Arnaldur Indriðason
Arnaldur Indriðason (fæddur 28. janúar 1961 í Reykjavík) er íslenskur spennusagnahöfundur og sagnfræðingur.
Arnaldur er sonur Þórunnar Ólafar Friðriksdóttur og Indriða G. Þorsteinssonar rithöfundar. Hann lauk BA-prófi í sagnfræði frá Háskóla Íslands árið 1996 og starfaði við Morgunblaðið frá því hann útskrifaðist úr Menntaskólanum við Hamrahlíð árið 1981, ýmist í lausamennsku eða fullu starfi. Hann var kvikmyndagagnrýnandi blaðsins frá 1986 til 2001.
Arnaldur hefur sent frá sér tuttugu og átta skáldsögur sem allar eru spennusögur. Skáldsögur hans hafa verið þýddar yfir á um 40 tungumál og hlotið góðar viðtökur, sérstaklega í Þýskalandi og Frakklandi en alls hafa selst yfir fjórtán milljónir eintaka af skáldsögum hans og þær hafa komist ofarlega á metsölulista í mörgum Evrópulöndum. Arnaldur hefur einnig unnið útvarpsleikrit upp úr nokkrum bóka sinna sem Leiklistardeild ríkisútvarpsins hefur flutt. Kvikmynd gerð eftir einni skáldsögu hans, Mýrinni, í leikstjórn Baltasars Kormáks, var frumsýnd árið 2006.
Arnaldur hlaut Glerlykilinn, Norrænu glæpasagnaverðlaunin, fyrir Mýrina árið 2002 og aftur ári síðar fyrir Grafarþögn.
Árið 2005 hlaut hann hin virtu ensku glæpasagnaverðlaun Gullrýtinginn frá Samtökum glæpasagnahöfunda fyrir ensku útgáfuna af Grafarþögn. Hann hefur einnig hlotið Grand Prix Littèrature Policiére í Frakklandi, sænsku Martin Beck verðlaunin fyrir Röddina og bandarísku Barry-verðlaunin fyrir Kleifarvatn, svo og fjölmargar aðrar viðurkenningar.
Skáldsögur
[breyta | breyta frumkóða]- 1997 – Synir duftsins
- 1998 – Dauðarósir
- 1999 – Napóleonsskjölin
- 2000 – Leyndardómar Reykjavíkur 2000 (kafli í spennusögu eftir nokkra höfunda)
- 2000 – Mýrin
- 2001 – Grafarþögn
- 2002 – Röddin
- 2003 – Bettý
- 2004 – Kleifarvatn
- 2005 – Vetrarborgin
- 2006 – Konungsbók
- 2007 – Harðskafi
- 2008 – Myrká
- 2009 – Svörtuloft
- 2010 – Furðustrandir
- 2011 – Einvígið
- 2012 – Reykjavíkurnætur
- 2013 – Skuggasund
- 2014 – Kamp Knox
- 2015 – Þýska húsið
- 2016 – Petsamo
- 2017 - Myrkrið veit
- 2018 - Stúlkan hjá brúnni
- 2019 - Tregasteinn
- 2020 - Þagnarmúr
- 2021 - Sigurverkið
- 2022 - Kyrrþey
- 2023 - Sæluríkið
- 2024 - Ferðalok