toppliðunum tveimur úr Copa União í úrslitakeppni um meistaratitilinn. Þegar á hólminn var komið neituðu Flamengo og Internacional að keppa. Sport Recife voru því krýndir meistarar. Flamengo reyndi ítrekað að fá þeirri niðurstöðu hnekkt, en árið 2018 kvað knattspyrnusambandið loks upp þann endanlega dóm sinn að Recife væri óskoraður meistari.
Knattspyrnusambandið og 13-liða klúbburinn náðu að grafa stríðsöxina fyrir leiktíðina 1988. Deildirnar tvær voru sameinaðar á ný og fór Bahia með sigur af hólmi í annað sinn í sögunni. Þetta ár var í fyrsta sinn komið á því fyrirkomulagi að lið féllu og færðust upp um deild, alfarið byggt á röð þeirra í deildinni - en fram að því höfðu stærstu félögin verið undanskilin því að geta fallið úr efstu deild. Var þessi breyting gerð að kröfu FIFA.
Campeonato Brasileiro Série A (1989–2000)
[breyta | breyta frumkóða]Ricardo Teixeira, tengdasonur João Havelange, tók við stjórn brasilíska knattspyrnusambandsins árið 1989 og átti eftir að stýra því í meira en tvo áratugi. Sambandið var í miklum fjárhagskröggum en Teixeira náði skjótt að snúa rekstrinum við og skila hagnaði. Hann réðst þegar í endurskipulagningu knattspyrnumóta og kom á laggirnar bikarkeppni að evrópskri fyrirmynd. Til aðgreiningar frá hinni nýstofnuðu bikarkeppni var nafni deildarkeppninnar breytt í Campeonato Brasileiro, sem það hefur að mestu haldið til þessa dags.
Eitt af því sem alla tíð hefur einkennt brasilísku knattspyrnuna er hversu hörð keppnin er og fágætt að sama liðið vinni oftar en einu sinni í röð. Til marks um það voru sjö ólík meistaralið á fyrstu átta árum keppninnar frá 1989 til 1996.
Deilur innan knattspyrnusambandsins leiddu til þess að 13-liða klúbburinn tók yfir skipulagningu úrvalsdeildarinnar árið 2000 sem var í annað sinn í sögunni kennd við João Havelange. 116 lið kepptu í fjölmörgum riðlum og endaði með úrslitakeppni sem lauk með sigri Vasco da Gama.
Keppnin frá aldamótum (2001-)
[breyta | breyta frumkóða]Nálega óskiljanlegt keppnisfyrirkomulag deildarinnar árið 2000 varð til þess að forystumenn brasilískra knattspyrnumála komust að þeirri niðurstöðu að við þetta yrði ekki lengur unað. Árið 2002 var ákveðið að taka upp einfalda deildarkeppni með tvöfaldri umferð að evrópskri fyrirmynd í stað flókinnar riðlakeppni með úrslitaleikjum.
Afleiðingin af þessari kerfisbreytingu varð meðal annars sú að möguleikar „minni liða“ á að verða meistarar hafa minnkað, en „stóru liðin“, einkum frá Ríó og São Paulo hafa einokar meistaratitilinn frá aldamótum.
Flestir titlar eftir félögum
[breyta | breyta frumkóða]Félag | Titlar | Ár |
---|---|---|
Palmeiras | 11 | 1960, 1967, 1969, 1972, 1973, 1993, 1994, 2016, 2018, 2022, 2023 |
Santos | 8 | 1961, 1962, 1963, 1964, 1965, 1968, 2002, 2004 |
Flamengo | 7 | 1980, 1982, 1983, 1992, 2009, 2019, 2020 |
Corinthians | 7 | 1990, 1998, 1999, 2005, 2011, 2015, 2017 |
São Paulo | 6 | 1977, 1986, 1991, 2006, 2007, 2008 |
Cruzeiro | 4 | 1966, 2003, 2013, 2014 |
Vasco da Gama | 4 | 1974, 1989, 1997, 2000 |
Fluminense | 4 | 1970, 1984, 2010, 2012 |
Internacional | 3 | 1975, 1976, 1979 |
Atlético Mineiro | 3 | 1937, 1971, 2021 |
Botafogo | 3 | 1968, 1995, 2024 |
Grêmio | 2 | 1981, 1996 |
Bahia | 2 | 1959, 1988 |
Guarani | 1 | 1978 |
Athletico Paranaense | 1 | 2001 |
Coritiba | 1 | 1985 |
Sport Recife | 1 | 1987 |
Heimildir
[breyta | breyta frumkóða]- Fyrirmynd greinarinnar var „Campeonato Brasileiro Série A“ á ensku útgáfu Wikipedia. Sótt 11. ágúst 2024.