Fara í innihald

Batastefnan

Úr Wikipediu, frjálsa alfræðiritinu

Batastefnan eða batamiðuð þjónusta er nálgun í heilbrigðisþjónustu sem er ætlað að draga úr einkennum geðrænna sjúkdóma og auka lífsgæði þjónustuþeganna.

Batastefnan spratt upp úr hreyfingu notenda sem höfðu skoðanir á því hvernig meðferðin á þeim átti að fara fram. Hreyfingin kallaði sig Mental Health Consumer Movement og hefur hún verið til frá því í kringum 1970. Samfara því að langtímarannsóknir sýndu að hægt væri að ná bata af alvarlegum geðsjúkdómum fóru að birtast sjálfsævisögur sjúklinga sem höfðu náð miklum bata. Batastefnan varð til hægt og rólega og hafði það að markmiði að bæta endurhæfingarúrræði með því augnamiði að þau yrðu batamiðaðri í eðli sínu með því að innlima þá hugmyndafræði að hægt væri að ná bata.

Í framhaldi af þessu hefur hugmyndafræði batastefnunnar verið tekin inn í stefnu geðheilbrigðismála í mörgum enskumælandi löndum, t.d. Ástralíu, Kanada, Írlandi, Skotlandi, Bretlandi, Nýja Sjálandi og Bandaríkjunum. Einnig í Ísrael.

Batamiðuð þjónusta felur í sér að styðja þjónustuþega til að draga úr geðrænum einkennum og auka lífgæði þeirra með áherslu á að þjónustuþeginn sjálfur sé sérfræðingur í eigin lífi. Bati felur í sér gildi um rétt einstaklinga til að skapa sér þýðingarmikið líf með eða án geðrænna einkenna. Fagaðilar eða starfsfólk eru til staðar til að leiðbeina og styðja þjónustuþega til að ná þeim markmiðum sem þeir hafa sett sér. Starfsfólkið styður við þjónustuþega í að finna von, sköpunargáfu, samúð, raunsæi og seiglu til að geta tekist á við það sem á eftir kemur. Þá er mikilvægt að tengja fjölskyldumeðlimi og aðra aðstandendur í endurhæfinguna til að þjónustuþeginn fái allan þann stuðning sem þörf er á, óski hann eftir því. Markmiðið er að styrkja þjónustuþega í að verða félagslega virkir og taka að sér þýðingarmikil félagsleg hlutverk innan samfélagsins frekar en að vera ávallt á aðskildum stofnunum. Aðalútgangspunkturinn er þjónustuþeginn sjálfur en ekki sjúkdómafræði, veikindi, einkenni eða almenn heilsa hans. Ber hann ábyrgð á eigin meðferð og finnur styrkleika sína og setur sér gildi og markmið. Hugmyndafræðin byggir á sjálfsákvörðunartöku og sjálfsstjórn. Þjónustuþegar eru studdir í þá átt að þeir hafi stjórn á eigin lífi og finni þær leiðir sem henta þeim í leið sinni að bata. Mikilvægt er að hafa í huga að engin ein leið er að bata heldur getur ferlið verið mismunandi á milli þjónustuþega.

Á Íslandi hefur verið unnið markvisst að batastefnu frá árinu 2013. Horft hefur verið aðallega til Englands til samtaka sem nefnast Rethink Mental Illness og til Sainsbury Center for Mental Health. Haft hefur verið samband við fagaðila þar sem vinna út frá batamiðaðri þjónustu. Reynt verður að árangursmæla þjónustuna með spurningalistum sem hannaðir eru út frá batamiðaðri þjónustu. Árangurinn ætti að sjást í auknum áhuga og aukinni virkni þjónustuþega og vera mælanlegur í minnkaðri þörf þeirra á þjónustu geðsviðs. Í dag starfar fjölfaglegur samstarfshópur undir framkvæmdastjóra geðsviðs að innleiðingu batamiðaðrar þjónustu á endurhæfingu geðsviðs Landspítala. Árið 2017 var stofnaður Bataskóli Íslands.